HREKKJUSVÍN – LÖG UNGA FÓLKSINS (1977/2011) 9 stjörnur

Hrekkjusvínaplatan sló ekki beint í gegn þegar hún kom út 1977. En hún öðlaðist þó ódauðleika í gegnum tíðina og hefur verið sett á stall sem ein af merkilegri plötum 8. áratugarins. En þá má ekki gleyma því að flestar plötur Spilverks Þjóðanna seldust heldur ekkert vel í byrjun.
Ég hef alltaf litið á Hrekkjusvínaplötuna sem hluta af Spilverksplatnasafninu eins og Stuðmenn og Jolli og Kóla.  Valgeir Guðjónsson og Leifur Hauksson, sem var í hinni stórgóðu hljómsveit Þokkabót, sem gerði nokkur listaverk, semja tónlista og rithöfundurinn Pétur Gunnarsson var fenginn til að semja textana, þó að Valgeir og Leifur hefðu nú verið fullfærir í verkefnið sjálfir. Gott ef þeir ekki búnir að vinna saman í leikhúsinu eitthvað áður, en lög af Sturlu voru notuð í Grænjöxlum, leikriti eftir Pétur Gunnarsson, ef ég man rétt.
Þokkabót átti fleiri fulltrúa á plötunni því Eggert Þorleifsson syngur og spilar á flautu, Magnús Einarsson spilar á bassa og syngur og Ingólfur Steinsson er í bakröddum.
Egill Ólafsson, Spilverksfélagi Valgeirs syngur og Ragnar „Gösli“ Sigurjónsson, sem spilaði smávegis með Stuðmönnum, trommar. Og Jóhanna Þórhallsdóttir úr Diabolus In Musica syngur líka og Diddú líka, en þær hafa báðar gleymst í upptalningunni í umslaginu yfir flytjendur. Og það er við hæfi að Sigurður Bjóla endurhljóðblandaði og tók upp nýju lögin þrjú sem Valgeir semur.
Textarnir hans Péturs eru ennþá beittir og hnyttnir og tónlistin er létt, lipur og full af gleði og lífi.
Þessi lög hafa greipst inn og stundum hefur maður ekki verið viss um á hvaða Spilverks eða Stuðmannaplötu þau voru.
Grobbvísan „Afasöngur“ (Krakkar mínir, krakkar mínir) stenst vel tímans tönn eins og öll lögin reyndar, „Ekki bíl“ og „Gestir út um allt“ eru þó mín uppáhaldslög, mjög góð.
Þessi plata var aldrei barnaplata í mínum huga. Stóra stelpan mín sem var fjögurra ára þegar platan kom út hlustaði á Róbert bangsa plöturnar frekar.
Ríó Tríó áhrifin voru líka með eins og í „Hvað ætlar þú að verða?“ og Þrjú á palli í „Lygaramerki á tánum“,  en annars var blandan fyrst og fremst Spilverkið, Stuðmenn og Þokkabót.
Sándið er gott og platan er góð viðbót í öll söfn, þó þið eigið gamla vinylinn! En sleppið því að troða þessu upp á börnin!
(HIA) 9/10

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *