ERIC CLAPTON – CLAPTON (2010)

Eric Clapton er einn af máttarstólpum rokksögunnar. Hann er af mörgum talinn besti gítarleikari rokksins, þó hann eigi nokkra verðuga keppinauta þá held ég enginn neiti því hann sé einn af þeim bestu.

Clapton vakti fyrst athygli með The Yardbirds, gekk síðan til liðs við John Mayall‘s Bluesbreakers og gerði með þeim tímamótaplötu í enskum blús. Eftir það stofnaði hann Cream ásamt Jack Bruce og Ginger Baker og þeir breyttu tónlistarsögunni með fjórum plötum en Disreali Gears og Wheels Of Fire verða að teljast með bestu plötum rokksögunnar. Eftir Cream stofnaði hann Blind Faith með Steve Winwood úr Traffic m.m. og þeir gerðu samnefnda plötu sem fellur einnig undir tilnefningu í meistaraverkaflokkinn.

Eftir það gerði hann fyrstu sólóplötu sína „Eric Clapton“ með Delaney & Bonnie og fleiri Ameríkönum, sem lét lítið yfir sér en hefur vaxið með árunum. Hann stofnaði Derek & The Dominos með nokkrum af spilurunum á EC og þeir gerðu Layla & Other Assorted Love Songs, sem var eitt meistarastykkið í viðbót og þá sérstaklega vegna titillagsins.

Eftir smá hlé tók sólóferillinn við af fullum krafti, eftir afvatnanir og þess háttar tengd hliðarspor. „461 Ocean Boulevard“ er plata sem ég set líka í meistarverkaflokkinn, og á eftir henni kom líka „There‘s One In Every Crowd“ sem mér fannst meira að segja betri á þessum tíma.  „No Reason To Cry“, „Slowhand“ og „Backless“ voru allar mjög góðar  og „Another Ticket“ og „Money  & Cigarettes“ voru allar ágætar, en svo kom „August“ með Phil Collins og eftir þaðer ekki mikið af meistaraverkum þó að gítarspilið og flott röddinn gleðji mann alltaf.

Clapton hefur samið fullt af flottum lögum „Wonderful Tonight“, „Tears In Heaven“  og „Layla“ sem er kannski hans meistaraverk.

„Clapton“ er því miður mikil vonbrigði fyrir mig, enda ætlast ég alltaf til þess að fá nýtt meistaraverk, en „Clapton“ er ekki meistaraverk og stendur alls ekki undir heitinu.

En það eru margir góðir punktar og ef hann hefði bara ekki fiktað í þessum söngleikjalögum  millistríðsáranna hefði platan verið margfalt betri.  En þessi blanda af blús, New Orleans Jazz og söngleikjalögum er hreint ekki það sem ég vil.

Ef ég hefði fengið þessa plötu sem útgáfustjóri þá hefði ég hafnað henni kurteisislega og spurt hann hvort hann ætti ekki einhver fleiri frumsamin lög, eða hvort hann vildi ekki frekar gefa sér betri tíma og gefa út eina Jazz plötu, eina enn blúskoveraplötuna (púff), eina standard plötu, t.d. dúetta plötu með Rod Stewart. En hvar í fjöllunum er ný Clapton platan?

Ef ég vil hlusta á blús útgáfur set ég blúsara á fóninn, Muddy Waters, John Lee Hooker, Robert Johnson. Ef ég vil hlusta á millistríðsmúsík set ég Louis Armstrong, Fats Waller, nú og standardana, þá sungu 50s croonerarnir öll þessi lög, Peggy Lee, Julie London, Frank Sinatra og Tony Bennett.

Clapton lögin:

Traveling Alone – besta lag plötunnar, country blús eftir Melvin Lil Son Jackson líka frá 50-54. Hefði passað vel í setlista Canned Heat. Nú eða Cream en þá hefði nú verið kröftugri trommuleikur og meiri bassaleikur. Og Canned Heat hefðu notað munnhörpu.!

Diamonds Made From Rain – Samið af félaga hans í bandinu Doyle Bramhall II, ekki síðra lag.

Run Back To Your Side – Bramhall II & Clapton – er þetta ekki gamla góða Rollin And Tumblin frá Canned Heat? Cream blúsari.

Söngleikjastandardarnir:

Rocking Chair – söngleikjalag eftir Hoagy Carmichael sem Frank Sinatra og Louis Armstrong léku sér að.

How Deep Is The Ocean – Peggy Lee, Frank Sinatra, Ella Fitgerald, Billie Holiday, Diana Krall og Barry Manilow! Irving Berlin (1932)

My Very Good Friend The Milkman – Harold Spina og Johnny Burke (1930s) Fats Waller.

When Somebody Thinks You‘re Wonderful – Harry Woods samdi mikið af svona happy lögum á millistríðsárunum hann samdi t.d. Side By Side og Try A Little Tenderness.

Autumn Leaves – franskt lag samið 1945. Yves Motand Jo Stafford, Nat King Cole, Edith Piaff, Miles Davis og Roger Williams kom píanóútgáfu af laginu í 1.sæti í Ameríku.

Blúsinn:

River Runs Deep – flottur J.J. Cale bluesari með höfundinum, samt bara svona uppfylling. Var á Naturally.

Judgement Day  – Snooky Pryor lag frá 1956.

Can‘t Hold Out Much Longer – Walter Jacobs (Little Walter) annar munnhörpublúsari BL

That‘s No Way To get Along –  Robert Wilkins (1930s) Rolling Stones coveruðu lagið eftir að Wilkins breytti textanum og það hét The Prodigal Son og Zeppelin eru sagðir hafa tekið það að láni í Poor Tom.

Everything Will Be Alright – annað J J Cale lag af Really.

Hard Times Blues – Lane Hardin (St Louis) blúsari.

Kannski ekki eins mikil vonbrigði og Jeff Beck platan en mikil vonbrigði samt og ég kenni útgáfunni um það.

Þetta hefði getað verið betra ….  en þetta  er bara hafragrautur blandaður bleikum Royal búðingi. Hvorugt lostæti og hvað þá blandað saman!

5 stjörnur af 10 samt fyrir að gleðja mig inn á milli með nettu gítarspili og góðum söng.

P.s.

www.ericclapltom.com gefur plötuna út með aukalaginu “You Better Watch Yourself”.

Barnes & Nobles og Best Buy búðirnar í USA gefa plötuna út með aukalaginu “Take A Little Walk With Me”

iTunes gefur plötuna út með aukalaginu “I Was Fooled”

Amazon.com gefur plötuna út með aukalaginu “Midnight Hour Blues”

Sem sagt: til að safna öllu með Clapton þarftu að elta uppi 4 útgáfur allavega! Er þetta ekki dálítið 2007?

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

2 Responses to ERIC CLAPTON – CLAPTON (2010)

 1. finnbogi says:

  eins og Unni vinur minn þá á ég “allt” með Clapton en það er ekkert við þessa plötu sem kallar til mín og þess vegna verður þetta væntanlega fyrsta Clapton platan sem “vantar” í safnið …

 2. Gulli says:

  Æ Halldór minn hvers konar eiginlega plötudómur er þetta hjá þér.
  Þetta eilífa tal í gagnrýnendum að vera að bíða eftir meistaraverki frá hinum og þessum sem í raun og veru sendu frá sér sín meistaraverk fyrir 30 til 40 árum er bara vitlaus aðferðarfræði. Auðvitað gerði Clapton sín svokölluðu meistaraverk frá 1966 til 1974 en það þýðir ekki að hann hafi ekki gert góðar plötur síðan eins og þú raunar bendir réttilega á. En að ætlast til þess að hann komi með “meistaraverk” núna, kominn á sjötugs aldurinn er fráleitt.

  Sennilega eru fáir Íslendingar sem hafa safnað Clapton jafn samviskusamlega og ég hef gert í gegn um tíðina og þær plötur og diskar sem ég á og hann kemur við sögu á skipta einhverjum hundruðum. Ég tel mig því sæmilega dómbæran á hvað er gott og slæmt frá karlinum.
  Nýjasta plata Clapton er að mínum dómi góð og vel heppnuð plata. Það er rétt að hún er ekki meistaraverk. En þá spyr ég hvernig metur þú meistaraverk?
  Þú talar um söngleikjalög á frá millistríðárunum og þau fara greinilega eitthvað í taugarnar á þér. Það er hins vega að mínu viti ekki neitt söngleikjalag á þessum diski. Það eru vissulega lög eftir höfunda sem sömdu lög í söngleiki en það á ekki við um neitt þessara laga.
  Þessi upptalning á fyrrum flytjendum er marklaus þar sem þú útskýrir ekki hvort eða það með hvaða hætti þær útgáfur eru fremri því sem er hjá Clapton. Auk þess skil ég ekki hvað Canned Heat kemur því við að þeir Clapton og Bramall frá undirleikin úr Rollin & Tumblin lánaðan að einhverju marki. Í fyrsta lagi fluttu Cream (og þá Clapton) þetta lag á Fresh Cream sem kom út á undan fyrstu Canned Heat plötunni (en þar var Rollin´& Tumblin einnig að finna) auk þess sem við vitum að oft eru hljómagangar fengnir að láni en það er ekki þar með sagt að melódían sem sungin er ofan á sé stolin eða fengin að láni þó að fátt sé nú nýtt undir sólinni í þeim efnum.
  Ég get gæti svo sem týnt fleira til varðandi þennan dóm en ég læt að lokum nægja að benda á hvað ég er ósammála þér um þessa plötu að lagið “Diamonds Made From Rain” sem þér finnst greinilega með því betra sem þarna er að finna er að mínu mati slappasta lagið á plötunni. Og þá komum við kannski að kjarna málsins og að þú skulir telja “Wonderful Tonight”, “Tears In Heaven” og “Layla” til helstu meistarverka Claptons. Þú ert einfaldlega öðruvísi Clapton aðdáandi en ég. Þetta eru vissulega góð lög, en ég er aðdáandi gítarleikarans Eric Clapton en ekki endilega lagahöfundarins. Mér finnst líka aðdánarvert hvernig Hann hefur alltaf getað tekið gömul lög (mest megnis blússtandarda) og gert þau að sínum og það er hann að gera á þessari plötu.
  Og Finnbogi minn ég held að ef að þið Unnsteinn hafið verið að kaupa undanfarna Clapton diska sé ykkur óhætt að kaupa þennan. Hann er fínn. Góð lög, flott spilamennska og virðing gagnvart efninu sem er til umfjöllunar.
  Að lokum þetta (djöfuls langloka er þetta að verða). Ef einhver les þetta þá erum við Halldór Ingi ágætis vinir en okkur greinir oft á um tónlist og það er bara af hinu góða. Sorry Dóri minn þetta er bara mín skoðun á þessu máli og stundum …..

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *