ROKK OG JÓL – JÓL Í ROKKLANDI (2012) 7 stjörnur

Fyrir nokkrum árum gekk ég í gegn um tímabil þar sem ég sankaði að mér jólatónlist af ýmsu tagi og þeim mun undarlegri sem tónlistin var, þeim mun ánægðari var ég. Eftir að hafa keypt tugi slíkra  LP platna og geisladiska bráði þessi vitleysa svo af mér enda varð mér fljótlega ljóst að það nennti enginn að hlusta á margt af þessu mér til samlætis. Í byrjun desember ár hvert fer ég þó í skápinn sem geymir þessar gersemar og stilli þeim upp nærri plötuspilaranum á heimilinu svo aðrir megi nú njóta ef þá langar til að fá jólatóna í húsið. Það hefur hins vegar enginn annar en ég sýnt þessum dýrgripum neina þá athygli sem þeir eiga skilið að fá og þaðan af síður hefur þetta verið spilað. Það sem ég spila ekki sjálfur fer sem sé aftur í skápinn óspilað að afloknum jólum. Þetta hefur auðvitað leitt til þess að það hafa engar jólaplötur bæst í safnið undanfarin ár. Þar til nú að ég fæ upp í hendurnar jóladisk eða réttara sagt tvo diska sem Sena hefur gefið út í samstarfi við Rás 2 og á er að finna jólalög sem útvarps- og Rokklands- já og popplandsmaðurinn Ólafur Páll Gunnarsson hefur valið.
Þetta safn heitir „Rokk og jól. Jól í Rokklandi“ og undirtitill er „35 súr og sæt jólalög“.  Það kom mér svo sem ekki mikið á óvart að töluvert að efni platnanna skuli vera mér að smekk enda hef ég haft sérlega mikinn áhuga á súrum jólalögum í gegnum tíðina. Sennilega arfur frá þeim tíma að ég eignaðist plötur „Gáttaþefs“ þegar ég var ungur.
Hvað eru súr jólalög, kann einhver að spyrja. Eru það sækadelísk lög, eða fær maður eitthvað óbragð í eyrun við að hlusta á þau, eða eru textar og flytjendur kannski svo súrir (sbr. súr á svipinn) að maður fær jólaþunglyndi við að hlusta. Það er nú held ég engin uppskrift af súrum jólalögum en oft er um einhverskonar vöntun að ræða. Það vantar pakka, mat, peninga og það sem oftast er að viðkomandi þráir bara ástina inn í líf sitt. Svona jólalög eru í sjálfu sér ekkert jólaleg nema vegna þess að jólanna er minnst í textum laganna  eða einhverjum hefur dottið í hug að skella einhverjum bjölluhljómi í útsetningarnar.
Nú sum lög eru ekki einu sinni jólalög þó að þau séu oftast sungin um jól og ef til vill eiga mörg þeirra það sameiginlegt að vera fyrst og fremst vetrarlög.
Það eru nefnilega allskonar svona lög sem er að finna á Rokk og jól í bland við önnur dæmigerðari jólalög. Mér finnst Ólafi Páli hafa tekist vel upp við lagaval á diskana. Fyrri diskurinn rennur að vísu betur en sá síðari en það þýðir þó ekki að lögin á þeim seinni séu eitthvað verri. Þvert á móti eru sum bestu lögin einmitt þar. Þau eru bara einhvern vegin meira sitt úr hverri áttinni.
Það verður að viðurkennast að ég hef ekki smekkt fyrir öllu sem þarna er að finna en það er nú bara eins og gerist og gengur en ég ætla ekki að tína til einhver lög hér umfram önnur. Það er þó rétt að taka fram að plöturnar eru að því er mér finnst hugsaðar fyrir rokk aðdáendur og því að mestu laus við yfirdrifin jólaumbúnað. Og það er gott.  En þetta eru ekki bara jólalög hér er líka að finna lög sem eru fyrst og fremst fínar vetrarstemningar.
Það er rétt að taka fram að meðfylgjandi bæklingur hefur að geyma skemmtileg skrif Ólafs Páls um hvert lag um sig og er það svo sannarlega til eftirbreytni þegar um safnplötur sem þessar er að ræða.
Það er ein kvörtun sem ég þarf þó að koma á framfæri. Mér finnst eins og ekki hafi verið gætt að því að styrkur laganna sé í samræmi. Og sumir masterarnir eru ansi hreint „loðnir“. Ég bendi t.d. á muninn á styrk í laginu Must Be Santa með Bob Dylan og Father Christmas með The Kinks sem kemur strax á eftir. Það er eins og síðarnefnda lagið sé spilað innan úr skáp miðað við hitt. Ég að það getur hljómað betur og þar sem þetta er nú eitt af mínum uppáhalds jólalögum (eða ekkijólalögum eftir því hvernig á það er litið) truflar þetta mig mjög.
Til að nefna annað dæmi bendi ég á I Believe In Father Christmas með Greg Lake. Ég veit að það er töluverð bjögun í enda lagsins og hefur alltaf verið en gítar og söngur í byrjun á að geta hljómað betur. Þá er einnig spurning hvort ekki hefði verið skemmtilegra að hafa Emerson, Lake & Palmer útgáfuna af þessu lagi, sem er laus við þessa yfirgengilegu strengi í lokin.
Þessi pirringur í mér varðandi þetta er svo sem minniháttar vandamál. Á heildina litið hefur tekist að gera svolítið öðruvísi og umfram allt skemmtilega jólasafnplötu og það er vel.

(Gunnlaugur Sigfússon)

7/10

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *