MAGNÚS & JÓHANN – Í TÍMA (2012) 10 stjörnur

Magnús og Jóhann slógu í gegn 1971 í kjölfar kassagítarbyltingarinnar sem Crosby Stills og Nash voru kannski forsprakkar fyrir.

Ferill þeirra hefur verið skrautlegur og engan veginn fyrirsjáanlegur. Þeir hafa gefið út fjölda góðra sólóplatna, voru í Change, gáfu út sem Pal Brothers, Ábot. Unnu í Bretlandi að frægð og frama, sömdu ógrynni frábærra laga fyrir aðra, sömdu ættjarðarlög, upphöfðu forn ljóðskáld, já þetta eru alvöru tónlistarmenn.

En samt hafa þeir aldrei gert meistaraverkið, kannski einstöku ágæta plötuna …. fyrr en nú, að þeir ná að gefa hana út … og kannski fyrir tilviljun!

Og það er ekki vegna þess að þeir syngja á íslensku, mér hefur oftast þótt það frekar truflandi, það er að  segja til samanburðar við enskumælandi músíkina, sem er mín músík!

Þetta er vel upptekin plata, en Magnús og Jóhann sáu um upptökuna ásamt Jóni Góða Ólafssyni sem spilar líka hljómborð. Spilamennskan er vönduð og markviss, þarna er Eiður Arnarsson á bassa, Stefán Már Magnússon á gítar og Kristinn Snær á trommum.

Magnús og Jóhann hafa poppið í sér og fraseringin er alheims og poppísk, ekki þessa týpíska íslenska sönglaga- og revíufrasering.

Þrjú lög af plötunni hafa nú þegar ómað á útvarpsstöðvum landsins en þar er um að ræða lögin Sumir dagar, Þar sem ástin býr og Ekki er allt sem sýnist.

Magnús á 7 laganna. Rödd Magnúsar hefur breyst meira, en það er bara viðkunnanlegt því hann kann að nýta sér það. Sumir dagar, er eitt af þessum lögum og textum sem er svo vel gert að maður bara segir takk. Einlægur, hreinskilinn, alveg sama hvort hans tilfinningar séu bara hans eða eigi samhyggð.

Ekki er allt sem sýnist, er svipuðum stíl, en þó ekki, því ástin er í stærra hlutverki, “sáttur sit ég hér með þér….” falleg orð sem skipta máli. Hrafnamál er dýrt kveðið, ég er ekki viss hvað Maggi er að fara fyrir víst, en lagið er gott og nokkuð þungt. Norðanátt, aftur djúpt samið, … þar sem andartakið bíður mín við tímans læsta hlið… þetta er eflaust byggt á einhverri æðri speki …. ég á eftir að heimsækja þetta aftur. Og flott, svona dálítið írskt sánd.

Upphafslagið Afturgöngur hefur upp rétta stemmningu, þungur taktur, djúpur texti, alvöru músík.  … hér er reimt þar sem við göngum aftur hér saman… eins og Leonard Cohen og Bob Dylan fyrr á árinu, er yfirvofandi dauði fullorðinnar kynslóðar að að herja hugann.

Og keltneski takturinn sem Magnús upphafði á Álfum í denn og síðan á Íslandsklukkum er áberandi í laginu Seiður. … svo lengi ég leitaði þín, loksins þann þig í tíma…

Jóhann er mun léttari í tóni, svona eins og Paul á móti John. Þó að Vor hinsti dagur fjalli um dauðann og skilnað, er röddinn og léttleikinn meiri og bandið fylgir því eftir. Ljóðið er eftir Halldór Kiljan Laxness og er auðvitað snilld sem Jóhann undirstrikar vel.

Lokalagið er líka lag sem Jóhann sem við frábært ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Kossavísur. Og ekki kæmi mér á óvart að þetta lag yrði uppáhaldslag einhverra í tímans tönn.

Og Jóhann kann að semja popplög, Þar sem ástin býr og Nóg, sem hefði verið flott með Þú og ég, fullt af ást eins búast mætti við af unglingskrakka!

… ef lífið mynda lofa að vera vinur þinn … eru upphafslínur lagsins Getur tíminn læknað sár. Góður texti gott lag og svo er það Segðu mér satt   … trúi á ást sem aldrei deyr …ég elska þig þar til ég dey.  Ja hérna, það hlýtur að vera einstakt að hafa fengið að upplifa þetta.

Þessir strákar sem ég hef horf ganga í gengum eitt og annað úr fjarska virðast hafa náð jafnvægi og gert frábæra plötu. Takk.

10 af 10 stjörnum

P.S. Umslagið er vel gert, ekki alltaf hægt að segja það.

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *