VALDIMAR – UNDRALAND (2010)

Það er alltaf gaman að gleðjast.

Þó að tónlistarflóran sé mikil og ótrúlega góð á Íslandi á maður samt ekki von á að heyra nýja góða plötu með hljómsveit og tónlistarmönnum sem maður hefur aldrei heyrt af eða í, áður.

Valdimar er 5 manna (nú 6 manna) band sem gaf út sína fyrstu plötu fyrir skömmu án nokkurs fjaðrafoks.

Plötunni var laumað að mér, ekki frá útgáfunni, heldur skyldmenni sem ég þekki, sem getur verið vandræðalegt.

Ég hlustaði á plötuna með ákveðnum fordómum og oftar en ekki í bílnum að keppa við tímann.

En allt í einu fór ég að heyra eitthvað sérstakt. Svo fannst mér sérstakur söngurinn minna mig á eitthvað. Var það Pálmi Gunnars? Loksins fattaði ég að það var Greg Lake í fyrstu útgáfunni af King Crimson og nú líka Sting.

Og þá heyrði ég margt meiralíkt með þeim.

Textagerðin truflaði mig fyrst. Mér fannst línurnar ekki passa við lengd laglína. Og þá mundi ég eftir Sting og hvernig hann vinnur texta sína.

Þessir strákar hafa greinilega hlusta vel og á músík og líklega eitthvað lærðir líka.

Lagasmíðarnar eru allar góðar og hafa þann eiginleika að vinna á.

Fyrstu tónarnir í Brotlentur er dálítið jazzaðir: hertrommuslagur og gamaldags orgelleikur sem minnir á fyrstu jólaplötuna hans Hauks Morthens og síðan flókið gítarplokk, bassinn þéttur og vel saminn, mikið af blásurum, en Valdimarinn sjálfur er aðalsöngvarinn, lagasmiðurinn og … básúnuleikarinn!

Og básúnuleikarar þekkja alltaf trompetleikara og saxófónleikara.

Hverjum degi nægir sín þjáning hefur fengið nokkra spilun og minnir grimmt á mína ástkæru King Crimson, sem notuð mikið blásara, sérstaklega á meistaraverkinu Lizard, sem ég væri hissa ef þeir hafa ekki heyrt.

Tititlagið er á leiðinni í fyrsta sæti Rásar 2 listans ef það eru einhver viðmið. Skemmtilegt stemmningslag, vel sungið  og venst vel.

Næturrölt er flott lag sem minnir á Magga Eiríks, textinn beint úr bakgarðinum. “Þú” er flott Police lag með blásurum og söngurinn gefur því sjarma.

Helgi Björns svífur yfir vötnunum í laginu “Yfirgefinn” og lagið “Lítið og væmið” er lífið og væmið gullfallegt og hjartnæmt.

Og lokalagið “Ferðalag” er ekta lokalag, rólegt í anda Gunnars Þórðarsonar, dýrt kveðið í anda skáldanna.

Ferðalag Valdimars er að hefjast með þessari plötu. Þetta er hljómsveit sem við eigum vonandi eftir að heyra mikið í á næstu árum.

Textarnir eru vel samdir og góðir, lögin öll í toppklassa og bandið fullskapað, hljóðfæraleikur góður og söngurinn í toppklassa.

Líklega uppgötvun ársins.

9 stjörnur af 10

P.s. en umslagið er ljótt!

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *