BUBBI MORTHENS – ÞORPIÐ (2012) 9/10

Þorpið með Bubba Morthens er ein af þessum plötum sem þolir mikla spilun og er heilsteypt. Lögin fjalla flest um landsbyggðina og á dálítið nöturlegan hátt oftast. Hér stoppar hann, staldrar við, syrgir fólk, sveitarómantíkina og liðna tíma.

Platan byrjar lágstemmt á laginu Óttinn, óð til dóttur eða sonur, næstum því heilræðavísa, þessi ósk um að börnin spjari sig í gegnum freistingar unglings og umbreytinga áranna þegar þau eru að leita sjálfstæðs eigin lífs. 

Vonir og þrár er uppáhaldslagið mitt, píanólínan er heillandi, Bubbi syngur lágt og spilið er temprað.  Sviðsmyndin er síldarbær sem verður fyrir því að sjá á eftir síldinni hverfa.

Gítarpikkið og hljómfallið í laginu Óskin minnir mig á Donovan og lagið Geraldine, sem fjallaði um óléttu stúlkuna Geraldine, ekkert nema gott um það að segja, þessa sagnameðferð þarf að lifa. Textinn er af sama meiði og Óttinn, nema hér bara sungið til dóttur og ekkert um neina óléttu.

Ballöður hafa ætið átt sterkan sess í þjóðlagatónlist. Við erum að tala um söguljóð og þau mega endilega vera miklar langlokur. Ballaðan um bræðurna er átta erindi og rétt rúmlega fimm mínútur. Textinn á sorglegan sannsögulegan bakgrunn sem hann byggir á. Ég er hrifinn af svona lögum, enm það var Johnny Cash líka og margir aðrir. Vel gert. Ég hélt reyndar að erindin ættu að vera fleira, en sagan er heil og fullsögð.

Þerraðu tárin minnir á Íslensk og Írsk ættjarðarljóð, svona Danny Boy … með smá souli.

Bankagælan er dálítið á skjön við annað á plötunni. Kannski til að rífa hana upp. Þetta er þekktur stíll úr country og folk geiranum. Dálítið skiffle og cajun með nikku í aðalhlutverki.

Svo kemur Þorpið sem menn hafa argast út í, að það sé neikvætt og gefi ekki rétta mynd. Ég er líklega löngu orðið borgarbarn, en kannski sér maður betur sem gestur?  Þótt furðulegt sé þá hefur fiskurinn farið illa með byggðir þar sem hann hefur verið seldur burt. Og ekki má gleyma því þegar strandferðir Eimskip og fleiri voru lagðar niður, það hlýtur að hafa haft sín áhrif. Þorpið er gott lag og Mugison, sem syngur það með honum styrkir það.

Hörður Torfason kemur strax upp í hugann í byrjun Skipstjóravalsins, bæði röddin, gítarpikkið og auðvitað textagerðin. Og valsformið í þjóðlagatónlistinn er sterk hjá Herði í anda Bellman, Taube og Lorca og jafnvel Cohen. Saknaðarljóð fyrri tíma og ásta og stoltið að hafa skilað sínu, börnunum menntuðum, vel lukkuðum og fínum!

Þegar konan fékk kjarkinn minnir mig á tvö lög sem ég efast um að Bubbi hafi heyrt , annað heitir „Amelia Earhardt Last Flight“ lagið og spilamennskan og þá er ég að tala um útgáfu Plainsong á því lagi. Hitt lagið er annað „sumarlag“, Summer Before The War sem er á Red And Gold með Fairport Convention, alltaf gaman að vera minntur á góð lög.  Smá country, Woody Guthrie og Hank Williams. Textinn er í minnispunktastíl sem á vel við.

Það eru til yfirgefin þorp eins og það sem Bubbi fjallar um í Sjoppunni, með sinn sjarma fyrir ferðalanga og gott myndefni. En kannski er þetta allt að breytast með „nýrri síld“ ferðamannabransanum?

Eins flott og lagið Er þetta allt? Er textinn nöturlegur. Man eftir að hafa lesið svonu bölsýnisljóð í skóla einhverra hluta vegna.  Er Bubbi búinn að spila Kaffi kökur og rokk og ról?

16. ágúst skilst mér að fjalli um barnslát þeirra hjóna Bubba og Hrafnhildar. Enn og aftur minnir það á einhver ljóð sem ég las sem unglingur án þessa að læra utanbókar eða höfunda. Eins og sumir textanna einskonar dagbókarfærsla – Facebook færslur mundu sumir segja.

Ég veit ekki hvað skal segja um lagið Það er kona að blogga mig. Bubbi er hér kominn í Brimklóarham, Ég las það í Samúel. Vel á minnst Brimkló léku sér að svipaðri tónlist ákkúrat þegar Bubbi „bloggaði“ þá í denn J.  Þessi Jenný skilst mér að sé til og hennar blogg er í sjálfu sér ekkert ólíkt blogginu hans Bubbi og bæði telja sig segja sannleikann, verja sannleikann og skjóta eitruðum skotum af og til á óréttlæta.  Dálítið „Devil Went To Georgia“ með tilheyrandi fiðluútrás.

Fjórtán öskur á þykkt er svona dagbókarfærsla, systurlag Er þetta allt? – nöturlegt. Lagið er hins vegar líka flott einfalt sumarlag?

Og hvert leiða þessar pælingar um lögin? Textarnir draga mig niður, en oftast verða þeir bara að orðum og lögin leika í kollinum. Lögin eru öll grípandi góð og umfjöllunarefnið flest umfjöllunarverð.  

Þeir segja að þetta sé 24. breiðskífa Bubba með frumsömdu efni og hún er þarna uppi í úrvalsdeildinni.

Með fyrstu pressu plötunnar fylgir myndbandið Óskin en leikstjórinn Árni Sveinsson gerði um gerð plötunnar, og gefur smá innsýn í plötuna og ágæt viðbót.

Hia

9/10

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *