BALLIÐ Á BESSASTÖÐUM (2011)

Diskurinn Ballið á Bessastöðum inniheldur lög úr samnefndu leikriti eftir Gerði Kristnýju sem byggir að hluta á hinum vinsælu Bessastaðabókum hennar Ballið á Bessastöðum og Prinsessan á Bessastöðum. Tónlistin er eftir Braga Valdimar Skúlason sem er helst þekktur fyrir að vera hluti af Memfismafíunni og Baggalúti. Textar eru eftir Gerði Kristnýju og Braga Valdimar.

Bessastaðasögurnar er léttar og glettilegar sögur sem tónlistin endurspeglar vel. Tónlistarstílinn er léttur og textarnir húmorískir. Flest lögin bera keim af kántrítónlist meðan önnur eru hrein og bein diskólög.

Diskurinn er vel unnin, með góðum hljóm og bæði söngur og hljóðfæraleikur er góður.  Lögin sem slík eru flest prýðileg og það er mjög auðvelt að lenda í því að vera að raula lögin Ballið á Bessastöðum og Fagra litla diskókýr í marga daga eftir að hafa hlustað á diskinn.

Þar sem lögin tengjast auðvitað leikritinu og fjalla um ákveðin atriði þar þá saknaði ég þess helst að ekki væri leiklestur á milli laga þannig að söguþráðurinn myndi skila sér í gegnum diskinn. Ef maður hefur ekki séð leikritið er skilningur manns á textunum þar af leiðandi takmarkaður. Á móti kemur hinsvegar að lögin níu eru bæði með og án söngs sem er afbragðs hugmynd svo krakkarnir geta sjálf sungið lögin með undirleik en allir textarnir fylgja með í vönduðu umbroti. Ég hlustaði á diskinn með tveimur börnum, 6 og 9 ára, sem bæði virtust njóta tónlistarinnar. Þau tóku undir með mörgum laganna þó þau væru að heyra þau í fyrsta sinn og þegar Fagra litla diskókýr kom hoppuðu þau upp og fóru að dansa diskó. Hvorugt þeirra hefur séð leikritið en eftir að hafa hlustað á diskinn vaknaði áhugi þeirra og nú er búið að skipuleggja ferð á Ballið á Bessastöðum.

Niðurstaðan er að þetta er vandaður og skemmtilegur diskur sem krakkarnir hafa gaman af.

8 stjörnur.

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *