EINAR LÖVDAHL – TÍMAR ÁN RÁÐA (2013) 8 stjörnur

scan0002

Hver er Einar Lövdahl? Eina sem ég veit er að hann var að vinna á Monitor sem var einhvers konar unglingablað sem fylgdi einhverju blaði sem kom inn um lúguna af og til í sumar eða fyrra. Blaðsnepill sem virtist hvorki hafa tilgang né markhóp. Annars er það eflaust vitleysa hjá mér, ég bara hætti að lesa flest sem ég byrjaði að lesa í þessu blaði þó að efnið væri áhugavert. Síðan skilst mér að Einar sé eitthvað viðriðinn pólitíkina í Háskólanum og eitthvað tengdur fótbolta líka. Humm, allt gott og blessað. Orkumikill strákur með hæfileika og fjölbreytt áhugamál.

En svo dettur þessi ágæta plata inn um lúguna hjá mér. Þar sem ég vil hrista alla fordóma af mér áður en ég skrifa dóm, hef ég gefið mér ágætan tíma til að hlusta á plötuna.

Strákurinn er undir ýmsum áhrifum og þar á meðal frá vinnufélaga sínum af Monitor, Jóni Jónssyni, sem ég hélt að ætti að vera búinn að slá í gegn í Ameríku með svaka plötusamning upp á vasann, er það búið?

Einar er virkilega góður lagasmiður. Hefur þetta poppelement. Melódíur, laglínur og útsetningar mjög góðar og mér heyrist hér vera kominn góður lagasmiður með ágæta rödd og tilfinningu fyrir hittum.

Platan byrjar á hressu popplagi, Gleymdu öllu liðnu, með samansafni af klisjum nútímans, en það gerir textann bara betri, Sumt sem enginn kann, er annað lagið og fleiri heilræði sem minna mig á spámenn fyrri tíma úr poppmúsík hippatímans. Djúpvitrir ungir menn, en af hverju ekki?  Tímar án ráða, á morgun verð ég reyndar reyndari en áður …. flott popplag með góðum texta.

Undiraldin er dálítið öðruvísi, meira Valdimar til dæmis og hefur veitt honum meiri hlustun fyrir bragðið. Farvel er skemmtilega naívt lag og naívt flutt. Í laginu Traust, mikil reynsla og sorg í textum og enn og aftur snilld í taktskiptum og melódíuuppbyggingu. Minnir á Jóhann G og Jóhann Helga ef eitthvað.

Þinn söngur, þó heimsins blá höf skildu okkur af ég myndi synda yfir sæ beint til þín.Næsta lag er Bani, hinn endinn á ástinni, að þessi gæska skyldi geta gengið ísköld frá mér  … Þú ert minn bani! … lag þetta skal leikið í jarðarför minni og þér er sko boðið! Þetta er innihald ljúfsárs popplags sem heitir Bani.

Bara ef, er kannski besta lag plötunnar … ef við bara hefðum aldrei sést .… ljúfsár ástarsorg …

Ég áskil mér rétt til að endurmeta þessa plötu síðar en í dag er ég lúmst hrifinn, finnst samt eitthvað vanta upp á fleiri stjörnur, en það er kannski miskilningur.

Einar Lövdahl er virkilega efnilegur lagasmiður, söngvari og poppari -mjög góð plata – og ég hlakka til að fylgjast með þessum strák i framtíðina, sem á mun meira inni en þeim sem meira er hampað eins og OMAM og Asgeir að mínu mati. Ég sé hann fyrir mér þroskast á næstu árum sem er ekki alltaf hægt að sjá.

8 af 10 stjörnum

hia

ps flott umslag

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *