SKÁLMÖLD – BÖRN LOKA (2012) 10 stjörnur

Þungarokk gerist varla betra í dag en Skálmöld. Flott taktföst rokklög með pottþéttum melodíum og góðum textum. Spilamennskan er fyrstaflokks. Gítarinn er mun meiri en á fyrri plötunni og mætti jafnvel vera framar í mixinu. Þjóðlagamúsíkin hefur örlítið vikið fyrir meiri kórum, kannski ekki skrýtið sé horft til bakgrunns meðlima.

Baldur kom mér ánægjulega á óvart þegar ég heyrði hana fyrir um tveimur árum. Nýja platan er kannski ekki svo frábrugðin, hér er aftur rokkópera, melódískt rokk með ýmsum áhrifum frá Gothrokki, Metalrokki, Dauðarokki, Víkingarokki, Þjóðlagarokki, og …. Kórarokki?

Söngurinn er skiljanlegri, en áður, en svona barkasöngur er ekki alveg minn tebolli, og kannski er það sem er þess valdandi að platan fær ekki heilar 10 stjörnur.

Narfi grípur tvímælalaust fyrsta grípandi lagið og meira að segja í útvarpslengd og hefur fengið einhverja spilun. Með grípandi viðlagi í íslenskum kraftmiklum stíl. Miðgarðsormur er kraftmikið rokk með kór og gítar, en lögin þeirra eru kannski enn meiri hljómleikalög í þetta sinn.

Einhverra hluta vegna datt mér Locomotive Breath (Jethro Tull) í hug þegar ég heyrði Loki sem níu mínútna rokklag á fullu blasti. Og síðan er fullt að Black Sabbath í Vála, en annars eru þeir ekkert líkir þessum böndum, það er bara stemmningin.

Platan byrjar á laginu Óðni í klassískum hetjuóperustíl og hljómar allt eins frekar eins og lokalag í uppbyggingu!

Sleipnir minnir á Iron Maiden takta, enda hestalag, það verður gaman að heyra þetta lag á næstu hestaplötu Helga Björns.

Og auðvitað er smá Disney og dvergahljómur í Gleipni, maður getur séð dvergana 7  búa til Gneipnishöftin til að hefta Fenrisúlfinn.

Og það er áfram mikil keyrsla í laginu um Fenrisúlfinn, en þó með svona ættjarðarkenndum millikafla spiluðum á gítar.

Váli er hetjurokk í fullri lengd, 6 mínútur, með gítar og kór.

Þetta voru bara nokkrar hugrenningar, en þetta eru heilsteypt, fjölbreytt og hugmyndarík og stílhrein plata sem ætti enn frekar að styrkja þá í sessi sem fremsta rokk band landsins og líklega ferskur blær í heims rokkheiminn.

Umslagið skilst mér að sé hannað í tengslum við CCCP, sem ætti bara að þýða að það verður gert myndbandasaga í fullri lengd í kjölfarið, ekki satt?

10 stjörnur af 10

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *