Jón Múli Árnason – Söngdansar og ópusar (2011) 9 stjörnur

Jón Múli var sérstakur karakter og í raun og veru einstakur í Íslandssögunni. Einstakur djassáhugamaður en um leið einarður kommúnisti, þannig að þar mættust austrið og vestrið með sérstökum hætti. Hann var heimilisvinur allra landsmanna um áratugaskeið, sem útvarpsþulur og þáttagerðamaður þar sem hann kynnti landsmönnum og kenndi allt sem viðkom djasstónlist. Hann spilaði á kornet með Lúðrasveit verkalýðisins og samdi lög. Það síðastnefnda virðist hafa verið gert til þess að skreyta tónum leikhúsverk sem hann samdi í félagi við Jónas bróður sinn. Þau voru ekki mörg lögin sem Jón Múli samdi en það er eftirtektarvert hversu mörg þeirra náðu vinsældum og ekki síður hversu góðu lífi þau lifa enn þann dag í dag. Þó er það í raun og veru ekkert skrítið. Þetta eru einstaklega notaleg og söngvæn lög með léttri sveiflu vel flest. Þau eru djössuð í grunninn enn samt finnst mér þau hvergi geta hafa verið annarsstaðar samin en á Íslandi.

„Sena“ hefur nú gefið út þriggja diska safnið „Söngdansar og ópusar“  sem inniheldur lög Jóns Múla. Raunar eru lögin sem eftir hann liggja ekki mikið fleiri en svo að þau fylli einn disk en þau hafa verið útsett með ýmsum hætti í gegnum tíðina þannig að af nógu er að taka.

Fyrsti diskurinn hefur að geyma frumgerðirnar á lögunum og eru þau eins og gefur að skilja misjafnlega vel sunginn af þeim leikurum sem fyrst fluttu þau. Engu að síður er gaman að heyra þetta og eiga.

Á öðrum diskinum eru nýrri útgáfur af lögunum og er þetta sennilega sá diskur sem oftast verður spilaður. Þar er að finna söngvara á borð við Sigríði Thorlacius, Ólaf Þórðarson, Ragga Bjarna, Guðrúnu, Sigurð Guðmundsson ofl. Þar er líka syrpa sem „14 Fóstbræður“ sungu inn á plötu um miðjan sjöunda áratuginn en það var einmitt með þeirri syrpu  sem ég kynntist lögum Jóns Múla fyrst og það er kannski þess vegna sem þau lög sem þar er að finna eru mér kærust.

Þriðji diskurinn hefur síðan að geyma „instrumental“ útgáfur af vel völdum lögum og koma þar ýmsir við sögu, en oftast þeir Óskar Guðjónsson, saxófónleikari og Eyþór Gunnarsson, hljómborðsleikari, enda þeim síðarnefnda málið ákaflega skylt.

Þegar fjallað er um tónlist Jóns Múla er rétt að geta þess að söngtextar eru eins og eflaust alþjóð veit flestir eftir Jónas Árnason og þeir falla allir sérlega vel að lögunum.

Diskarnir eru allir afskaplega áheyrilegir og skemmtilegir þó svo að stundum mætti ef til vill ef vilji væri fyrir hendi fetta fingur út í einstaka val á flytjanda eða uppröðun laga. En það eru slíkir smámunir að ekki tekur að vera fara nánar út í þá sálma hér.

Útgáfa þessi er vönduð í alla staði. Greinagóðar upplýsingar og söngtexta er að finna í bæklingi og þar sem þær eru prentaðar með svörtu á hvítt þannig að hálfblint fólk eins og ég getur lesið það sem þar stendur.

(GYS) 9/10

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *