HELGI BJÖRNS & REIÐMENN VINDANNA – ÞÚ KOMST Í HLAÐIÐ (2010)

001Helgi Björns kann að gera vinsælar plötur. Þessi góði rokkari kom öllum að óvörum með plötu með „hestalögum“ árið 2008 sem sló heldur betur í gegn. Sú plata innihélt nokkur þekkt ættjarðarlög um hestinn og hestamennsku og útiveru, auk nýrri laga eins og Blakkur, Vegbúinn og Ég sé um hestinn.

Í fyrra kom hann síðan með Kampavín, plötu um áfengi og fyllerí! Lögin voru snemmbæru rokklögin frá 1940-1950. Og hún sló í gegn.

Og nú kemur sumarplatan 2010, önnur hestaplata. Og Helgi fer svo sannarlega á kostum í lagavalinu. Hann tekur lögin sem hestamenn og karlakórar (fer oft saman) syngja víst mest, eins og Undir bláhimni, Draumalandið (já Draumalandið), Fram í heiðanna ró, Vinarkveðja (Besti vinur bak við fjöllin háu) og Ég mætti þér um kvöld. Síðan er þarna Sem lindin tær, sem blandaður kór frá Siglufirði ásamt Gautum gerðu vinsælt hér fyrir 40 árum á gömlu Gufunni.  Megasarlagið Gamli sorrí gráni og Bíólagið Stuðmanna er fulltrúar seinni fortíðar.

Helgi er með einvala lið með sér sem flestir hafa spilað með honum áður m.a. í SS Sól.  Helgi syngur þessi frægu lög með sínu nefi hvort sem þau hafi verið fræg með lærðum tenórum, karlakórum eða Megasi. Og hann fer reglulega vel með það. Lindin og Draumalandið öðlast nýtt líf og sama má segja um Fram í heiðanna ró. Ég þori að veðja að þessi plata seljist vel núna fyrir mestu ferðahelgi landans.

4 stjörnur fyrir vel heppnað framtak.

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *