BUBBI – STORMURINN (2013) 10 stjörnur

002Þetta er ekki fyrsti dómurinn sem ég hef skrifað um plötur Bubba Morthens í gegnum tíðina og hef oftast gefið honum góða einkunn (sem plöturnar hafa átt skilið), og líklega er fyrsti dómurinn um fyrstu plötuna sem birtist í Mogganum minnistæðastur, þar sem ég held að ég (og Mogginn) hafi kynnt hann fyrir öllum.

Stormurinn er afturhvarf til einfaldleikans, Woody Guthrie og Leadbelly til dæmis. Og mikið af Donovan í gítarpikki.Mikið og gott gítarpikk og mikið hillbilly sánd.

Það eru 15 lög á plötunni, mikið að melta og heildartími plötunnar er um 72 mínútur sem helmingi meira en flestar íslenskar plötur. Þrjú laganna eru um átta mínútur að lengd.

Það má segja að þetta sé í rauninni platan sem ég vildi að Bubbi gerði. Hann er pólitískur og persónulegur, hann er gagnrýninn og einlægur.

Ég hef ekki lesið textana, enda fylgja þeir ekki með, að ég held í fyrsta skipti hjá Bubba  Jæja. Hvað um það. Bubbi hefur látið yfirfara texta sína í gegnum tíðina. Þetta eru miklir textar og því er það mjög góður siður, sem fáir aðrir hafa gert. En það eru setningar og orðatiltæki sem ég hefi ekki vanist og trufla mig, þó ég hafi kannski ekkert efni á því að gagnrýna það. “Hoggið í stein” ? Ég hef vanist höggvið í stein eða meitlað í stein. Kannski bara mín sérviska.*

Ég ætla að leyfa mér að taka hvert lag fyrir sig eins og bestu plötur eiga skilið:

Platan byrjar á frábæru gítarpikki og laginu “Allt var það krónunni að kenna“. Krónan er búin að leika margan grátt í gegnum tíðina. En .. er það krónunni að kenna? Er krónan ekki bara notuð til gengisfellinga til að skerða laun launafólks og færa útgerðinni og útflutningi gróða og þar sem neysluvísitalan var ekki tekin úr gildi hækkuðu öll lán landsmanna og bankarnir græddu sem aldrei fyrr þó þeir hafi “kannski” ekki gert ráð fyrir því? En sakleysislegur texti Bubba í venjulegri almúgaskýringu ætti að vekja upp umræðu. Gott lag.

Fyrir mörgum sumrum síðan“: Hér er söngur um óendurgoldna ást,  ástina sem við hörmum, líklega einhvers staðar út á landi þar sem tankarnir, lyngið, hrafninn og fjallshlíðin koma við sögu. Sorgarsöngur með mexíkönsku ívafi og einmana munnhörpu.

Lipurtá” : Í sama stíl og Woody Guthrie samdi mörg sín barnalögin, en “samt mun feigðin falla á hinn unga fríða svein” ? Skemmtilegt gítarpikk.

Hoggið í stein” : Truflar mig eins og fyrr segir. Ég hef aldrei áttað mig á þessum texta heldur. Umgjörð lagsins er kassagítar og rafmagnsgítar er í áttina að því sem Neil Young gerði með Daniel Lanois á La Noise.  Er hann að syngja um einhverja ákveðna Lady De Grey? (Sjá Wikipedia) eða er þetta eitthvað dýpra? Er eitthvað dulmál? Látið mig vita.

Ruggaðu mér í svefn” – er einfaldur kassagítarblús, langur inngangur “…. ruggaðu mér … róaðu mig niður … syngdu mig í svefn  … þungi svarti niður”. “Gott er glasaskjólið … helvítis alkahólið .. engin sálarskíma”. Algjörlega í stíl gömlu brennivínsblúsanna og með réttu gítarpikki og du du du. Ekkert að þessu. Góður blues.

“Geraldine” Donovan’s er uppfært í laginu “Brostu” (eða kannski bara í mínum eyrum) . Mun frumlegra en þegar Magnús Eiríksson endursamdi “The Last Waltz” Bandsins 🙂 Sætt.

Mexikana áhrifin koma aftur í “Afmælið“. Angurvær harmónikka hvað þá meira. Ég er ekki alveg að grípa textann. Textinn er skondin ádeila á að Jesús sé allt of busy til hjálpa. “Dauða texti” í mexíkönskum stíl.

Ég hélt að “Angie” Rolling Stones væri að byrja. En bara “Einu sinni enn” er píanó folk blues með flottu munnhörpuspili. Líklega um eiturlyf, angurvær ballaða, engu síðra en “Angie”.

Aftur smá mexíkani í Bubba í laginu “Brosandi börn” sem er einskonar heilræðavísa í gömlum stíl og ekki ólíkt lagasmíðum Magga Eiríks.

Það eru oft stór umfangsefnin hjá Bubba og hann semur um flest það sem truflar hann. Hér er stríðsbröltið og allt sem því viðkemur fyrsta samlíkingin og síðan eiturlyfjadrápsvélin. Kassagítarar og píanó í “Tíðindalaust af vesturvígstöðvunum“.

Kirkjan” er löng ádeiludrápa á Kirkjuna. Þetta lag hefði átt að vera myndband. Mikil ballaða sem á örugglega eftir að heyrast á sólóhljómleikum Bubba í framtíðinni.

Stormurinn” er limran um Geirfinns og Guðmundarmálin. Tæpar 9 mínútur og 28 erindi! Ballaðan er í stíl breskra og bandarískra söguljóða. Mögnuð framsetning og spennusaga sem er sönn. Og Bubbi fullyrðir ekkert sem ekki er rétt. Kannski voru þau ekki saklaus, en um hvað? Epískt verk!

Heimilisofbeldi og nauðganir virðast vera óhugnanlega mikil á Íslandi og hrein ótrúleg mannvonska landlæg. Í laginu “Best er að þegja” kreistir Bubbi enn eitt kýlið, heimilisofbeldi og áfengisvandamál. Lagið er flutt eins og barnagæla í Woody Guthrie og Arlo Guthrie stíl. “Þú finnur aðeins kolamola þar sem hjartað var.”

Evert Taube svífur yfir vötnunum í laginu “Karlskröggur” sem er þýddur texti af Evu Hauksdóttur og segir sögu karlskröggsins á elliheimilinu sem á sér fortíð og sögu! Bæði skemmtilegt og sérstakt. …. “hver karlskröggur á sína sögu og þrár” …

Trúðu á ljósið” er eina lagið sem ég hef heyrt í útvarpinu, enda í klassískri útvarpslengd 3 og hálf mínúta! Kannski svar við laginu “Kirkjan” … skortur á ljósi var alltaf kirkjunnar styrkur … kassagítar, píanó og munnharpa: það þarf ekkert meira.

Ég held að lagasmiðir reyni alltaf að gera hvert lag eins gott og það getur verið og hverja plötu eins góða og hún getur verið. Þetta eru allt góð lög, vel útsett, vel flutt, en heildarsvipur plötunnar er einhverra hluta vegna ekki sterkur við fyrstu hlustun. Það er eins og lögin hafi einhverra hluta vegna ekki passað á aðrar plötur, en slíkar plötur geta oft verið góð, samanber “Tattoo You” Rollinganna. Stormurinn er mjög góð plata þrátt fyrir það og þó að setningafræðin trufli mig (mér skilst að allt sé leyfilegt í Íslensku í dag, þágufallsýki, umbreytingar orðatiltækja og tilvitnana, allt leyfilegt). Ég er ekki viss um að Stormurinn hafi fengið þá athygli sem hún á skilið og menn eigi eftir að heyra þessa plötu löngu síðar og uppgötva hana. Og … hún er líka tímalaus, því þessu lög gætu verið frá flestum tímaskeiðum Bubba.

Þetta er platan sem ég var að bíða eftir frá Bubbi, hann er óhræddur við að leyfa söguljóðunum að endast 10-30 erindi eða meira og óhræddur við að fjalla um viðkvæm málefni. Og með nettum litlum og stuttum perlum inn á milli.

10 stjörnur af 10

p.s. Umslagið er með þeim meira fráhrindandi í langan tíma þó að ég skilji boðskapinn.

This entry was posted in Dómar, Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *