MANNAKORN – Í BLÓMABREKKUNNI (2012) 10 stjörnur

Þú gerir allt svo vel eru einkennisorð þessarar plötu. Þegar ég ætlaði að velja nokkur lög sem bestu lög plötunnar var ég allt í einu kominn með þau öll 10!

Þetta er ein af þessum ofur persónulegu plötum. Maggi Eiríks er að fara í gegnum eitthvað tímabil og þarf að semja um það, sem er gott og blessað og skilar stundum bestu plötum rokksins. Skýrskotun í ljóð 100-200 ár aftur í tímann finnst mér vera nokkuð mikil, kannski ekki skrýtið þar sem ljóðalestur og ljóð voru kennd strax á fyrsta ári í barnaskólum langt fram eftir síðustu öld.

Í titilaginu fjallar hann um blómabrekkuna sem er hinum megin lífisins. Annar texti fjallar um um kirkjugarðinn, eftir Stein Steinarr, eina ljóðið sem er ekki eftir Magnús sjálfan.

Annars staðar er blúsinn í ýmsum myndum, en það er allt svo vel gert! Textarnir hafa allir eitthvað að segja og allir með einhverja lífsreynslu hljóta að sjá sig í flestum textanna; vonandi ekki bara ég 🙂

Lögin eru öll góð í þessum country, blues og gamla góða íslenska vals stíl. Pálmi Gunnarsson er oftast röddin hans Magnúsar og mildar og mýkir og gæðir fágum með þessari stórkostlegu rödd og túlkun sem ber vott um hluttekninu og tilfinningar. Ellen Kristjánsdóttir syngur tvö laganna: Meðan sumar framhjá fer og Ég vil bara eiga þennan og eins alltaf kemur hún, sér og sigrar, hún klikkar ekki.

Útsetningar eru lágstemmdar og einfaldar, á meðan spilarar eru fyrsta klassa og þurfa ekkert að sanna það.

Ég er búinn að spila þessa plötu í bílnum í nokkrar vikur og löngu farinn að syngja með. Og þrátt fyrir umfangsefni textanna er platan Í blómabrekkunni hressileg plata.

10 af 10 stjörnum.

Já og svo má finna aukalög á netinu: Iðrast ekki neins og Leigubílar… ágæt aukalög, sem hefðu ekki skaðað heildarmynd plötunnar.

 

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *