Magnús og Jóhann – Ástin og lífið 1971-2011 (2011) 7 stjörnur

Árið 1972 sendu Magnús og Jóhann frá sér sína fyrstu plötu. Á henni var ljúf og þægileg tónlist sem passaði mjög vel tíðarandanum. Tónlistin var í anda þess sem amerískar hljómsveitir eins og Bread og America og svokallaðir singer sonwriters sem þá voru að koma fram á sjónarsviðið voru að gera. Ég keypti þessa plötu á sínum tíma og líkaði vel. En hún er nú löngu horfin úr safni mínu. Það var einhver breskur tónlistarútgefandi sem gerði sér grein fyrir að þarna voru á ferð ungir menn, sem ekki voru bara þokkalegir flytjendur, heldur einnig efni í afbragðs lagasmiði. Þar með hófst löng þrautarganga Magnúsar og Jóhanns í glímunni við að öðlast heimsfrægð.

Eitthvað lét heimsfrægðin standa á sér og áður en leið á löngu lauk samstarfi þeirra félaga. Þeir héldu ótrauðir áfram hvor um sig. Jóhann var til að byrja með meira áberandi sem liðsmaður „Lumanna“ og „Þú og ég“ en á níunda áratugnum fóru að koma frá honum sólóplötur. Magnús gaf árið 1975 út ágæta plötu en jafnframt svolítið óvenjulega plötu sem heitir „Happiness Is Just A Ride Away“ og hefur að geyma demó upptökur sem hann gerði með hljómborðsleikaranum Pete Solly. Þessi plata er því miður algerlega fallinn í gleymskunnar dá og með henni mörg ágætis lög. Það má segja að eftir útkomu þessarar plötu hafi ég ekki fylgst með ferli þeirra félaga af sérstökum áhuga. Áhugasvið mitt varð annað en tónlist Magnúsar og Jóhanns hafði upp á að bjóða. Mér hefur þó alltaf verið ljóst að þeir eru góðir lagasmiðir.

Í tilefni af því að nú eru liðin 40 ár síðan að Magnús og Jóhann fóru fyrst að láta að sér kveða og að því tilefni héldu þeir tónleika í Austurbæ fyrr á þessu ári og um leið var gefið út safn laga, sem þeir hafa áður sent frá sér saman eða í sitt hvoru lagi, á tveimur diskum.  Það er svolítið skrítið að gefa út safn þar sem þeir flytja megnið af efninu hvor um sig. Það varð m.a. annars til þess að ég hætti við að kaupa mér safnið þegar það var gefið út. Ég vildi fyrst og fremst fá saman í pakka það sem þeir höfðu gert saman. Eftir að hafa hlustað á diskana er ég hins vegar bara nokkuð ánægður með útkomuna. Þarna eru saman komin lög sem hafa sungið sig inn í þjóðina svo sem: „Álfar“, Seinna meir“, „Jörðin sem ég ann“, „Karen“, „Ég labbaði í bæinn“, „Söknuður“, „Ást“, „Í Reykjavíkurborg“,  „Ég gaf þér allt mitt líf“, „Ísland er land mitt“ og „Freyja“.

Fyrri diskurinn er ágætur áheyrnar, með nokkrum undantekningum þó. „Take Your Time“ af plötunni Tess hefði allt eins getað verið að seinni diskinum og „Freyja“ hefði getað lokað safninu á eftir „Ísland er land þitt“. Þá hef ég aldrei skilið hvernig Jóhann Helgason komst upp með að gefa út „She´s Done It Again“, sem er fengið einum of mikið að láni frá Billy Joel.

Seinni diskurinn er ekki eins áheyrilegur og sá fyrri. Sennilega vegna þess að hann er ójafnari að gæðum og einfaldlega sterkari lög á fyrri diskinum. Hitt gæti líka verið að þar sem lögin eru innbyrðis ólíkari og þess vegna verður heildin ef til vill ekki eins góð.

Á heildina litið er þetta safn vel heppnað þó mér hafi reynst erfitt að hlusta á þetta allt í einni beit.

(GYS) 7/10

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *