Ljótir 1/2 vitar með nýja plötu

001Ljótu hálfvitarnir eru að gefa út nýja plötu. Þeir er jafn frumlegir (?!) og fyrr og heitir platan Ljótu hálfvitarnir eins og hinar tvær. Og umslagið er nokkuð svipað. Ljótt og hálfvitalegt.

Þó má með góðum vilja greina á milli albúmanna. Liturinn á nafni hljómsveitarinnar er ólíkur (grænn á nýju plötunni), myndin af Hálfvitunum er ekki alveg sú sama (bara ljótari, þeir eru naktari) og svo eru ekki sömu lögin á þeim (að þeirra sögn miklu betri á nýju plötunni).

Partílagið Gott kvöld er farið að heyrast í útvarpinu og gefur tóninn fyrir gott hálfvitasumar, en þar er sungið um samkvæmi sem fer svolítið úr böndunum. Annars eru yrkisefni Hálfvitanna á svipuðum dúr og áður. Gleði, bjór, konur, dans og ást. Og hafið kemur meira að segja við sögu, en hálfvitarnir þykjast flinkir í sjómannalögum.

Þó Hálfvitarnir séu níu talsins þótti þeim nauðsynlegt að fá liðsauka. Þriggja manna brasssveit setur svip á nokkur lög, gestatrommarar grípa í kjuða og efnileg söngkona að norðan, Halla Marín Hafþórsdóttir syngur með í einu lagi. Og svo kemur sjálfur KK við sögu í tveimur lögum, syngur, spilar á gítar og blæs í munnhörpu af sinni alkunnu snilld.

Plötunni verður fylgt eftir með tónleikahaldi í sumar. Það hefst með tvöföldum útgáfutónleikum. Þeir fyrri verða í Íslensku óperunni laugardaginn 5. júní og viku síðar halda Hálfvitar á heimaslóðir og spila að Ýdölum í Aðaldal norður. Verða þessir útgáfutónleikar að vanda talsvert veglegri en venjulegir Hálfvitatónleikar, gestir kíkja í heimsókn og allir fara í sparifötin.  (Skrumskæld fréttatilkynning frá 1/2 vitunum).

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *