VALGEIR GUÐJÓNSSON – SPILAÐU LAG FYRIR MIG (2012) 3CD – 8 stjörnur

Valgeir Guðjónsson er snjall lagasmiður, öruggur og persónlegur söngvari, heillandi persónuleiki og hefur gefið út góðar plötur bæði einn og með öðrum. “Spilaðu lag fyrir mig” er þriggja platna safn gefið út í tilefni af 60 ára afmæli kappans og leiðir okkur í gegnum mest allan feril hans, en þó ekki allan.

Mig minnir að ég hafi séð Valgeir fyrst á þjóðlagakvöldi í MH, en skömmu síðar, 1974, kom út smáskífa Stuðmanna með lögunum “Honey Will You Marry Me?” og  “Draumur okkar beggja” sem er elsta lagið í safninu. Eftir það komu fyrstu plötur Spilverks þjóðanna og Stuðmanna árið 1975, sem voru báðar tímamótaverk hvort á sína vísu. 1976 komu þrjár plötur: CD nærlífi og Götuskór með Spilverkinu og Tívolí með Stuðmönnum. 1977  komu plöturnar Sturla með Spilverkinu, meistaraverk þeirra, Hrekkjusvínaplatan og Á bleikum náttkjólum sem Spilverkið gerði með Megasi.

Spilverkið gerði Ísland 1978 án Egils Ólafssonar, og Bráðabirgðabúgí 1979.

1981 gerði Valgeir kvikmyndaplötuna Punktur punktur komma strik og 1982 kom kvikmyndaplata Stuðmanna, Með allt á hreinu.

Jolli og Kóla (Valli og Bjóla) gerðu plötuna Upp og niður 1983 og Stuðmenn gáfu út Tórt verður til trallsins og Gráa fiðringinn sama ár. Stuðmenn gerðu aðrar tvær 1985 Kókóstré og hvítir mávar og Í góðu geimi og Valgeir gerði sína fyrstu alvöru sólóplötu, Fugl dagsins, sama ár.

Ári síðar var Valgeir með lög á kvikmyndaplötunni Stella í orlofi og 1987 var hann í Strax á samnefndri plötu og líka Stuðmannaplatan Á gæsaveiðum.

1988 kom sólóplatan Góðir Íslendingar og 1989 sú næsta Góðir áheyrendur og Stuðmanna platan Listin að lifa. Safnplata Spilverksins, Sagan, kom 1997 en næsta nýja efni sést ekki fyrr en árið 2002, sólóplatan Skellir og smellir og Á stóra sviðinu með Stuðmönnum. 2005 kemur hljómleikaplata Stuðmanna Royal Albert Hall, útrásarplatan, got ef ekki í tengslum við útrásarvíkinga og/eða bankamenn, sem voru í meirihluta á öllum stórtónleikum á Íslandi á þessum arum með kampavín, rauðvín og hvítvín í hönd og mikið skvaldur. Frummenn, upphafleg útgáfa Stuðmanna gerðu plötuna Tapað fundið í Nashville 2006, sem var bara fín en týndist algerlega. Síðan er það bara Spilverks afgangaplatan Pobeda 2010 sem kom í heildarkassanum og nú þetta þriggja diska safn.

 

Ég átta mig ekki alveg á uppröðuninni. Fyrsta platan byrjar á Popplagi í G-dúr sem er líklega langvinsælasta lagið sem hann hefur komið nálægt, síðan kemur Sirkus Geira smart, sem var á Sturlu, og eins og elstu menn muna þá var mikil kreppa þá, bara örlítið öðruvísi og auðveldara að bæla almúgann niður. (Bráðum kemur ekki) Betri tíð er enn annað kreppulagið, skrýtið hvað þau eru fá núna! Þarna eru líka smellir eins og Ég held ég gangi heim, She Broke My Heart sem Long John Baldry gerði svo vel með Stuðmönnum og Afasöngur Hrekkjusvínanna.

Á annarri plötunni má finna Grænu byltinguna Spilverksins, Íslenska karlmenn Stuðmanna, Stellu í orlofi og Slá í gegn með Stuðmönnum, svo eitthvað sé nefnt.

Og á þriðju plötunni má síðan finna Strax í dag með Steinku Bjarna og Stuðmönnum, Styttur bæjarins og Plant No Trees með Spilverkinu og Bíólagið með Stuðmönnum, auk Gerum okkar besta með handboltalandsliðinu og mörg önnur góð.

Mér finnst vanta eitthvað af Frummannaplötunni, en fékk þá skýringu og Valgeiri hafi þótt sem hann ætti ekki nógu mikið í lögunum á henni. Ef það er rétt skýring þá held ég að hann hafi nú ekki átt meirihlutann í öllum lögunum sem er á plötunni, sem fellir þá kenningu.

En hvað um það þetta er gott safn hjá honum og verðugur vitnisburður um ferilinn.

Ég fór ekki á tónleikana í Hörpunni en sá þá í sjónvarpinu og þótti bara góðir, þó ég hafi saknað Sigurðar Bjólu í vina- og samverkamannahópinn. Og dagskráin var nokkuð ólík þessu safni, sem var bara bónus.

Ferill Valgeirs hefur í raun verið samfellt línurit vinsælda með þó nokkuð mörgum hápunktum. Ferill Valgeirs er líka mjög tengdir félögum hans þó hann hafi sannað sig einn sins liðs. En eins og Bítlarnir voru bæði Spilverkið og Stuðmenn margfalt sterkari saman en sundur.

Þetta er gæðagripur, góð lög frá góðum lagasmið og flytjanda, sem hefur svo sannarlega sett mark sitt á íslenska tónlistarsögu.

Bókin sem fylgir hefði mátt vera vandaðari, ferilinn hefði mátt skrá og línurit og upplýsingar um útgáfuferilinn.

En hún verðskuldar 8 af 10 stjörnum.

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *