DIMMA – MYRKRAVERK (2012) 9 stjörnur

Myrkraverk er þriðja plata Dimmu og sú fyrsta á íslensku. Hljómsveitin sem er stofnuð af þeim bræðrum Ingó og Silla Geirdal, sem fengu þá Stefán Jakobsson, söngvara og Birgi Jónsson til liðs við sig á fyrrihluta síðasta árs.

Ég heyrði fyrst í þeim á menningarnótt (reyndar um miðjan daginn) Reykjavíkur í fyrra. Ég var að ganga heim úr miðbænum með dóttur minni í gegnum Þingholtin og heyrði kunnugleg hljóð og sagði við dótturina, við skulum renna á hljóðið, þetta gæti verið Led Zeppelin! (annað eins hefur nú gerst).

En þetta var þá Dimma að spila á vörubílspalli í botnlangagötu. Síðan þá hef ég beðið eftir plötu frá þeim og hér er hún komin og veldur ekki vonbrigðum.

Ingó og Silli eru búnir að vera lengi að og kunna allt sem kunna þarf í rokkinu. Ingó er frábær gítarlleikari og á mest af músíkinni á plötunni, Silli spilar á bassann og með Birgi skapa þeir þéttan hljóðmúr og Stefán er einn mesti rokksöngvari lands, hana nú.

Platan er auðvitað þungarokks, en skemmtilega gamaldags, Stefán dálítið Uriah Heep, Deep Purple og Eiki Hauks. Ingó meira Zeppelin, jafnvígur á sólóin og kassagítarinn. Lögin er melódísk og dálítið yfirdrifin eins og vera ber. Síðan minna þeir líka gömlu íslensku rokkböndin frá áttunda áratugnum.

Platan byrjar á alvöru rokki, Sólmyrkva, sem er reyndar svo íslenskt og melódískt þegar á líður, en þungur takturinn er alltaf undirliggjandi.

Titillagið Myrkraverk byrjar á kassagítar eins oft var gert á gullaldarárunum, meira í þjóðlagastíl og það jafnvel íslenskum, en breytist síðan í þyngra rokk.

Köngulóarkonan er þungur blúsrokkari með miklum gítarsólóum og Dimmalimm, sem lag og texti eftir Stefán, með smá Pink Floyd áhrifum í bakhljóðum, þungarokksballaða, þar sem Stefán fer á kostum.

Þungur kross fór í útvarpsspilun fyrr á árinu og gaf tóninn, flott þungarokk með fínum texta, góðu viðlagi, pottþétt hljómleikalag.

Skuggakvæði er í karlakórsstíl sem og svo margir semja, með góðu gítarhooki og lokalagið Lokbrá, er auðvitað vögguvísa rokkarans og með söngvara eins og Stefán svínvirkar það með kassagítar og kór á bak við, hermannasneril kemur inn og þyrlar upp kraftinum í rólégheitum, smá bjögun og rafmagn, trommur og endað í rokki.

Góð plata, góð hljómsveit, góð lög, mikill og góður gítar. I like it.

9 stjörnur af 10

 

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *