HAUKUR HEIÐAR & FÉLAGAR – Á RÓMANTÍSKUM NÓTUM (2012) 6 stjörnur

Það vita flestir í dag að Haukur Heiðar Ingólfsson er faðir Hauks Heiðars í Diktu.

En Haukur er líka þekktur sem undirleikari Ómars Ragnarssonar til margra ára. Og Haukur hefur líka gefið út 5 stemmningsplötur eða rómantískar plötur og er þessi sú sjötta í röðinni.

Sú fyrsta kom út 1984 og tvö laganna hér er reyndar af þeirri plötu, Með suðrænum blæ, en það eru lögin Ást Ítalíanó og Ástarbréf, sem bæði eru sungin meistaravel af Björgvin Halldórssyni.

Björgvin  syngur að auki þrjú lög í viðbót Ljósin í Róm, Það rökkvar í Róm og Með þér og það er alltaf klassi yfir Bjögga.

Sonurinn Haukur í Dikta syngur og semur íslenskan texta við Moon River, lag Henry Mancini og texti, söngur og flutningur er gullfallegur.

Dóttir Hauks, Margrét syngur lagið Autumn Leaves, það er að segja Haustlauf, alveg ágætlega en kannski ekki af þeirri alúð sem ég hefði viljað heyra.

Ómar syngur Komdu með mér til Rómar alveg ágætlega.

Síðan klárar Haukur átta lög án söngvara, en þess má geta að spilarar með honum eru Einar Scheving á trommum, Róbert Þórhallsson á bassa, Siggi Flosa á saxa og klarinett og Jón Elvar á gítar og Bjöggi á iPad?

Það á að gera svona plötur.

6 af 10 stjörnum

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *