EGILL ÓLAFSSON – FJALL (2017) LP 8 stjörnur

Ferill Egils Ólafssonar spannar um 42 ár, hann hófst opinberlega með Spilverki Þjóðanna og Stuðmönnum. Síðan þá hefur hann víða komið við, flutt allskyns tónlist bæði einn og í samvinnu við aðra. Hann hefur líka leikið á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpi.

Fyrir fimm árum kom út sólóplatan Vetur sem Egill vann með finnanum Matti Kallio. Metnaðarfullt verk á lágu nótunum sem var dálítið ólíkt því sem oft hafði komið frá Agli.

Nýja platan er í rökréttu framhaldi að Vetri og heitir Fjall, en samt með meiri tilvísun í mun fleiri áttir. Egill semur öll lögin sjálfur, en þó eitt þeirra með sínum gamla félaga Sigurði Bjólu.

Fjall byrjar í anda níunda áratugarins og nýbylgjunnar með laginu „Hér er allt …“ með textapælingu og samhengi „bankakreppunnar“ og „túristasprengjunnar“. Egill hefur alltaf verið pólitískur og haft sínar skoðanir sem hefur stundum miðlað í textum sínum. Hann er líka vel upp alinn í músík, ljóðum og fagurfræðum.

„Hósen gósen“ er lagið sem hann semur með Bjólunni og minnir á fyrri verk hans eins og „Blátt Blátt“. Í kjölfarið kemur funky jazzrokkið „Tómaflökt“ með smá tilvísun í tíma Þursanna. „Mikið er gott að sjá þig…“ er líka í þessum Steely Dan / Móses Hightower anda.

Gamla Spilverkslagið sem aldrei var gefið út á sínum tíma er lagið „Í ljóði“, sem er dreymandi og háfleygt, kinkað í átt til laga David Crosby.

Þrjú laganna á B hliðinni (já við erum bara að tala um vinylplötu ekki disk, en það fylgir niððurhalslykill hverri plötu) minna mig á Beatles, Hey Jude / Let It Be, gítarleik George Harrison. „Tími og ótími“ byrjar með píanóslætti í anda Paul McCartney, flott popplag með Bítlabragði. „Ég kem af fjöllum“ er mjúkt sveim lag á lágum nótum og „Við erum dús“ er líklega einhvers konar persónulegt uppgjör fullorðins manns og konu, sungið með Sigríði Thorlacius í dúett.

Fjall er góð og vönduð plata sem endurspeglar marga áhrifavalda bæði í lögum og textum, en þó enn sterkar feril og lífshlaup Egils.

Lögin sem heilla mest eru Tími og ótími, Hér er allt og Í ljóði.

8 af 10 stjörnum.

n.b. Umslagið er vandað og fagmannlega unnið en stærð LP plötunnar er líka betri til að koma list plötuumslagsins til skila.

This entry was posted in Dómar, Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *