GILLIAN WELCH – THE HARROW & THE HARVEST (2011) 9 stjörnur

The Harrow & The Harvest er aðeins 5.  sólóplata Gillian Welch á fimmtán ára ferli. Hún  er fædd 1967, ættleidd af skemmtikröftum sem kynntu henni góða músík eins og Bob Dylan, Woody Guthrie og Carter Family og byrjaði að spila folk músík strax í grunnskóla. Gillian kom fram í sjónvarpsþætti þegar hún var í gagnfræðaskóla sem fyrirmynd sem stóð sig vel í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Á háskólaárum sínum spilaði hún á bassa í goth bandi og trommur í „sýru-surf band“!

En hún fékk opinberun þegar hún heyrði plötu með The Stanley Brothers og segir að allt í einu hafi hún fundið köllun sína í tónlist.

Eftir að hafa tekið háskólagráðu í ljósmyndun fór hún í Berklee Collage of Music í Boston þar sem hún kynntist Dave Rowlings, sem var með henni í kántrí bandi skólans.

Þegar þau luku námi fóru þau til Nashville eftir að hafa séð að allar uppáhaldshetjurnar höfðu tekið upp plötur þar,  Bill Monroe, Bob Dylan, Stanley Brothers og Neil Young.

T Bone Burnett tók eftir dúettinum og bauðst til að prodúsera fyrstu plötu þeirra Revival sem kom út 1996.

Platan vakti verðskuldaða athygli þó að ekki væru allir sammála um gæðin. En hún var tilnefnd til Grammy verðlauna.

Önnur plata dúettsins var Hell Among The Yearlings og það var þessi plata sem heltók mig.

Svipuð viðfangsefni, söguljóð í stíl gömlu hillbilly meistaranna um dauða, svik og ástir. Lögin öll eftir Dave og Gillian. Platan fékk að mestu góða dóma, en seldist ekki mikið en nafnið orðið nokkuð þekkt meðal þeirra sem betur fyldust með.

Síðan kom hlutur þeirra í kvikmyndatónlistinni í hillbilly myndinni „O Brother Where Art Thou?“. Þau áttu 2 lög á plötunni „I‘ll Fly Away“ með Alison Krauss og „Didn‘t Leave Nobody But The Baby“ með Alison og Emmylou Harris. Þessi plata seldist í skipsformum og vann Grammy verðlaun.

Gillian Welch var því mun betur kynnt þegar Time The Revalator kom út 2001.

Hér var þó nokkur breyting á því eins og þau segja þá gerðu þau rock plötu án rokk hljóðfæra. Rafmögnuð án rafmagnshljóðfæra!

Mörg laganna eru þegar orðin þekkt eins titillagið, „My First Lover“, „I Want To Sing That Rock n Roll“, „Elvis Presley Blues“  og 14 mínútna opusinn,  “I Dream A Highway“.

Aftur tilnefnd til Grammy verðlauna. Tvímælalaust ein af þessum ódauðlegu plötum.  Viðtökur góðar, vinsældir og sala góð.

Tveimur árum síðar kom  4ða platan, „Soul Journey“, fín plata en ekki sömu töfrarnir og á Time. Meira kántrí með fullri hljómsveit í flestum laganna.

Og þó að nú séu 8 ár á milli platna þá eru þau búin að vera á fjölda tribute platna og kvikmyndaplötum og projectum.

En eru átta ár of langur tími á milli platna?

Það virðist ekki vera því platan fór í 20 sæti Billboard sem er alveg ágætt og lang besti árangur þeirra. Platan er að mest órafmögnuð þó að segja megi á Dave Rowlings sé magnaður spilari.

Þetta er ekki jafn rokkuð eða jafn áberandi plata og “Time The Revelator”, en á móti er þetta líklega plata sem vinnur mjög á með tímanum. Og það koma ekki margar plötur út í dag á þessu kaliberi.

Spilamennskan, sándið, tilfinningin, lögin, textarnir … og stemmningin er eitthvað svo einstök.

Það mætti benda áhugasömum á músík sem er greinilega áhrifavaldar eins og Stanley Brothers, Louvin Brothers, Fairport Convention, Carter Family, Steve Earle, Richard Thompson, Joni Mitchell, Alison Krauss, Emmylou Harris. Bara hala niður, hlusta og kaupa síðan diska.

Bestu lögin eru The Way It Goes, Six White Horses, Dark Turn The Mind sem minnir á Patsy Cline, The Way It Will Be minnir á Fairport, Down Along The Dixie Line og vonda stelpan í Tennessee.

Kannski hafa Johnny Cash og Rick Rubin líka rutt brautina fyrir svona plötum.

Það er kannski ekki neitt nýtt hér, en á móti er hér bara einfaldlega perfect plata.

9 stjörnur

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *