SÁLIN HANS JÓNS MÍNS – UPP OG NIÐUR STIGANN (2010)

Ein af farsælli hljómsveitum landsins, Sálin hans Jóns míns, er komin á stjá og með nýja plötu, Upp og niður stigann, sú fyrsta með nýju frumsömdu efni frá því löngu fyrir hrun, eða 2005.

Hljómur sveitarinnar er sterkur með góðum popplögum og oftast mjög góðum textum. Og Stefán Hilmarsson hefur bæði mjög góðan hljóm og enn betri tækni, sem hefur bara batnað á þessum 22 árum síðan fyrsta platan kom út.

Á nýju plötunni njóta þeir aðstoðar Stórsveitar Reykjavíkur, blásarasveitar, undir stjórn Samúels Samúelssonar, enda viðeigandi þar sem bandið byrjaði sem Soul band.

Þetta er svo sem ekkert unglingaband lengur, eftir allan þennan tíma en þeir halda frískleikanum og sándinu nokkuð vel.  Þeir eru fyrst og fremst að slípa sinn hljóm og vaninn er sá að lögin þeirra vinna á með tímanum.

„Fyrir utan gluggann minn“ var sett í útvarpsspilun og í sölu á tonlist.is síðsumars og var eitthvað spilað, en nú er lagið „Vatnið rennur undir brúna“ komið í spilun og inn á lista Rás 2 allavega.

En það eru nokkur önnur lög sem gæti eignast langt líf bæði í útvarpi, vinsældalistum og þar af leiðandi í hugum og minningum. „Fortíðarþrá“ t.d. með góðum texta, „Meira en nóg“, „Á morgun kemur annar dagur“ er eins og samið fyrir Villa Vill, falleg ballaða, „Mín sök“ með smá rokkkrafti og smá Bjögga, „Alltaf hægt að sofa seinna“ er vel útsett með brassinu sem sterkum hluta af bandi, ef öllu heldur laginu minnir smá á Chicago og Blood Sweat & Tears.  „Það fer á einhvern veg“ er einnig vel útsett með funkbassa, dískógítar og flottu brassi. Og titillagið er ekta Stebbi röddin sterk í einföldu lagi og raun er það röddin sem virðist stjórna för.

Guðmundur er einn besti lagasmiður íslenska poppsins, mjög klassískur með góðar laglínur, klassísk viðlög og brýr á milli, mikill og góður popplagasmiður á meðan textar Friðriks og Stefáns byggja á klassískum stíl ættjarðarskáldanna, rómantískir og oftast persónulegir.

Guðmundur Jónsson semur flest laganna að vanda en Jens Hansson á tvö laganna. Friðrik Sturluson semur sjö textanna og Stefán hina fjóra, sem sagt ekkert utan af komandi efni.

Stórsveitin er ekki í aðalhlutverki heldur styður og styrkir, ólíkt því þegar þeir unnu með gospelkórnum um árið sem var orðið hálf þreytandi út um allt (svo ég gleymi nú ekki því að allir þurfi að gera plötu með Sinfó – púff.)

Sem sagt ágæt plata sem á eflaust eftir að vinna á með útvarpsspilun.

7 stjörnur af 10.

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *