HJALTALÍN – TERMINAL (2009)

HjaltalinHjaltalín er líklega ein vinsælasta hljómsveit landsins í dag. „Terminal“ er önnur plata þeirra, en „Sleepdrunk Seasons“ fékk góðar viðtökur og hefur notið vaxandi vinsælda frá því að hún kom út 2007.

Og ekki dró það úr vinsældum þeirra þegar þau tóku lagið „Þú komst við hjartað í mér“ sem var þekkt fyrir í útgáfu Páls Óskars.

Það voru því miklar væntingar gerðar til „Terminal“.

Hér hefur verið mikið lagt í útsetningar og upptökur. Mikið af hljóðfærum, mörgum óvenjulegum. Það liggur við að músíkin sé „psychedelic“ á köflum, músíkin flókin og lagt meira upp úr heildinni en einstökum lögum, þó nokkur lög standi upp úr.

Eins og tíðkast hefur undanfarin ár hafa lög af plötunni farið í útvarpsspilun löngu fyrir útgáfu sem vekur athygli og kynnir plötuna. „Suitcase Man“ fór í spilun í sumar og „Stay By You“ í haust og næst verður áhersla lögð á „Feels Like Sugar“ en þetta eru einmitt heilsteyptustu popplögin á plötunni.

Lögin

Byrjar eins og kvikmyndatónlistarplata með James Bond svífandi yfir vötnunum. „Suitcase Man“ er lag sem vinnur á, góð spenna, textinn skilar sér reyndar ekki sérlega vel og einhvern veginn virðist ekki falla rétt að laginu.

„Sweet Impressions“ byrjar með góður „soul“ bassaleik og sérstakri röddinni hans Högna. Nokkuð grípandi, gæti verið úr „My Fair Lady“ eða „Sound of Music“ ef bassinn væri öðruvísi. Lagið er dregið á langinn og missir dálítið marks í einhvers konar jamm session.

„Feels Like Sugar“ er sungið af Sigríði og Högna. Og ég verð að segja að hún minnir mig í hvert skipti á Shirley Bassey! Shirley hefur reyndar sungið James Bond lag (Goldfinger) og Högni minnir mig aftur á söngvamyndir 7. áratugarins. Gott og grípandi lag og þau fara ekki svo langt fram úr sér í frumlegheitum.

„Songs From Incidental Music“ minnir á progressive músík, í rólegu köflunum á King Crimson. Kannski varð þetta til úr lagabútum og einhvern veginn er það hálfklárað.

„Montabone“ er ágætt söngleikjalag, get alveg ímyndað mér söngparið í litríkum fötum á leiksviðinu! Dálítið Spilverksskotið líka. Og textinn er skýr.

„Stay By You“ er skemmtilega samið lag og vel flutt og áberandi besta lag plötunnar. Minnir mig á gamalt og gott lag með Prefab Sprout „When Love Breaks Down“, enda eru raddirnir skrambi líkar þó þeir hafi ekki notað fagott, strengi eða blásara svo mig minni.

„Hooked On Chili“ er enn eitt söngleikjalagið / kvikmyndalagið sem er örugglega gott með viðeigandi senu, en sorrí, ég er hvorki hrifinn af söngleikjum eða kvikmyndamúsík.

„Sonnet For Matt“ er sungið með tilþrifum sem ná samt ekki að rífa upp lag sem er ekki mikið.

„7 Years“ verður gott þegar breytist í diskótaktinn, en bassaleikarinn er ansi diskóskotinn hér og þar og gerir virkilega skemmtilega og líflega hluti með bassann.

„Water Poured in Wine“ – diskóbassinn á fullu, dískógítarinn líka, þó þetta varla danslag, frekar en Nick Cave eða Tom Waits.

„Vanity Music“ – ég þori að veðja að þessir krakkar hafa stúderað söngvamyndir frá 40s og 50s, þau ná stemmingunni í Bing Crosby, Frank Sinatra, Judy Garland og öllum hinum….

Niðurstaðan er …

ein af metnaðarfyllri plötum ársins. Ég varð fyrir smá vonbrigðum en finnst Terminal samt með betri plötum ársins.

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *