HAFDÍS HULD – VÖGGUVÍSUR (2012) 8 stjörnur

Hafdís Huld hefur gert tvær frábærar plötur með frumsömdu efni sem hafa verið sér á báti í íslenskri útgáfu. Hún er næm á melódíur, hefur gott vald á röddinni og hefur skapað sér sinn eigin stíl.

Hún var búsett í Englandi til skamms tíma, en flutti til Íslands skömmu eftir hrun (ef ég man rétt) ásamt manni sínum enskum, Alisdair Wright, settist að í Mosfellsveit (eða bæ) og lét ekki mikið af sér kveða nema að senda út hljómleika á netinu í tví- eða þrígang frá heimili sínu.

Það kemur ekki mikið á óvart að nýja platan hennar heiti Vögguvísur og innihaldi barnagælur gamlar og nýjar. Hún eignaðist nefnilega stúlkubarn 17. júní síðastliðinn.

Það er ekki hægt að bera þessa plötu saman við fyrri plötur hennar á þessu stigi, en hins vegar hafa verið gefnar út barnaplötur og lög með vögguvísum allt frá Megasi til Guðrúnar Á Símonar.

Plata Hafdísar er í algerri andstöðu við Megasarplötuna, þar sem barnafælur voru í aðalhlutverki. En sú tíð var að börn voru hrædd í svefninn, hvernig sem það átti að virki, líklega hefur uppeldið byggst á ótta við myrkrið, óvættir og drauga meðal annars.

Sex laganna eru frumsamin eða með frumsömdum textum. Alisdair og Hafdís eiga Ljós, Ævintýralönd og Sofðu. Öll með fallegum textum um ástúð, náttúru og dýr, öll nokkuð í stíl klassískra vögguljóða. Hafdís Huld og Fabúla, eða Margrét Kristín Sigurðardóttir, eiga síðan Nóttin læðist inn, Hafdís á textann Góða nótt við lag Brahms, og Litlar stjörnur (The Star eða Twinke Little Star), við lag Mozarts (held ég). Ég á þetta allavega á vögguvísuplötu Donovans, HMS Donovan.

Síðan er lagið Óskasteinar við ljóð/texta Hildigunnar Halldórsdóttur, texti saminn á síðust öld við ungverkst þjóðlag, og fyrst mest sungið af skátum held ég. Þú ert, er lag sem Þórarinn Guðmundsson samdi og Helgi Pé gerði vinsælt eftir að það hafi að mestu verið sungið af „lærðum“ söngvurum, og lagið Sólskin (You Are My Sunshine) með nýjum íslenskum texta Hafdísar.

Sofðu unga ástin mín er reyndar í Megasarflokknum, upphaflega svokölluð barnafæla. Þetta lag var frumflutt í Fjalla Eyvind eftir Jóhann Sigurjónsson árið 1912 þegar uppeldisfræðin voru önnur, börn borin út og (í tilfelli leikritsins) fleygt í fossa. En lagið er fallegt og ljóðið dapurt.

Dvel ég í draumahöll er líka úr leikriti, Dýrunum í Hálsaskógi. Allir muna eftir því þgar Lilli klifurmús er búinn að svæfa Mikka ref og syngur þetta hugljúfa lag, en óvætturinn liggur við rætur trésins… humm…

Í Pilti og stúlku, eftir Jón Thoroddsen frá 1850, var ljóðið Bí bí og blaka, og varð vinsælt í þeirri útgáfu, en þar hafði nokkrum barnafæluerindum verið hent út og textinn eftir það allra vinsælasta vögguvísa Íslands.

Frost er úti fuglinn minn og Sofa urtubörn eru um samanburð við líf dýranna og hvað barnið eigi það gott, bæði svokallaðar Vögguvísur.

Bíum bíum bambaló eftir Jónas Árnason, tengir dálítið saman vögguvísuna og barnafæluna, en Hafdís breytir þó textanum snilldarlega, þar sem fælan er fæld burt.  Í stað að syngja:

Vini mínum vagga ég í ró,

En úti bíður andlit á glugga.

Þá syngur Hafdís Huld:

Vini mínum vagga ég í ró,

En úti bíður nóttin á glugga.

Mér þykir þetta góð plata, hún lætur lítið yfir sér, en hugsunin er skýr og falleg. Hlýtur að vera kærkomin barnafólki, því við eigum að syngja fyrir börnin, það er hluti af uppeldinu og nálægðinni. Ef við klikkum á því klikkum við á grundvallaratriði.

Falleg og vel gerð plata.

8 af 10 stjörnum.

hia

p.s. Megasar „barnaplatan“ er ekki fyrir börn eða barnafólk. Ég var að ala upp barn þegar hún kom út og varð fráhverfur tónlist hans á þeim tíma fyrir bragðið.

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *