EGILL ÓLAFSSON – ÖRLÖG MÍN … (2013) 3CD 8 stjörnur

scan0007Egill Ólafsson er einn af okkar mestu og bestu söngvörum og liðtækur hljóðfæraleikari, lagasmiður og leikari svo eitthvað sé nefnt.

Egill hefur gefið út ógrynni platna einn og með öðrum. Mig minnir að hann hafi sagt lögin sem hann hafði úr að velja við samantekt plötunnar hafi verið hátt í 800.

Og þá er spurning, hvernig velur maður á þriggja diska ferilsplötu í tilefni 60 ár æfi?

Ferill Egils er reyndar þannig að það hafa kannski ekki allir fylgst með öllum hans hliðarsporum og þar af leiðandi kannski erfiðara að þjóna öllum á þremur plötum, en á sama tíma auðvelt að koma á óvart.

Spilverk þjóðanna eiga bara þrjú lög í pakkanum, 3 fyrstu, Verkarinn af Götuskóm, Sirkus Geira smart og Sturla af Sturlu.

Stuðmenn eiga 7 lög og Þursarnir 5, sem segir okkur að saga þessara banda er ekki sögð hér, enda hafa þær allar fengið vellegar útgáfur á undanförnum árum í heildar söfnum Spilverksins og Þursanna til dæmis.

Verk Egils með þessum böndum er meðal bestu platna Íslandssögunnar.

Sólóplötur Egils eru líka meðal bestu platna og sýnishorn af þeim er á annarri plötunni ásamt leikhúslagasmíðum. Ekkert þras fer í nýjan búning Egils, Lay Low, Högna Egilssonar og Móses Hightower, sem öll voru með honum á hljómleikunum í Hörpunni um daginn.

Á þriðju plötunni eru ýmis aukaverkefni lög sungin á plötum annarra og lög annarra af ýmsu tagi.

Vel á minnst þá voru hljómleikar Egils með Moses Hightower í Hörpunni alveg ágætir og útgáfur þeirra á lögum Egils saman alveg ágætar. Þeir tóku mikið af lögunum á Örlögunum en ekki bara, því það heyrðust nokkur lög aukalega eins og Plant No Trees In The Garden ef ég man rétt.

Egill nýtir líka plöturnar til að gefa út áður óútgefnar útgáfur, hátt í þriðjungur laganna ef ekki bara meira.

Mörg frægustu laganna má finna annað hvort í nýjum eða gömlum útgáfum. Þarna er Nútíminn, Sigtryggur vann, Fönn Fönn Fönn, Vill einhver elska, Söngur dýranna í Týról, Tívolí, Brúðkaupsvísur, Gegnum holt og hæðir og Ísland er land þitt svo dæmi séu nefnd.

Mikill söngvari, góð, en mjög ólík tónlist og kannski ekki sérlega heilsteypt safn. En kannski er Egill svo margslunginn listamaður að svona eigi þetta að vera.

En ég er hrifinn, elska svona mikið aukaefni og ruglingslegar plötur!

Egill skrifar sjálfur textann í bókina og eins og oft áður sakna í platnaskrár og svona meira sögulegt. Bókin hefði til dæmis mátt tíunda sögur á bak við lögin í þessu tilfelli. En takk fyrir góðan pakka og góðar stundir bæði á plötum og hljómleikum.

hia

8 af 10 stjörnum.

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.