MANNAKORN – GAMLI GÓÐI VINUR – VINSÆLUSTU LÖGIN (2010)

mannaMannkornsplöturnar hafa verið með vinsælustu plötum íslensku tónlistarsögunnar og nokkur laga þeirra eins og „Reyndu aftur“, „Ó Þú“, „Braggablús“, „Einhvers staðar einhvern tímann aftur“, „Á rauðu ljósi“, „Göngum yfir brúna“, „Einbúinn“, „Róninn“ og „Aldrei of seint“ eru hreinræktuð meistaraverk.

Þessi safnplata er góður minnisvarði fyrir lagasmíðar Magnúsar Eiríkssonar, þó hann hafa samið mörg góð lög sem aðrir hafa flutt líka, hún er líka góður minnsvarði Pálma Gunnarssonar, sem er einn af betri söngvurum landsins, og hún er líka góður minnisvarði Ellenar Kristjánsdóttur, sem söng sín fyrstu lög á þriðju Mannakornsplötunni.

Þó að það komi ekki fram í góðum pistli Jónatans Garðarssonar í bæklingnum sem fylgir plötunni, hélt ég alltaf að Mannkorn hafi byrjað sem blúsbandið Blues Company eða Blús kompaníið, með Magga, Pálma, Bóa og Birni, þó margir aðrir hafi líka spilað í Blús komaníinu t.d. Kalli Sighvats.

Enda voru aðalleikararnir á fyrstu plötunni Magnús og Pálmi auk Baldurs Más Arngrímssonar og Björn Björnssonar og Úlfars Sigmarssonar.

Fyrsta platan sló í gegn með lögum eins og Ó þú, sem allir upprennandi söngvarar spreyta sig á, Einbúinn sem Vilhjálmur heitinn Vilhjálmsson söng, Róninn og Kontóristinn, en ég man eftir myndböndum við þau bæði, Lilla Jóns, sem Bói söng og Hudson Bay, sem Maggi söng. En eina lagið sem ég sakna var á fyrstu plötunni lagið Komdu í partí.

Og Magnús var ekki lengi að koma með næstu plötu,  Í gegnum tíðina, sem kom út 1977. Átta af ellefu lögum af plötunni eru hér og vinsælustu lögin voru auðvitað Reyndu aftur og Braggablús, en Ef þú ert mér hjá og Göngum yfir brúna voru einnig mjög vinsæl.

Brottför kl 8 er að mínu mati síðasta klassíska Mannakornsplatan. Þar kom Ellen Kristjánsdóttir til sögunnar, kornung stúlka, sem kom inn í stúdíóið og vildi syngja í myrkri, þannig að enginn sæi hana og hafði vinkonu sína með sér til trausts og halds. En það var ekkert smá debut! Einhvers staðar einhvern tímann aftur og Aldrei of seint stimpluðu rödd hennar varanlega inn í íslenska tónlistarsögu.

Þannig að önnur góð lög eins og Gamli skólinn og Ferjumaðurinn og Graði rauður, sem Baldur Már söng, féllu í skuggann.

Þessar þrjár plötur komu út á meðan ég skrifaði um poppmúsík í blöðunum sálugu Vísi og Mogganum (það voru allt önnur blöð en í dag). Reyndar dæmdi ég ekki Í gegnum tíðana því þá var ég að skrifa í Vikuna.

Næsta plata kom út 1985, sex árum síðar, Í ljúfum leik. Þessi plata sló ekkert sérstaklega í gegn, allavega man ég ekki eftir henni úr Plötubúðinni, en Á rauði ljósi var þó vinsælt í útvarpinu. Og þess má geta að Ellen var ekki með.

Ég man eftir því að nokkur eintök seldust Af Bræðrabandalaginu, enda Ellen komin aftur og ekki verra að hafa Kidda frænda á saxa (Kristinn Svavarsson). Ég elska þig enn, enn ein frábær ballaðan með Pálma og Lifði og dó í Reykjavík með Ellen eru lögin sem lifa.

1989 lögðu Mannakorn inn í Eurovisionbankann lagið Línudans, sem Ellen söng, en náði samt ekki í keppnina, en ágætt samt, og lifir enn. Lagið var á safnplötunni Bjartar nætur sem var nokkuð vinsæl.

Samferða kom út 1990 og ég man ekki til þess að hún hafi selst mikið, allavega ekki í Plötubúðinni og ég verða að viuðurkenna að ég man ekkert eftir lögunum þó þau séu ágæt. Lögin Samferða og Óralangt í burtu heyrast þó annað slagið.

Hins vegar man ég eftir laginu Litla systir sem Ellen syngur og var á safnplötunni Bandalög 4 1991 og seldist ágætlega.

Já takk kom út 1994 með tilheyrandi 50 ára Lýðveldisafmælisumslagi og seldist ágætlega minnir mig. Þar var lagið Fínn dagur, sem fór alveg framhjá mér.

Næst gerðu Mannakorn plötuna Betra en best (skelfilegur titill á nýútgefnu efni) árið 2004. Ellen bara í einu lagi, en María er lag sem heyrðist í útvarpinu og er bara nokkuð gott og vel sungið af Pálma eins við er búist.

Í fyrra kom síðan út platan Von, sem varla hefur staðist væntingar því ekki held ég að hún hafi selst í bílförmum enda lítið kynnt og lítið spilið hverju sem það veldur, kannski þróttleysi þeirra, útgáfunnar eða …

Hvað um það, ágætislög, enn og aftur er Magnús að grufla í þjóðarsálinni og tíðarandanum og berjast við hina og þessa djöfla.

Gamli góði vinur er mjög gott safn, frábært lagaval, aðeins eitt lag vantar að mínu mati.

Útgáfan er glæsileg eins og við var að búast af Senu (þe.a.s. Höskuldi Höskulssyni), pistill Jónatans er bæði skemmtilegur og fræðandi og mjög vel skrifaður.

Og þetta er frábær vitnisburður um snilld Magga, Pálma, Ellenar og Bóa.

Það má benda á aðra útgáfu sem kom út 2001, Braggablús, sem er safnplata með lögum Magnúsar, en þar eru t.d. Draumaprinsinn og Hvað um mig og þig með Röggu Gísla, Þjóðvegurinn með Brimkló, Ég er á leiðinni með Brunaliðinu, Gleðibankinn með Icy, Sönn ást með Bjögga, Vegurinn heim og Þorparinn með Pálma og Ómissandi fólk og Óbyggðirnar kalla með Magga og KK .

En Gamli góði vinur er frábært safn,

5 stjörnur

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *