PÁLMI GUNNARSSON – ÞORPARINN (2013) 9 stjörnur

scan0001Góð söfn með okkar bestu tónlistarmönnum á tímamótum lífs þeirra er orðin góð hefð. Síðan koma tónleikar í Hörpunni og safndiskar og myndbönd í kjölfarið. Pálmi verður reyndar 63 ára í lok mánaðarins, en tónleikar hafa verið haldnir í Hörpunni og Óli Palli með tvo Rokklandsþætti um ferilinn.

Það er engin spurning að Pálmi Gunnarsson hefur verið og er enn einn af okkar bestu söngvurum. Og hann er líka einn af okkar besta bassagítarleikurum. Ég held að Pálmi hafi hafið sinn útgáfuferil með Þuríði Sigurðardóttur 1970 þar sem þau sungu úrval laga Gunnars Þórðarsonar. 1972 kom síðan önnur plata þeirra. Um það leyti fór hann að sjást með Blús Kompaníinu, auk fjölda annarra hljómsveita sem áttu að slá í gegn hér og erlendis. Blús Kompaníið tók upp plötuna Mannakorn sem varð síðan nafn hljómsveitarinnar. En því miður hefur engin íslensk Rokk Lexikon verið gefin út, aðeins vísir að þeim, án þess að segja neitt nema nokkrar sögur, úrklippur, myndir og brandara. Reyndar kemst PC diskurinn hans Bárðar Bárðarsonar, Íslensk hljóðritaskrá, næst því að segja okkur söguna, nema hvað þú flettir öllum útgáfum og lagalistum Pálma ekkert upp nema vita hvað böndin hétu! Og skráin nær bara til 2002 🙁

Ferill Pálma á safnplötunni Þorparinn hefst ekki fyrr en 1975 með fyrstu Mannakornsplötunni, sem var tímamótaplata út af fyrir sig. Tveimur árum síðar kom næsta Mannakornsplata Í gegnum tíðina og eiga þessar tveir fyrstu plötur 4 lagafulltrúa hvor á Þorparanum. Það eru lög af flestum plötum þeirra á safninu hvert öðru betra og öll eftir félaga hans Magnús Eiríksson, þar á meðal áður óútgefin útgáfa Mannkorna af Gleðibankanum og nýja lagið á plötunni, Núna.

Brunaliðið var feikivinsælt 1978 og 1979 og gáfu út tvær plötur og lagið Ég er á leiðinni var á fyrri plötunni. Pálmi gaf út 4 breiðskífur frá 1980 og eru 3 lög af hvorri fyrstu tveggja á safninu. Pálmi hefur oft sungið með Gunnari Þórðarssyni og eru nokkur þeirra hér eins og Þitt fyrsta bros af Himinn og jörð og Hótel jörð af Íslensk alþýðulög.

Pálmi hefur líka sungið eitt og eitt lag á ýmsum plötum, á plötum Ómars Ragnarssonar, á sólóplötum Magga Eiríks, en þaðan kemur einmitt titillagið, og hann söng Ísland er land þitt á plötu Magnúsar Þór Sigmundssonar.

Einhverra hluta vegna syngur Pálmi texta sem skipta máli og ljáir þeim tilgang og vægi.

Frábært safn með stórkostlegum söngvara og miklum túlkanda.

Umslagið hefði mátt vera veglegra en upplýsingar um lögin og plöturnar er í topp klassa, en saga Pálma hefði ekki komið að sök eins og oft hefur fylgt með svona söfnum. Kannski verður Rokklandið hans Óla Palli aukadiskur með hljómleikaplötunni/DVD fyrir jólin 🙂

hia

9 stjörnur af 10 (hefði mátt vera 4 diskar)

 

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *