JOHN GRANT – PALE GREEN GHOSTS (2013) 9 stjörnur

John Grant á Mokka Kaffi geri ég ráð fyrir

John Grant á Mokka Kaffi geri ég ráð fyrir


John Grant vakti fyrst athygli mína með The Czars veturinn 2004 á plötunni Goodbye og laginu Paint The Moon. Og á bakhliðinni á smáskífunni var ABBA lagið Angel Eyes! Forvitnilegt! Goodbye var næst síðasta af 6 plötum en sú fyrsta kom út 1996, Moodswings.
Síðasta Czars platan kom út 2006, Sorry I Made You Cry, í raun fyrsta sólóplata Grants, með nokkrum slögurum í hans útsetningum, eins og I Go To Pieces og Where The Boys Are og bakhliðarlögum, kannski ekki alvöruplata en hreint afbragð og endaði í 7. sæti á mínum árslista.
Queen Of Denmark kom síðan út 2010, heilsteypt meistaraverk sem harmóneraði út í gegn. Lögin góð, sterk rödd, flott einfalt undirspil frá einu af betri böndum frá Ameríku í seinni tíð, Midlake.
Mojo valdi hana plötu ársins eins og ég, og 2011 kom kappinn og heillaði landann á Iceland Airwaves, og aftur kom hann til að spila á tónleikum hjá SÁÁ, sem hann Arnar Eggert sá um með góðum árangri á þessum tíma.
Grant áhvað að vera aðeins lengur á landinu og kanna umhverfið og endaði með að gera breiðskífu með Bigga Veiru í heimastúdíóinu hans, sem hefur nú verið gefin út.
Pale Green Ghosts er að hálfu í stíl Queen of Denmark en að hálfu Grant/Gus Gus plata með teknískri elektróník sem Gus Gus eru mjög góðir í.
John Grant hefur svo sem fiktað í elektróníkinni áður, það vita þeir sem hafa heyrt t.d. aukaplötuna sem fylgdi Queen of Denmark um tíma.
Pale Green Ghosts byggir enn á frábærum melódíum, GMF, Glacier, It Doesn’t To Him, Vietnam og I Hate This Town. Allt topp klassa lög, vel sungin, og viðkvæmnin og næmnin látin ráða för. En svo eru hin lögin, Ernest Borgnine með flottum saxa (Óskar Guðjóns held ég) og sömplum, sem ég held að Biggi sé einn mesti snillingur í í dag. Pale Green Ghosts og Black Belt vinna vel á og Sensitive New Age Guy sem minnir á Kraftwerk líka og Why Don’t You Love Me Anymore.
Ég sá líka útgáfukonsertinn í Hörpu um daginn, þar sem hann fór á kostum með miklu súperbandi, með þremur hljómborðsleikurum (hann sjálfur meðtalinn), trommara, bassaleikara (Jakob Smári) og gítarleikara (Pétur Hallgríms).
Þessi plata gefur ýmislegt í skyn, það má heyra jazz og rokk þarna líka sem framlenginu á syntha hugmyndum Bigga Veiru líklega.
Já þetta er ein af plötum ársins og á líklega eftir að venjast betur meira að segja. Hún virkar ekki jafn heilsteypt í byrjun og Queen Of Denmark, en hver veit. Alla vega þriðja topp 10 platan á mínum lista.
Komin í 9 af 10 stjörnum.
hia

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *