KINGS OF LEON – COME AROUND SUNDOWN (2010)

Kings Of Leon hófu árið 2010 með því að taka við Grammy verðlaunum fyrir bestu plötu ársins 2009 (sem kom út 2008) og besta rokk lag ársins Use Somebody.

Þeir tóku sinn tíma í að slá í gegn þvi 2008 platan Only By Night var fjórða plata þeirra og orðið stórt spurningamerki hvort þeir yrðu bara í meðalmennskuvinsældunum.

Kings of Leon er dálítið sérstakt band, þrír bræður og frændi þeirra. 1999 fengu Nathan og Caleb Fellowill plötusamning sem dúett, en í staðinn að fá stúdíóband fengu þeir smá tíma til að stofna sitt eigið band. Þeir keyptu bassagítar handa litla bróður Jared og náðu í frænda sinn Matthew sem hafði reyndar spilað á gítar síðan hann var 10 ára.

Þeir lokuðu sig í kjallaranum heima hjá bræðrunum í heilan mánuð og þegar liðið frá RCA plötuútgáfunni kom mánuði síðar voru þeir tilbúnir með öll lögin sem voru á fyrstu EP plötunni Holy Roller Novacaine. Platan kom þó ekki út fyrr en 2003. Fyrsta breiðskífan Youth And Young Manhood, kom út sama ár og náði  topp 5 vinsældum í Bretlandi. Önnur platan gerði það líka Aha Shake Heartbeat (2004) og smáskífulögin náðu líka vinsældum. Þriðja platan Because Of The Times (2007) fór í fyrsta sætið í Bretlandi en þeir voru ekki mikið að gera í heimalandi sínu þó.

Kannski er það vegna þess að tónlistin þeirra minnti á nokkrar breskar hljómsveitir eins og U2, Big Country, Alarm og Simple Minds, þó áhrifin séu auðvitað úr fleiri áttum.

Fjórða platan sem kom út 2008, Only By The Night sló síðan í gegn og bandið allt í einu orðið að stadium rokk bandi eftir hafa spilað í klúbbum og hitað upp fyrir U2.

Come Around Sundown hafði þegar selst í 11 milljón eintökum þegar hún kom út! Stendur slík plata undir væntingum ?

Ég hef bara hlustað á þá með öðru eyranu hingað til, fannst þeir allt í lagi en vöktu engan sérstakan áhuga frekar en margar U2 wannabe´s og engan veginn á óskalistanum. En Use Somebody heyrðist nógu oft til að verða ásættanlegt rock anthem, svona ekta amerískt Rock Star lag, Magni hefði eflaust tekið það í sjónvarpsþáttum. Sex On Fire var líka fyrsta (og ennþá eina) fyrsta sætis lagið þeirra.

Auðvitað tékkaði ég strax á Come Around Sundown (mánuði áður en hún kom út) og jú, enn og aftur, ágætt framlag. En með mun meiri hlustun að baki eftir þessa viku er ýmislegt sem ég sé við þessa plötu fram yfir fyrri afurðir.

Þeir eru komnir í Stadium Rokk klassann við hliðina á Green Day og Foo Fighters og lögin eru öll í sama klassa og Use Somebody. Áhrifin eru víða að; blúsuð í anda Pearl Jam (The End); rokkuð í anda Big Country(Pony Up); gamaldags; popprokkaðir í anda Bryan Adams; mun betri spilarar en áður, Matthew kominn með sinn eigin The Edge stíl (broskall) og tilbúnir á stóra sviðið.

Lög eins og Radioactive sem minnir smá á Depeche Mode (Personal Jesus), The End, sem er stór rokk ballaða, Pyro er líka stór stadium rokk ballaða með kveikjurunum á lofti, ég meina símum!

Lögin svinga vel, ekki kannski miklir rokkar, en eins og Big Country, ættu að ná góðri stemmningu á sviði. Mér skilst að þessir strákar sé miklir country aðdáendur, en Mi Amigo og Back Down South eru virkilega flott country rokk lög og síðan er uppáhaldslagið mitt Mary í svona Pearl Jam / Fifties anda með úum og ahhum, eins og þegar Pearl Jam gerðu Last Kiss.

Ef ég væri með plötubúð mundi ég veðja á þessa plötu í jólaflóðinu og hikstalaust mæla með henni til gjafa, þar sem ég er viss um að fáir myndu skila henni eða skipta.

Og það er kannski líka málið, líklega bætast við margir eldri og yngri hlustendur með þessari plötu.

En líklega hafa þeir misst kúllið! NME segir það allavega! Enda ekkert kúll að vera vinsæll!

(7 stjörnu plata)

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Sérvalið, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *