GÍSLI ÞÓR ÓLAFSSON – BLÁAR RADDIR (2013) 7 stjörnur

Ég vissi ekkert um Gísla Þór Ólafsson, eða Gillon eða hljómsveitina Contelgen Funeral þegar platan Bláar raddir kom inn um dyrnar hjá mér.

Hún vakti ekki athygli mína í byrjun og ég var ekkert viss hvort ég ætti að eyða meiri tíma í plötuna. Setti hana samt með öðrum íslenskum “dómaplötum” í spilarann sem ég lét ganga undir við tölvuvinnu á kvöldin með hléum milli verkefna.

Gísli er enginn söngvari það er á hreinu, en hann er ekki sá eini og það getur stundum verið ágætt. Hann heldur greinilega upp á Megas, Tom Waits, Nick Cave, Neil Young, Jónsa (Sigur Rós) og fleiri slíka. Og lagasmíðarnar minna oft á Megas, sem er ekki vont og líklega það sem dró að sér athyglina. Laglínur og frasar fóru síðan að vekja athygli, og andstætt við Megas skilst hvert orð sem hann syngur þó að raddbeitingin og raddvaldið sé á því tæpasta.

Textarnir eða öllu heldur ljóðin eru öll eftir Geirlaug Magnússon, sem ég mæli með að fólk kynni sér. Geirlaugur gaf út 17 ljóðabækur á árunum 1974 (þá þrítugur) og fram yfir dauða hans 2005. En hann starfaði lengst af sem kennari á Sauðárkróki þar sem Gísli var nemandi hans. En Geirlaugur hafði þá ferðast víða, var við nám í Varsjá í Póllandi, í París í Frakklandi og árin 1967-1968 var hann í Komsúl kommúnistaskólanum ásamt Degi Sigurðssyni og fleiri mektarmönnum.

Textarnir koma allir í ljóðabókinni Þrítengt, sem kom út 1996. Eins og Gísli segir þá fór hann í ársbyrjun með bók Geirlaugs inn í kompu og hóf að semja lög. Hann náði að leyfa Geirlaugi að heyra fyrstu upptökur.

Gísli hefur áður gefið í sólóplötuna Næturgárun undir nafninu Gillon og Pretty Red Dress með Contalgen Funeral, en einnig 5 ljóðabækur.

Lögin sækja á mann mörg hver og eiga skilið meiri útvarpsspilun. Hringekjan, fyrsta lagið er sérlega grípandi (catchy) og skemmtilega uppbyggt. Rökkur er sérlega Megasarlegt og jafnvel Kinkslegt og alveg eins undir Sigur Rósar áhrifum. Orðin eru líka sérlega vel heppnað lag, stutt ljóð endurtekið á ýmsan máta.

Sum lögin minna á David Lynch og músíkina úr myndum hans í sándi.

Platan endar síðan á tveimur perlum Mynd að hætti Magritte, frábært ljóð, næmt samið og flutt.  Lokalagið er eins og fyrsta lagið magnað og sterkt. Fugl sem fuglari er rúmlega sex mínútur enda mörg erindin. Með harmonikku í stíl götuspilara í austur Evrópu eða Frakklandi.

Óvenjuleg, forvitnileg og heillandi plata.

Ég er hræddur um að þessi plata fari fram hjá mörgum, en endilega tékkið á henni og ekki bara einu sinni.

7 af 10 stjörnum, en ég gef mér leyfi til að að breyta stjörnugjöf af geðþótta 🙂

hia

Umslagið er líka nokkuð metnaðarfullt, málverk eftir Margréti Nilsdóttur

.

 

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *