ROLLING STONES – EXILE ON MAIN STREET (1972)

0011972 var mjög gott tónlistarár.

Ógrynni góðra platna kom út þetta ár, eða tæplega 30 10 stjörnu plötur (að mínu mati að sjálfsögðu).

„The Rise And Fall Of Ziggy Stardust“ með David Bowie, „Harvest“ með Neil Young, „Down At Rachel‘s Place“ með Mike d‘Abo, „ Mary C. Brown And The Hollywood Sign“ með Dory Previn og „Exile On Main Street“ með Rolling Stones, þær fimm bestu.

Meðal frægustu og lífseigustu laga ársins eru síðan „American Pie“ með Don McLean, „Heart Of Gold“ með Neil Young, „Without You“ með Nilsson, „The First Time Ever I Saw Your Face“ með Roberta Flack og „Layla“ með Derek & The Dominos (Eric Clapton) auk “Tumbling Dice” með Rolling Stones og “Starman” með David Bowie.

Annað sem tengt er þessu ári: Í Bretlandi voru miklar breytingar og erfiðir tímar. Árið áður höfðu skattar verið hækkaðir verulega, að mig minnir, með verulegum flótta athafnamanna (útrásarvíkinga?) í skattaskjól, þar á meðal fluttu Rolling Stones sína starfsemi til Frakklands, Lúxembúrgar og eflaust Jómfrúareyja og fleiri landa vegna skatta. Verkföll voru tíð og atvinnuleysi náði hæstu hæðum (1milljón í byrjun árs). Átökin á Írlandi urðu harðvítugri og í byrjun árs var fjöldi manns drepinn hinn illræmda Bloody Sunday, sem var bara byrjunin. Bretar og Idi Amin í Úganda voru í heiftugum erjum sem varð til þess að Amin lét senda alla breska ríkisborgara til Bretlands í þúsundatali. Í september hófst stríð við Íslendinga, Þorskastríðið, hið annað í röðinni. Bretar frystu líka laun og verðhækkanir undir lok árs til að hefta verðbólgu. (Kunnuglegt). Og Access gaf út fyrsta kredit kortið í Bretlandi. (Wikipedia uppl.) (Því miður virðist saga Íslands 1972 ekki aðgengileg á netinu, enda íslenska wikipedian reglulega fátækleg og léleg!).

En þetta var hið Breska umhverfi 1972 þegar öll þessi góða músík kom út.

„Exile On Main Street“ var 10 stúdíóplata Stones (12. ef miðað er við Amerísku útgáfuröðina) og sú 3ja með Mick Taylor á gítar. En hinar voru Let It Bleed og Sticky Fingers.

Að mínu mati var Stones án Brian Jones ekki lengur sama hljómsveitin. Lögin breyttust verulega, meiri blues, meira Boogie, minni framúrstefna. Færri tilraunir, basic hljóðfæraskipan og fá lög á borð við “Paint It Black”, “Mother‘s Little Helper”, en meira af “Honky Tonk Woman”, “Brown Sugar” og “It‘s Only Rock n Roll”.

Hvað um það, Blómaárin 1966-1970 voru litrík og gjöful í músík, en við tók dálítið svarthvítt tímabil, þó líka gjöfult ef ekki enn gjöfulla, horft til baka.

Endurútgáfur Stones hafa hingað til verið fremur lélegar samanborið við aðrar eins og Kinks, U2, Elvis Costello, Moody Blues og fleiri sem hafa hækkað standard upphaflegu platnanna verulega.

Endurútgáfur Brian Jones bandsins hafa til dæmis verið fremur hallærislegar. Í Bretlandi komu út 7 original plötur með 12-14 lögum, en í USA 9 plötur með 10-12 lögum.  Og það eru bara þessar Amerísku plötur sem eru fáanlegar á diskum í dag og án nokkurs aukaefnis.

Ef rétt hefði verið unnið úr þessum plötum hefði mátt fylla 80 mínútur með því að gefa út bresku útgáfurnar með aukaefni af smáskífum, EP plötum, live upptökum og óútgefnu efni sem tilheyra hverju tímabili.

Sama má segja um plöturnar sem komu í kjölfarið frá Let It Bleed. Þær hafa alla vega tvívegis verið endurútgefnar en án nokkurs aukaefnis.

Fyrsta endurútgáfan á Exile On Main Street sem kom út 1994 kom út sem smækkuð mynd af upphaflega umslaginu með póstkortunum og innri umslögum í smækkaðri mynd.

Útgáfan núna er er önnur plata Rolling Stones sem kemur með aukaefni.  Hin var Get Yer Ya Ya‘s Out.

Exile On Main Street var mikið hampað af popppressunni og Stones gáfu meira að segja út flexi kynningarplötu með auglýsingablúslaginu „Exile On Main Street Blues“ sem var límt framan á New Musical Express. (Og hefði að ósekju mátt vera aukalag).

„Tumbling Dice“  var gefið út á litla plötu og náði vinsældum og „Happy“ komst síðar á lista í USA. Bæði þessi lög hafa verið föst á hljómleikalagalistanum síðan, en einnig hafa „Shine A Light“ og „All Down The Line“ verið mikið spilaðir rokkarar.

Tvö flottustu lögin að mínu mati eru ballöðurnar „Sweet Black Angel“ og „Sweet Virginia“  sem hafa verið vinsæl Stones lög í gegnum tíðina.

Önnur frábær lög eru „Rocks Off“ sem gefur fyrsta tóninn á plötunni sem gleymist aldrei. Síðan kemur „Rip This Joint“ , „Shake Your Hips“ eftir Slim Harpo, „Casino Boogie“ og „Tumbling Dice“, fylla fyrstu hliðina á upphaflegu tvöföldu plötunni , allt saman rokk og blues.

Önnur hliðin er róleg og seiðandi og hefst á „Sweet Virginia“ með country og gospel ívafi, „Torn And Frayed“ , smá boogie, „Sweet Black Angel“ soul og gospel, og „Loving Cup“ annað gospel skotið lag.

Slakasta hliðin er sú þriðja þó hið frábæra Keith Richards lag „Happy“ sé á henni. En „Turd On The Run“, „Ventilator Blues“, „I Just Want To See His Face“ og „Let It Loose“ eru bara einfaldlega auðgleymanleg!  Og þau hefðu alveg mátt missa sig upphaflega og gert enn hnitmiðaðri einfalda plötu.

Fjórða hliðin hins vegar inniheldur tvö þrælgóð lög, „Shine A Light“ enn eitt gospelskotið lagið og „All Down The Line“ einfalt boogie lag. Robert Johnson blúsarinn „Stop Breaking Down“ og „Soul Survivor“

Þetta var sannkallað períódu meistaraverk og sett nokkuð tóninn í tónlistarheiminum.  Platan hefur staðist tímans tönn og hljómar heilsteypt og góð í dag þó ég telji margar Stones plöturnar vera betri, og hvað þá ef eldri plöturnar fengju svona Kinks/Costello/U2 yfirhalningu.

Hljómurinn í 2010 útgáfunni er mjög góður og hækkar gæðastuðulinn verulega á plötunni.

Aukalögin/aukaplatan er dálítið sérstök. Sagt er að þessi lög séu ekki frá upphaflegu upptökunum og jafnvel frá allt öðrum tímum!

En þar eru þó nokkrar ágætar aukaupptökur á lögum sem eru á aðalplötunni eins og „Loving Cup“, „Soul Survivor“ og „Good Time Woman“ („Tumbling Dice“ með öðru texta).

„Following The River“ og „Plundered My Soul“ eru fín lög, og hin lögin eru svona svona.

Umbúðirnar eru ágætar en kannski ekki sérlega mikið „Deluxe Edition“ . Þar hefði mátt gera betur og þá vitna ég í útgáfur eins og U2 endurútgáfurnar.

Þetta var meistaraverk 1972 og er ennþá.

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews. Bookmark the permalink.

3 Responses to ROLLING STONES – EXILE ON MAIN STREET (1972)

  1. Ísak says:

    Ég verð að gera athugasemd…var Layla ekki gefið út 1970?

  2. halldor says:

    Mikið rétt Ísak 2LP platan “Layla and other Assorted Love Songs” kom út 1970, en singúllinn var gefinn út fyrst 1971 og gerði ekkert og síðan 1972 og sló í gegn og þ.a.l. tengir Kaninn lagið við 1972, ég er svo sem alveg sammála þér að tengja það við árið sem það kom fyrst út.

  3. Þú hefði vel mátt hafa Tarnsformer – Lou Reed með í upptalningu góðra platna 1972.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *