THORBJÖRN EGNER – GÖMLU GÓÐU BARNALEIKRITIN (2010)

Fyrir skömmu kom út 4ra diska box með 4 vinsælum leikritum eftir EgnerThorbjörn Egner. Leikritin eru Kardimommubærinn, Karíus og Baktus, Dýrin í Hálsaskógi og Síglaðir söngvarar. Plöturnar innihalda gömlu góðu upptökurnar sem allir kannast við. Sagt er að þessar fjórar plötur hafi samtals selst í rúmlega 100.000 eintökum og eru Kardimommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi með mest seldu plötum Íslands. Ég hef líklega séð fyrstu uppfærsluna á Kardimommubænum árið 1961 og eignaðist síðan litla bók með plötu áprentaðri með nokkrum laganna á bókakápunni líklega sama ár eða árið eftir. Mér er leiksýningin enn minnistæð og það sama má segja um Dýrin í Hálsaskógi. Bessi Bjarnason og Árni Tryggvason hafa ætíð síðan verið landsmönnum hjartfólgnir svo ekki sé meira sagt. Dýrin voru sýnd 1962 með flestum sömu leikurum, sama boðskap og gleði og söngvum, „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“. Karíus og Baktus var fyrst flutt í barnatíma útvarpsins en síðan sett í leikbúning fyrir sjónvarp, þar sem Skúli Helgason, núverandi þingmaður, betur þettur sem útvarpsmaður á Rás 2 og Bylgjunni síðar, lék snáðann Jens. Síglaða söngvara sá ég aldrei enda orðinn táningur þá! Mörgum árum síðar komst ég að því sem er vonandi rétt að það er til Kardimommubær í Noregi, en sonur Egners kom eitt sinn í búðina til mín á Laugaveginn og keypti þær útgáfur sem þá voru til og sagði mér sögur af föður sínum. Egner var reyndar tíður gestur hér í kringum sýningarnar og gaf meira að segja eftir stefgjöldin af sýningum hérlendis til sjóðs sem heitir Egner sjóðurinn. Sígildar perlur úr leikhúsinu og gætis lög með góðum boðskap.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

One Response to THORBJÖRN EGNER – GÖMLU GÓÐU BARNALEIKRITIN (2010)

 1. Toggi says:

  Jebb, frábært framtak þessi kassi. Það er erfitt að setja puttann á áhrifamátt þessara verka. Boðskapurinn er á köflum dálítið skrítinn (á maður að afneita eðli sínu að boði meirihlutans eins og verður niðurstaðan í Hálsaskógi?) Og stundum er hann settur einkennilega fram (hvaða barn fær ekki samúð með Karíusi og Baktusi?)

  En þetta virkar. Góðlátlegur húmor og hugmyndaflug Egners yfirvinnur alla rökvísi. Sem betur fer.

  Egner var himinsæll með frumuppfærslur Þjóðleikhússins á verkum sínum og gaf leikhúsinu sýningarrétt á þeim á Íslandi. Þannig að höfundagreiðslur allra sem sýna verkin (og stefgjöld vegna laganna) renna í Egnerssjóð sem Þjóðleikhúsið úthlutar úr, að ég held eingöngu til listamanna hússins.

  Eftirlætisuppfærsla mín á verkunum er tvímælalaust Dýrin í Hálsaskógi hjá leikfélagi Flensborgarskóla. Skrifaði leikdóm um hana í moggann. Hann er hér:

  http://leikdomar.blogspot.com/2000/04/drin-hlsaskgi-banna-brnum.html

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *