START – … EN HÚN SNÝST NÚ SAMT (1981/2011)

Pétur Kristjánsson leiddi margar góðar hljómsveitir á sínum tíma. Hann vakti fyrst athygli í Pops og lengi vel þekktur sem Pétur í Pops, en síðan kom Náttúra (1970), Svanfríður (1972-1973), Pelican (1973-1975), Paradís (1975-1977), Póker (1977-1979) og Start (1980-1983).

Eiríkur Hauksson sló í gegn á þessari plötu Start með lag sitt „Sekur“ , en hafði verið í ýmsum bílskúrsböndum þar á undan. Seinna meir stofnaði hann Drýsil og fór til Noregs 1988 og gekk til liðs við Artch og hefur starfað að mestu í Noregi síðan og er nú söngvari hljómsveitarinnar Ken Hensley (Uriah Heep) og Live Fire sem eru að gefa út plötuna Faster.

Eiríkur hefur líka átt feril sem Eurovision söngvari. Hann söng „Gleðibankann“ með Pálma Gunnars og Helgu Möller. Hann söng síðan „Mrs Thompson“ með norsku söngsveitinni Just 4 Fun 1991 og loks „Ég les í lófa þínum/Valentine Lost“ 2007. En auk þess oft tekið þátt í forkeppnum.

Start gerði bara þessa einu breiðskífu sem var ein sú rokkaðasta sem hafði þá komið út hér á landi. Gítarleikararnir Kristján Edelstein og Sigurgeir Sigmundsson áttu stóran þátt í því með Eiríki og Pétri.

Fyrirmyndirnar voru greinilega stóru nöfnin Uriah Heep og Deep Purple og sándið og lögin nokkuð í þeim anda.

Bandið sá að mestu um lagsmíðarnar. Jón Ólafsson, bassaleikari, samdi 4 lög, Eiríkur 5 lög og 8 texta, Nikulás Róbertsson, hljómborðsleikari, samdi 3 laganna og Sigurgeir 1 á upphaflegu plötunni og bæði instrumental aukalögin.

„Sekur“ , „Örvænting“ og „Lífið og tilveran“ standa upp úr, en á þessari útgáfu eru líka 5 aukalög.  Þar ber auðvitað hæst „Seinna meir“, sem var gefið út á smáskífu 1981. Lag eftir Jóhann Helgason og sungið af Pétri Kristjánssyni, ennþá eitt af klassísku íslensku lögunum okkar ásamt „Sekur“.

Tvö aukalaganna voru tekin upp 2006 löngu eftir að hljómsveitin var hætt, annað þeirra „Heilræðavísur“  er skemmtilegt þjóðlagarokk.

Vel þess virði að gefa þessa plötu út og líklega auðvelt að selja hana erlendum rokkáhugamönnum út á nafn Eiríks.

7 stjörnur.

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

One Response to START – … EN HÚN SNÝST NÚ SAMT (1981/2011)

  1. Ekki má gleyma norsku proggsveitinni Magic Pie sem nýverið var að senda frá sér plötu með Eika í broddi fylkingar. En það er gaman að fá þessa Start plötu á cd.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *