SIGURÐUR GUÐMUNDSSON OG MEMFISMAFÍAN – OKKAR MENN Í HAVANA (2012) 8 stjörnur

Stundum fær maður upp í hendurnar plötur sem hægt væri að dæma með einni setningu. „Hún er ekki góð, hún er svona í meðallagi“ eða bara „hún er fín“. En það er nú sjálfsagt að flestra mati afskaplega bágborinn dómur sem þannig er afgreiddur.
Það er nú nokkuð um liðið síðan ég fékk í hendurnar diskinn „Okkar menn í Havana“ með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni. Tónlistin er tekin upp á Kúbu í september síðastliðnum og Mafían nýtur aðstoðar heimamanna í hljóðfæraleik og er þar valinn maður í hverju rúmi.
Skráðir meðlimir Memfismafíunnar að þessu sinni eru Sigurður Guðmundsson sem sér um söngin, Guðmundur Kristinn Jónsson sem stýrði upptökum, Tómas R. Einarsson bassaleikari, Bragi Valdimar Skúlason textahöfundur sem einnig aðstoðaði við upptökur og Samúel Jón Samúelsson sem blæs í básúnu. Allir sömdu þeir svo lögin. Ekki í sameiningu þó nema að litlu leiti. Lögin urðu flest til, svo til jafnóðum og þau voru tekin upp. Það er að segja lítill hluti þeirra var tilbúinn þegar lagt var af stað til Kúbu. Það er þó síður en svo galli, þar sem lög og textar eru sum hver eins og stemningar þeirrar upplifunar sem höfundarnir urðu fyrir á þeim tíma sem þeir dvöldu þarna.
Nú er ég enginn sérfræðingur í tónlist frá Kúbu. En ég veit þó það um hana að hún er rythmísk og skemmtileg og vel flutt Kúbutónlist ber sólina og bros með sér. Að mínu mati hefur Mefismafían náð að fanga þetta andrúmsloft á þessum diski.
Mér dettur ekki í hug að gera upp á milli laganna því þau mynda skemmtilega heild og textarnir góðir eins og Braga Valdimars er von og vísa.
Hljóðfæraleikur er fyrsta flokks. Þar finnst mér þó fremstur meðal jafningja tres gítarleikarinn César Hechavarria Mustelier sem sannarlega fer á kostum í leik sínum. En það gera líka aðrir sem þarna koma við sögu en alltaf finnst mér eitthvað heillandi við píanóleik í Kúbutónlist. Að vísu er hann ekki sérlega áberandi á þessari plötu en það koma sprettir í lögum eins og „Sá gamli“  og „Ég kvaddi þig“ þar sem Emilio Morales leikur á hljóðfærið en enn betri er þó leikur hans í „Casa de la Musica“. Annars er sólóum skipt á milli hljóðfæraleikara og eykur það á fjölbreytileika útsetninganna. Það eru svo fjórir fínir ásláttarleikarar sem skipa rythmasveitina og gera grunninn eins og hann á að hljóma.
Þá er loks að geta söngvarans Sigurðar Guðmundssonar, sem ég hef oftast gaman af að hlusta á og er þessi diskur engin undartekning þar að lútandi. En stundum hugsar maður um þennan söng og þessa rödd sem á köflum hljómar svo amatörleg en er í senn pottþétt. Raddsviðið virkar ekki mikið en það er farið vel með það sem er. Textaframburður er einnig til fyrirmyndar hjá Sigurði á „Okkar menn í Havana“ þar sem hvert orð kemst til skila í söng hans.
Ég hef verið að velta svolítið lagasmíðunum fyrir mér. Þær eru auðvitað fyrst og fremst gamaldags og er það vel við hæfi. Tíminn hefur víst nánast staðið í stað á Kúbu síðustu áratugina og þar af leiðandi tónlistin af einhverju leiti. Þó ekki öllu. En stundum finnst mér eins og þessi tónlist hefði alveg hæft Ragga Bjarna eða Hauki Morthens eða einhverjum sem sungu dægurlög á Íslandi í kringum 1960. Það er þó síður en svo til þess að draga úr gildi tónlistarinnar.
Að lokum er vert að geta þess að með í púkkinu er dvd diskur þar sem sjá má heimildarmynd um ferð þeirra félaga til Kúbu og gerð plötunnar og er hún hin ágætasta skemmtun.
En svo ég snúi mér aftur að upphafi greinarinnar. Þá hefði ég strax eftir fyrstu hlustun getað sagt að mér finndist platan fín. Já bara góð og mér finnst það enn og víst er að hún á eftir að hljómar oftar í mínum húsakynnum þegar mig vantar eitthvað notalegt í spilarann.
8/10
Gunnlaugur Sigfússon

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *