HLJÓMSKÁLINN (2012) 8 stjörnur

Hljómskálinn er sjónvarpsþáttur í umsjá Sigtryggs Baldurssonar, sem var í sjónvarpinu á þessu og síðasta ári. Það er ekki oft sem metanaðarfullir tónlistarþættir rata í íslenskt sjónvarp, músíkin hefur frekar verið uppfyllingarefni í spjallþáttum en ekki oftugt. Sigtryggur og félagar hans Guðmundur Kristinn Jónsson og Bragi Valdimar Skúlason fengu skapandi tónlistarmenn í þáttinn og hjálpuðu þeim auðvitað líka ásamt nánum vinum og samstarfsmönnum. Þátturinn varð uppspretta nýrrar tónlistar, þar sem tónlistarmenn frumfluttu ný lög og það sem meira er um vert þeir leiddu saman ólíka og líka listamenn, sem stundum sömdu saman ný lög.

Nú eru flest laganna úr þáttunum komin á plötu og reyndar á DVD  sem fylgir með líka. Samvinna þeirra Magnúsar Þórs Sigmundssonar og Jónasar Sigurðssonar smellur vel saman. Lagið, “Ef ég gæti hugsana minna”, og textinn einkenna þá báða þó þeir séu ekkert sérlega líkir. Og ekki bara það, lagið er gott og útsetningin líka þó ég geri ekki ráð fyrir því að menn hafi fengið of mikinn tíma að slípa lögin saman.

Lag númer tvö er einnig mjög gott, “Finish On Top” sem Síðan skein sól og Íslandsvinurinn John Grant gera saman. Jóhann Helgason og FM Belfast smella vel saman í lagi Jóhanns “Feel So Fine”. Valdimar Guðmundsson úr Valdimar og Þorsteinn Einarsson úr Hjálmum fara vel með lag Magnúsar Eiríksson við texta Braga Valdimars “Ameríka”. Valdimar syngur síðan “Apinn í búrinu” með höfundinum Magnús Eiríks og “Líttu sérhvert sólarlag” sem hann syngur með Sigríði Thorlacius. Lagið er eftir Braga, en minnir mig á eitthvað annað, kvikmyndalag eða eitthvað …. einhver?

Dúllurnar Ragga Gísla og Lay Low eru með sérstakt og grípandi lag, “Dúfurnar hvítu” við ljóð Kristínar Ómarsdóttur, “Niðrá strönd” með Prins Póló og Megasi er líka eitt af þessum einföldu klikkuðu lögum.

Trúbrotslagið góða “Going” fær fína yfirhalningu með höfundinum Magnúsi Kjartanssyni og Jet Black Joe. “Ekkert mál” er biturra og alvarlegra í flutningi Elínar Ey en Grýlanna. “How Are You Today?” minnir mig á gamalt SSSólar lag, en Retro Stefson flytja þetta lag með höfundinum Agli Sæbjörnssyni, Of Monsters And Men og Snorri Helgason ná vel saman í lagi Snorra “Öll þessi ást” og “Sumargestur” Ásgeirs Trausta er fínt lag en hann hefur verið að sanna sig upp á síðkastið.

Ég veit ekki hvað mér finnst um lag Sóleyjar og Ghostdigital, en Sóley nýtur sín alla vega í laginu. Og lokalagið “Berlin” með Trygg og Sigurði Guðmundssyni minnir mig á Ragga Bjarna og Skafta Ólafs!

8 af 10 stjörnum.

Fín plata, skemmtilega harðsoðin og beint áfram. Hlakka til að sjá meira í imbanum í vetur.

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *