HEIMIR KLEMENZSON – KALT (2014) CD 8 stjörnur

scan0064Hver er Heimir Klemenzson? Ég hafði aldrei af honum heyrt þegar að sendi mér fyrstu sólóplötu sína í dóm fyrir nokkrum vikum. Skömmu síðar heyrði ég hann flytja Down By The River með hljómsveit sinni í coverlagakeppni Neil Young laga. Og skömmu eftir það átti hann annað Neil Young, Looking For A Leader, meðal tíu bestu laganna í keppninni (held að það hafi endað í 3ja sæti – en var mun betra en vinningslagið).

Hver er Heimir Klemenzson? Hann spilar á píanó, orgel, Hammond, Mellotrón (vissi ekki að það væri til á landinu), rafmagnspíanó og mini moog.

Hver er þessi Heimir Klemenzson? Hann hefur spilað með Eldberg og hefur verið að spila með eigið band sem kallast ýmist Heimir Klemenzson Quintet eða Quartet.

Hver er þessi Heimir Klemenzson? Hann segist vera undir áhrifum frá Trúbrot, Pink Floyd, Deep Purple, Yes, Weather Report og Steely Dan.

Og hver er þessi Heimir Klemenzson? Hann er kenndur við Hvanneyri sá ég einhvers staðar og söngvari hljómsveitarinnar heyrði ég Óla Palla segja vera frá Akranesi, sem sagt utan af landi.

Hver er þessi Heimir Klemenzson? Hann er búinn að eiga tvo Skúrsþætti hjá þeim Gunna og Ragga á Rás 2, fyrri live og hinn til að kynnna alla plötuna.

Kalt heitir þessi fyrsta sólóplata Heimis og er átta laga, öll lögin 5 til 7 mínútur nema eitt sem er 2 og 3. Og, já, hann er undir áhrifum frá Trúbrot og Pink Floyd og Steely Dan og jazz fusion. Og það er bara gott.

Platan byrjar auðvitað á Endinum, en það heitir fyrsta lagið. Þetta er stutta lagið. Píanó og hammond í anda Richard Wright og Pink Floyd, sérstaklega More og hippasveiminu sem þá var í gangi. Yndislegt instrumental lag!

Vegurinn heitir lagið sem tekur við, wah wah og jazz/funk gítar, rafmagnspíanó og brass í flottum jazz fusion anda. Chicago og Blood Sweat & Tears hefðu verið stolt af þessu lagi. Tekur vel í.

Kalt, titillag plötunnar er að mínu mati lagið sem dregur standardinn niður. Textarnir eru allir fremur þunglyndislegir dómnsdagstextar. Kvennröddin (Rakel Pálsdóttir) færir tónlistina í allt aðra vídd. Fin söngkona, en gerir lagið svo venjulegt, að það hefði alveg getað verið á plötu með Guðrúnu Gunnarsdóttur. En flott píanóbyrjun í anda Robert Lamm (Chicago) og píanókaflarnir á milli alveg afbragð. En sorrí, why? 4:30 er er oft langt og söngurinn er leiðinlegur og kemur proggi og rokki ekkert við.

Fjórða lagið heitir Ekki horfa á elsku barn. Rakel syngur þetta lag líka, en truflar mig minna í þessu lagi, en ég hefði samt notað karlrödd í þessu lagi líka. Kannski er heimspekin í textunum líka undir áhrifum frá Lifun Trúbrots? En Shady var ekki með á Lifun. Orgel og gítarsóló lyfta laginu.

Haldreipi er ekta Trúbrot LIfun Kalli Sighvats og Maggi Kjartans, nema hvað Heimir spilar bæði á píanóið og orgelið og hér er Elvar Örn Friðriksson úr Dusty Miller söngvarinn, þrælgóður. Kraftur og spilamennska í toppi. Trúbrots takturinn er allsráðandi og gítarsóló og alles til að toppa ísinn.

Sjötta lagið heitir Röddin, og þar tæpa þeir inn á ballöðusvið Deep Purple, Emerson Lake & Palmer og King Crimson. Elvar Örn sér hér um sönginn líka, góð rödd sem stelur ekki senunni en dýpkar stemmninguna í laginu. Mildir blásturshljómar minna á Lizard með King Crimson.

Næst síðasta lagið, Lognið, byrjar yndislega á Richard Wright ættuðum píanótónum (ég hlakka til að fá næst Pink Floyd plötu, sem verður að mestu instrumental). Elvar syngur 9 orð: Hvað sem verður um mig Gráttu ei vinur minn. Þarna kemur Pétur Björnsson sterkur inn á fiðlu en annars eru þetta aðallega Pink Floyd sveiflur.  Frábært lag.

Lokalagið Endalausar hugmyndir er sungið af Heiðmari Eyjólfssyni, sem er söngvari og gítarleikari Kvartettsins í dag. Trúbrotssveiflan, orgelið, smá jazzgítar …. ok, ágætt … já og flottur blástur.

Jakob Grétar Sigurðsson spilar á trommur og Þórður Helgi Guðjónsson á bassa, en þeir eru í Kvartettinum líka. Páll Sólmundur Eydal er hins vegar gítarleikari plötunnar, þrælgóður.

Hver er Heimir Klemenzson? Hann er ferskur blær í íslenska tónlist. Þessi plata er skrambi góð, þó að kvenröddin trufli mig og skemmi heildina, kannski er það bara ég. Instrumental lögin heilla mig og þessi Pink Floyd, Trúbrots og jazz fusion blanda.

Kalt er þarna með frumraunum Valdimars og Kaleo! Kannski á leiðinni í 9 stjörnur ?

8 stjörnur af 10

hia

 

This entry was posted in Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *