BRIMKLÓ – SÍÐAN ERU LIÐIN MÖRG ÁR 1972-2012 (2012) 8 stjörnur

Brimkló var vinsæl hljómsveit bæði á böllum, í útvarpi og á plötum á árunum 1972 – 1981. Fjölmörg laga þeirra lifa enn góðu lífi í hugum okkar og í ljósvökunum..

Þeir gáfu út 6 breiðskífur auk einnar safnplötu á ferlinum sem hófst 1972. Þettar var súpergrúppa, Björgvin Halldórsson, Arnar Sigurbjörnsson og Sigurjón Sighvatsson voru allir í Ævintýri áður og fengu til liðs við sig þá Ragnar Sigurjónsson (Gösla) og Hannes Jón Hannesson, sem höfðu verið í Mánum og Fiðrildi. En þegar fyrsta breiðskífan kom út 1976 voru þeir hættir og höfðu bara gefið út eina smáskífu, Kysstu kellu að morgni, með Jónasi R. Jónssyni, sem tók við af Björgvini 1974, þegar hann gekk í Hljóma og Ðe Lónlí Blú Bojs og fór síðan til London og gekk til liðs við Change og gerði Vísnaplöturnar með Gunna Þórðar og Tomma Tomm.

Ferill Brímkló byrjaði í augum flestra með með plötunni Rock n Roll öll mín bestu ár og lögunum Síðustu sjóferðinni og titillaginu, bæði amerísk kántrípopplög. Mac Davis og Terry Jacks höfðu gert titillagið frægt og City Of New Orleans hafði Arlo Guthrie vinsælt. Í mínu rökkurhjarta (In My Hour Of Darkness- Gram Parsons) og Stjúpi (Merle Haggard) eru meðal 7 fulltrúa fyrstu plötunnar. Allt flott.

Næsta plata kom út ári síðar, Undir nálinni. 7 lög af þeirri plötu má finna hér. Tvö lög eftir Chip Taylor sem samdi Wild Thing og Angel of The Morning, en lögin hans eru Síðan eru liðin mörg ár og Ég las það í Samúel. Bla Bla Blaðamaður er jafn neyðarlegt og Ég las það í Samúel heppnast vel, en það er önnur saga. Eitt af uppáhöldum Björgvins, Tom T Hall á lagið á bak við Mannelsku Maju.

Þriðja platan kom út 1978, … eitt lag enn, og af henni eru 5 lög og var titillagið íslensk útgáfa af Stay eins Jackson Browne gerði það, langbest.

7 lög eru síðan af Sannar dægurvísur sem kom út 1979. Þaðan er Sagan af Nínu og Geira með Diddu í dúett, Herbergið mitt eftir Arnar við texta Vilhjálms frá Skáholti, Dægurfluga instrumental lag eftir Bjögga, ekki síðra en Garden Party Mezzoforte, og Kiddi Svavars á saxófón meira að segja líka, og Ég mun aldrei gleyma þér eftir Marty Robbins.

Síðan eru átta lög af Glímt við þjóðveginn sem kom út 1981 og hefði getað verið betri miðað við fyrstu mixin sem ég fékk að heyra hjá Bjöggi snemma í upptökum plötunnar.  En hvað um það, af þessari plötu lifa lögin Skólaball eftir Magga Kjartans og Þjóðvegurinn  eftir Magga Eiríks.

Smásögur var síðasta plata Brimklóar, hún kom út þegar bandið var endurreist 2004. 7 lög af þessari plötu eru hér, þar af Bolur inn við bein, Presturinn og fanginn og 3 litlir krossar.

Í heild er þetta ágætt safn, reyndar er stór hluti hverrar plötu í þessu safni, ekki mikið sem er ekki með og tvö ný lög: þar af Í óbyggðum, sem er að fá spilun í útvarpi.

Miðað við það, út af hverju ekki bara heildar útgáfu, með einni aukaplötu?

En stærstur hluti þessa safns er þrælgóður. Sumt er úr auðvitað í takt við fyrri tíma, það má finna misgóða texta innan um, en það er bara tímanna tákn.

Og saga Brimklóar, texti Jónatans Garðarssonar er fræðandi og skemmtileg lesning.

Brimkló var gott band, góð hugmynd, mikið af góðum músíköntum, og fullnægði ákveðnum þörfum bolans á þessum tímum og gerir enn.

8 af 10 stjörnum

 

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *