VINTAGE CARAVAN – VOYAGE (2012) 9 stjörnur

Vintage Caravan er ótrúlega skemmtilegt band. Þeir eru sagðir vera 18 ára, en mig minnir að það hafi verið sagt í fyrra líka. Þeir spila klassískt blús rokk í stíl gullaldarbanda eins og Deep Purple, Led Zeppelin, Cream, Ten Years After, Savoy Brown og Uriah Heep.

Ég hafði ekki veitt þessum strákum neina athygli fyrr en ég fór á Blús hátíðarkvöld í byrjun árs, en bandið var fyrst á svið áður en amerískir blúskarlar stigu á svið. Það var eins gott að þeir byrjuðu því þeir með blús stimpilinn heilluðu mig ekki (nema Dóri vinur, eins og alltaf), og hef líklega gengið út og misst af þeim, nema fyrir kurteissakir að ég hlustaði á þá gömlu áhugalausu. En þessir, þá líklega 17 ára guttar björguðu kvöldinu. Þeir kunna að stæla þá bestu, höfðu frábæra sviðstakta og minntu mig á margt gott úr rokki og blúsrokki áttunda áratugarins. Þeir geta spilað og sungið og voru með nokkur góð lög.

Ég beið því spenntur eftir plötu númer tvö, já, því frumburðurinn kom út í fyrra, The Vintage Caravan, sem ég hef því miður ekki heyrt ennþá, en einhver sagði mér að vera ekkert að því, bíða frekar eftir þeirri nýju.

Og nýja platan Voyage er sú íslenska plata sem mér finnst lang best það sem af er ári.

Þá að áhrifin séu áberandi þá kemur leikgleðin og hæfnin manni til að brosa og hækka í tækjunum.

Lagasmíðin er þrælgóð og platan hefst á frábærum rokkblúsara, Know Your Place, sem hefur farið fyrir brjóstið á sumum og alveg skiljanlega. En ég leit á hann sem undir áhrifum frá gömlu blúsurunum sem vildu hafa kynjaskiptingu á hlutunum. Þetta er líklega líka tengt ungum aldri og hrikalegu stráka vs stelpu uppeldi, bleikt vs blátt, sem mín kynslóð reyndi að útrýma í uppeldinu hélt ég, en tókst greinilega ekki. En lagið er flott, líklega hefði ég ekkert tekið eftir textanum ef hann hefði ekki verið gagnrýndur. Svo kíkti ég á fleiri texta og sá fljótt að þeir voru allir undir áhrifum 60s og 70s texta, flestir um stelpur og misgóð sambönd, sem ég er ekki viss um að þeir séu búnir að upplifa, en hver veit. Önnur saga.

En Voyage snýst um rokk, gítarsóló, flott rokk lög, góðan söng, flottan bassa og trommuleik og þeir eru að semja eigin lög og textarnir falla vel að lögunum.Næstu lög er rokk lögin Craving og Let Me Be, bæði góð.

Do You Remember er gott rólegt lag sem rödd Óskars klárar vel, ekki ólíkt Einari Vilberg hér í gamla daga. Smá Peter Green í gítarnum, sínir að þeir hafa góða tilfinningu og músíksmekk.

Expand Your Mind, Midnight Meditation og The King’s Voyage benda til psychedelic áhrifa. Tvö fyrri lögin eru í klassískum 70s rokk stíl, lög sem eru örugglega flott á sviði og betri en margt sem Uriah Heep gerðu í denn. Titillagið The King’s Voyage er 70’s Prog Rokk rúmlega 10 mínútur og með Prins Valiant texta. Flott.

Winterland er ekkert tengt hljómleika húsinu frá í USA, heldur róleg rokk ballaða eins og þær gerast bestar.

Ég er ekki viss um að Cocaine Sally sé byggt á lífsreynslu, en lagið er flottur rokkblús.

M.A.R.S.W.A.T.T. er  líka gott lag með skrýtnum texta um fljúgandi furðuhlut í miðbænum, en á ég líka svoleiðis lög eftir Yes og Jefferson Starship:) , já og Donovan.

Voyage er besta íslenska platan sem ég hef heyrt á árinu. Óskar Logi er góður söngvari, lagasmiður og performer, góður gítarleikari sem spilar mikið og að mínu skapi. Bassaleikarinn Alexander Örn Númason spilar á bassann eins og ég reyndi í gamla daga, sem sagt eins og ég vil, og trommarinn Guðjón Reynisson gefur eldri og frægari ekkert eftir.

Flott upptökustjórn hjá Flexa líka, þar sem öll hljóðfæri og söngur fá að njóta sín.

Hlakka til að sjá þá á Iceland Airwaves.

9 stjörnur af 10

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *