RINGO STARR – Y NOT? (2010)

41QD7rfTxXL__SS500_Það er mesta furða hvað Ringo hefur gert ágætar Bítla plötur á þessum 40 árum síðan Bítlarnir hættu. Hann hefur haldið sig við einfaldar popp melódíur sem falla að þægilegri “verkamanna-röddinni”. Sólóferill byrjaði vel með “Ringo”, með fullt að frægum vinum sem sömdu góð lög fyrir hann. Síðan seig ferillinn og kallinn fór að drekka ótæpilega er sagt. Fyrir tæpum 20 árum sagði hann víst skilið við Bakkus og gerði bestu plötu sína “Time Takes Time” með nokkrum Bítlaaðdáendum sem kölluðu sig The Roundheads. Hann stofnaði líka hljómsveitarregnhlífina All Starr Band til hljómleikahalds en það er safn frægra vina hans sem spila með honum og skipta með sér sviðsljósinu. “Y Not?” er 16. platan hans ef ég tel rétt og ekki ósvipuð því sem hann hefur verið að gera undanfarin ár. Þemað er staðfast hjá honum, ást og friður, tíminn og vinir. Hann hefur ekkert verið að breyta því þótt tíðarandinn breytist fram og til baka. Eins og fyrr fær hann góða gesti, en sjálfur Paul McCartney syngur með honum í besta laginu, “Walk With You”. Joss Stone syngur líka á plötunni. Ringo semur lögin á þessari plötu í samvinnu við marga góða og stjórnar upptökum í fyrsta sinn, og tekst það ágætlega. Paul Mc spilar frábærlega á bassann í laginu “Peace Dream” og lagið “The Other Side Of Liverpool” er líka gott. Elsti Bítillinn verður 70 ára í júlí og er enn að setja mark sitt á söguna. Auðvitað er þetta bara plata sem Bítlafanar kaupa, og meira segja bara þeir hörðustu. En hún er samt ágæt.

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *