FLEET FOXES – HELPLESSNESS BLUES (2011)

Fleet Foxes áttu eina af betri plötunum árið 2008. Alla vega með bestu byrjendaplötum. Þeir heilluðu jafn eldri sem yngri músíkáhugamenn. Kannski var það vegna þess að þeir minntu á mörg eldri uppáhöld, t.d. Crosby Stills & Nash. Sérstaklega raddanir og kassagítarar.

Hljómsveitin var stofnuð í Seattle of vakti fyrst athygli 2006 í heimabæ sínum. Fyrsta EP platan seldist ekki mikið en fjölmiðlar tóku eftir þeim og þegar næsta EP plata Sun Giant kom út 2008 vissu allir meðvitaðir fjölmiðlar af þeim. Yfir milljón „hit“ á músík þeirra á Myspace síðu þeirra kallaði á tilboð frá ýmsum útgáfufyrirtækjum og loks vann Sub Pop, sem var reyndar komið í eigu Warner Bros þá vann og gerði plötusaming.

Pitchfork jafnt og Rolling Stone héldu ekki vatni yfir þroskaðri yfirvegun og fágun, þó Rolling Stone vöktu athygli á að veikleiki þeirra væri lagasmíðarnar.

Þegar stóra platan kom út varð nokkuð æði í kringum þá sérstaklega í Bretlandi og Evrópu og fengu þeir Music Awards Prize 2008 hjá Uncut, og vinur minn Allan Jones ritstjóri Uncut (sem ég skrifaði fyrir í gamla daga í Music Week), sagði að þrátt fyrir að hægt væri að rekja áhrifin væri tónlist þeirra einstæð og hreint út sagt glæsileg frumraun.

Platan var síðan ofarlega á árslistum flestra virtra fjölmiðla og seldist ágætlega líka þar sem hún féll í kramið hjá eldri áhugamönnum sem höfðu efni á að kaupa plötur.

Nýja platan er kannski ekkert síðri en líklega ekkert betri. Hún er vel upp tekin og hljóðfæraleikur og söngur óaðfinnanlegur. En eins og Rolling Stone sögðu þá er veikleiki þeirra lagasmíðarnar.

Þessi plata er dálítið búin að pirra mig. Hvert eru þeir að stefna? Þeir hljóma eins og kassagítarútgáfa af Yes með David Crosby og stundum Graham Nash innanborðs, en engin popplög eftir Nash bara miðlungs Crosby lög, sem hefur alltaf þurft hjálp til að krydda sína tónlist.

Yes samdi mörg góð lög og krydduðu tónlist sína með snillingum á gítar, hljómborð, bassa og trommur, á meðan Fleet Foxes eru safn ágætra kassagítarleikara. The Shrine/An Argument er 8 mínútna lag í anda Yes og ber af.

Þeir minna mig líka á Ameríska gospel tónlist og kristilega tónlist Ameríkananna!  Will The Circle Be Unbroken og Amazing Grace komu upp í hugann.

Það er mikið að gerast í tónlistinni í dag og það þarf góð lög til að heilla mig ekki bara sætt sánd.

Battery Kinzie, önnur smáskífan þeirra, er ágætt lag, titillagið er líka ágætt.

Ég bjóst kannski við of miklu, en ennþá er ég á því að Helplessness Blues séu vonbrigði, því ég ætlaðist til mun meira.

Gospel  músík er ekki mín deild né trúartónlist yfirleitt, hvað þá hvítt gospel, þó það skipti í raun ekki máli ef músíkin er góð.

Ég er búinn að vera með plötuna í bílnum í viku og hlusta alverlega á hana í gærkvöldi. Jú hún styrktist en það vantar eitthvað fyrir mig.

7 stjörnur

Þetta er grunnurinn á bajk við stjörnugjöfina:

0 = ekki einu sinni fyndið

1 = kannski einn ljós punktur

2 = hörmung

3 = vont eða lélegt

4 = Undir meðallagi

5 = meðalmennskan

6 = yfir meðallagi

7 = Gott

8 = Mjög gott

9 = Ein af plötum ársins

10 = ein af plötum áratugarins

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *