RÚNAR ÞÓRISSON – ÓLUNDARDÝR (2015) CD 9 stjörnur

scan0289Það hefur varla farið fram hjá íslenskum tónlistaráhugamönnum að Rúnar Þórisson gaf út eitt lag á mánuði frá janúar til nóvember, 11 lög sem hann gaf þá út á  breiðskífunni Ólundardýr, sem var líka heitið á janúarlaginu.

Ég veit ekki hvort hann var tilbúinn með lögin í janúar, nema hvað hann segir að lögin hafi verið tekin upp í janúar til september, en þau hafa samhljóm og minna um margt á tónlist David Gilmour, yfirvegað, vel samið, vel upptekið og umfram allt, vel spilað. Söngurinn er meira hluti að heildarhljómnum.

Þó að Rúnar syngi allar aðalraddir sjálfur, þá er röddin ekki framarlega í hljóðblönduninni, sem mætti þó alveg vera.

Rúnar hefur lengi verið einn besti gítarleikari landsins og ekki eru aðrir hljóðfæraleikarar af verra taginu. Eins og á Sérhverri vá sem kom út 2013 eru Guðni Finnsson og Arnar Þór Gíslason á bassa og trommum, eitt besta taktpar landsins. Dæturnar Lára og Margrét syngja með Rúnari, en þær áttu báðar plötur á árinu og að auki Birkir Rafn Gíslason á ýmsa gítar og hljómborð.

Rúnar á rætur sínar í ýmissi músík, hefðbundnu rokki, progressive rokki, sem hefur oft verið áberandi í tónlist hans og svo má ekki gleyma því að Rúnar er líka tónlistarkennari og lifir því og hrærist í tónlist.

Það þekkja flestir sögu Rúnars í tónlist þar sem Grafík rís kannski hæst, en hann var strax farinn að vekja athygli í Dögg sem spilaði stundum fönk tónlist. Hann var líka um tíma í Haukum, en það voru ekki ófáir snillingarnir sem stöldruðu við í þeirri hljómsveit. Ólundardýr er fjórða sólóplata Rúnars, ef ég kann að telja, og kemur í kjölfar Sérhverrar vá (2013), Falls (2010) og Ósögð orð og ekkert meir. (2005).

Fönk gítarinn fær að að njóta sín vel í Ólundardýr, Í 1000 ár daga og nætur og Rís upp, allt eftirminnileg og góð lög og á pari við það besta sem Grafík gerði. Í 1000 ár ætti að vera á vinsældalista Rásar 2 þegar þessi skrif birtast, sveimandi og seiðandi lagi.

Músíkin hans Rúnars mótast líka af hæfni hans sem gítarleikara og frábærra radda dætra hans sem eru yfir- og umlykjandi alla plötuna og gefa henni sérstöðu og ákveðna stemmningu.

Blandan af fönk gítar og Robert Fripp (King Crimson) gítar fraseringu er svo heillandi og ólík öðru í dag.

Stundum minnir hann mig líka á Gunnar Þórðarson og frábæru plöturnar tvær sem hétu báðar Gunnar Þórðarson. Stemmning sem búa til kvikmyndir í huganum, eins og Fljúgðu hærra.

Á vegi sínum undrandi er dreymandi ljúft country lag, eins og Rúnar segir sjálfur en lagið syngur hann með Margréti. ,,Á vegi sínum undrandi, um framtíðina spyrjandi, hvert liggi leið, hvert leiði spor.”

Platan er tileinkuð föður Rúnars, Þóris Sæmundssonar, sem er höfundur lokalagsins, Í síðasta sinni, með ljóði eftir Davíð Stefánsson.

Hér er söngur Rúnars mun framar og hljómar vel, en undirleikur er rafmagnsgítar auk fiðlu og selló. Flottur endir á góðri plötu.

hia

9 stjörnur af 10

ps Plötuumslagið er mjög smekklegt, svart hvítt að mestu, minimalist, og allir textar vel læsilegir þó myndin á framhliðinni geri ekki neitt fyrir mig og segi ekkert um innihaldið.

 

This entry was posted in Dómar, Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *