Ingimar Eydal – Allt fyrir alla (2011) 8 stjörnur

Um miðjan sjöunda ára þegar ég 10 eða 11 ára púki og var að leita mér að popp-og rokktónlist til að hlusta á var ekki um auðugan garð að gresja í þeim efnum í útvarpi hér á Íslandi. Í Útvarpinu var helst von um að finna slíka tónlist í óskalagaþáttunum, sem voru eftir því sem mig minnir þrír, þ.e. „Lög unga fólksins“, „Óskalög sjómanna“ og „Óskalög sjúklinga“. Ein þeirra hljómsveita sem mikið voru spilaðar í þessum þáttum og einkum þá þeim tveimur síðarnefndu var Hljómsveit Ingimars Eydal , með söngvarna Þorvald Halldórsson og Vilhjálm Vilhjálmsson í broddi fylkingar en síðar bættist Helena Eyjólfsdóttir í hópinn. Þarna gaf að heyra lög eins og: „Litla sæta ljúfan góða“, „Á sjó“, „Vor í Vaglaskógi“, Bara að hann hangi þurr“ og fleiri. Þó svo að ég hefði nú meiri áhuga á útlendum hljómsveitum og svo Hljómum og Dátum, þá hlustaði maður yfirleitt á þessi lög sér til skemmtunar. Raunar heyrði maður þessi lög svo oft að þau settust smá saman að í sálinni og hafa raunar fylgt manni ávalt síðan. Oft hefur verið gert grín að sumum þessara laga en þau hafa nú lifað svo lengi með okkur Íslendingum að það er ekki annað hægt en að þykja vænt um þau á sinn hátt.

Ingimar var farinn að koma fram opinberlega áður en ég fæddist og fyrsta blómaskeið hans í hljómplötuútgáfu var á árunum 1958 og 59 þegar Atlantic kvartettinn og söngvararnir Óðinn Valdimarsson og Helena Eyjólfsdóttir sendu frá sér nokkur vinsæl lög, svo sem: „Magga“, „Ég skemmti mér“, „Manstu ekki vina“ og „Einsi kaldi úr Eyjunum“.

Síðasta vinsældarskeið Hljómsveitar Ingimars Eydal hvað plötuútgáfu varðar var á sjöunda áratugnum þegar þau sendu m.a. frá sér tvær stórar plötur: „Í sól og sumaryl“ árið 1972 og „Ingimar Eydal og hljómsveit“ 1975. Af þessum plötum urðu t.d. vinsæl lögin „Í sól og sumaryl“, „Hoppsa Bomm (Á skíðum skemmti ég mér)“, „Skín sól“, „Ródi raunamæddi“ og „Sumar og sól“.

Í tilefni af því að í ár hefði Ingimar Eydal orðið 75 ára hefði hann lifað hefur Sena gefið út úrval laga sem hann sendi frá sér. „Allt fyrir alla“ er þriggja diska safn sem spannar feril Ingimars frá 1958 til 1975. Á fyrsta diskinum er að finna 14 lög frá árunum 1958 og 59 en auk þeirra eru þar 6 lög sem tekin voru upp á dansleik í í Sjallanum á árunum 1966 og 67. Annar diskurinn hefur svo að geyma að mestu lög sem SG hljómplötur gáfu út frá 1965 til 1968, auk eins lags af Sjallaballi. Og Á þriðja diskinum eru svo nokkrar upptökur úr sjónvarpi auk úrvals laga af plötum sem komu út á áttunda áratugnum.

Mér dettur ekki í hug að ætla að reyna að leggja einhvern dóm á þessa tónlist, mest af henni er einfaldlega ekki minn tebolli. En Ingimar Eydal og hljómsveit hans eiga marga aðdáendur hér á landi og þá ekki síst norðan heiða þar sem hún starfaði lengst af. Ég held að ég hafi einungis tvisvar eða þrisvar séð þau og heyrt á sviði og það var um verslunarmannahelgar um og eftir 1970 og satt að segja eyddi ég þá meiri tíma í að hlusta á Trúbrot sem voru að spila á öðrum stað í skóginum. Þannig að ég er ekki heldur dómbær á getu þeirra sem danshljómsveitar. Enda þarf ekki mig til að segja fólki að þessi hljómsveit var einfaldlega einhver langlífasta og jafnframt vinsælasta danshljómsveit landsins um árabil. Þessi diskapakki ætti því að vera öllum þeim sem vilja rifja upp gamlar og góðar stundir kærkominn.

Útgáfa þessi er öll hin vandaðasta og í bæklinginum sem fylgir fylgja greinagóðar upplýsingar um hljóðfæraleikara og söngvara sem koma við sögu auk þess sem Jónatan Garðarsson skrifar góðan og vandaðan pistil um feril Ingimars. Þá finnst mér vert að geta þess að mér finnst það gefa söfnum sem þessum aukið gildi þegar þar er að finna lítt kunnugt efni eins og lögin af Sjallaballinu. Þau hljóta að ylja þeim um hjartarætur sem áttu þess kost að skemmta sér í Sjallanum á sínum tíma, þar sem fullt var út úr dyrum helgi eftir helgi, ár eftir ár. Það var vegna þess að þar innandyra var hljómsveit skipuð fólki sem kunni að skemmta öðrum.

8 stjörnur af 10

(Gunnlaugur Sigfússon skrifaði)

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *