SPILVERK ÞJÓÐANNA – ALLT SAFNIÐ (2010)

Þrátt fyrir stuttan líftíma Spilverks þjóðanna hafa áhrif þeirra og líftími tónlistarinnar lifað til dagsins í dag og gera eflaust um ókomna tíð.

Fyrsta Spilverksplatan kom út fyrir jólin 1975 og sú síðasta fjórum árum síðar.  En við erum samt að tala um sex góðar plötur sem ég tel að séu með mestu listaverkum þjóðarinnar.

„Allt safnið“ samanstendur af þessum sex plötum „Spilverk þjóðanna“, „CD (Nærlífi)“, „Götuskór“, „Sturla“, „Ísland“ og „Bráðabirgðabúgí“ auk „Pobeda“ sem er nýtt safn forvitnilegs efnis sem er úr sjónvarpsþáttum, af safnplötu, úr leikritum og af hljómleikum.

Og auk þess er 100 síðna bók með öllum textunum, mikið af períódu myndum og blaðaúrklippum.

Tími Spilverks þjóðanna

Spilverk þjóðanna byrjaði ferill sinn árið 1975, sama ár og ég byrjaði að skrifa um tónlist. Hljómleikar þeirra voru strax vel sóttir, við poppskríbentarnir féllum flestir fyrir ferskum hljóm þeirra, góðum lögum þeirra, húmor og sérviskunni. Þau komu beint úr menntaskóla kúltúrnum. Egil Ólafsson hafði ég séð á hljómleikum sóló í MH, allavega 1974, ef ekki fyrr, og hreifst af. Mig minnir að ég hafi séð Valgeir Guðjónsson þar líka, og Sigurður Bjóla var líka úr MH. En Diddú var í MR, en hafði ekki mikið troðið þar upp en eitthvað þó.  Í byrjun voru þeir bara þrír strákarnir og ég sá þá nokkrum sinnum, eflaust flesta konserta þeirra og er minnistæður konsert í Norræna húsinu og Laugarásbíói um vorið, sem ég reyndar minnist á í blaðagrein sem er sú fyrsta í bæklingnum, sem um skrýtinn konsert á Kjarvalsstöðum sem var fyrsti konsertinn með Diddú.

Lagalistinn var þá orðinn fjölbreyttur, enda strákarnir allir góðir og afkastamiklir lagasmiðir á þessum árum. Ekki komu öll lögin út, en þó eru þau líklega flest hér, þó ég hefði viljað heyra „All Hands On Deck“ með þeim, en Jakob Magnússon gaf það reyndar út á sínum tíma og gerði bara vel.

Fyrsta platan var tímamótaplata í íslenskri útgáfu, ég held frumraun Steinars Berg í plötuútgáfu og nýr ferskur blær í íslensku tónlistarflóruna.  „Nærlífi“  kom út vorið eftir aftur með enskum textum en dálítið harðsoðin og náði ekki sama flugi og fyrri platan. „Götuskór“ komu út rétt fyrir jólin 1976, allt íslenskir textar og með gegnum gangandi þema. „Sturla“ kom næsta sumar og fékk frábærar undirtektir í kreppunni sem var þá, með gagnrýnum hæðnislegum textum um „Sirkus Geira smart“ (ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar með Ólafi Jóhannessyni var þá við völd).  Eftir „Sturluna“  hætti Egill og hin þrjú gerðu næstu tvær plötur „Ísland“ og „Bráðabirgðabúgí“.

Mig minnir að sala Spilverksplatnanna hafi aldrei jafnast á við umfjöllunina og það sem við héldum á þeim tíma, en þegar upp er staðið er líklegt að sala platnanna hafi verið góð og stöðug ætíð síðan.

Arflegð þeirra er ótrúleg, jafnvel þó að við séum ekki að miða við hinn stutta feril.

Egill er í dag einn ástsælasti og besti söngvari landsins. Hann hefur komið víða við, með Stuðmönnum, með Hinum íslenzka þursaflokki, sóló og hin og þessi verkefni, auk þess að stíga á svið af og til og sína leikræna tilburði sína.

Valgeir hefur verið viðloðandi músíkina að mestu líka, með Stuðmönnum, samið fyrir leikrit, kvikmyndir, gert sólóplötur með meiru.

Diddú lærði klassískan söng, þó að mér fyndist hún kunna allt í söng og betur en klassískar söngkonur! Hún hefur gefið út plötur ein og sér og tekið þátt í hinum og þessum verkefnum, og mest í klassískum stíl, þó að hún syngi með gömlum poppvinum af og til.

Sigurður Bjóla, hins vegar, hætti fljótlega. Hann var með Stuðmönnum í byrjun, síðan Jolla og Kóla, með Valgeiri, var upptökustjóri á mörgum plötum og hefur unnið við hljóðstjórn.

„Spilverk þjóðanna“

Lög Spilverksins voru slípuð á hljómleikum áður en fyrsta platan kom út. Þeir fóru lengra með sum laganna og bættu við aukahljóðfærum og bakröddum, þar á meðal Diddú. Sum laganna eru, eða ættu að vera klassísk. „Lazy Daisy“ sungið af Bjólunni með hjálp Diddúar, en þetta einstaka popplag er fullt af sumri, gleði og næmni.  „Icelandic Cowboy“ , einfaldur þjóðlagahúmor frá Valla, var eitt það léttasta sem Spilverkið spilaði á þessum tíma.

„Plant No Trees“ var alltaf stórt númer á hljómleikadagskránni, flott sveifla, smá jazz og mjög eðlilegt lag frá Agli miðað við margt sem hann gerði síðar.  „Muse“ og „Sixpence Only“ voru líka máttarstólpar í lagasafni Spilverksins.

„CD (Nærlífi)“

Önnur platan var meira í þeim einfalda, einlæga stíl sem þau túlkuðu á sviði, og höfðu verið gagnrýnd fyrir á fyrstu plötunni. Og auðvitað voru þau gagnrýnd fyrir að þróast ekki, lögin væru ekki nógu sterk í samanburði við „Lazy Daisy“ og „Icelandic Cowboy“! Ég held meira að segja að dómurinn í bókinni sé eftir mig!

Diddú á stærri hlut á plötunni, en sum laganna voru búin að vera á prógramminu mest allt árið á undan.  „Miss You“, „Old Rugged Road“, „Blue“, „Brandy“ , „Melody Lane“ og „Summer‘s Almost Gone“ með flottum bakröddum, eru með bestu lögum þeirra.

Þessi plata er í anda bestu platna Donovans, sem eru ekki slæm meðmæli.

„Götuskór“

Hér kom straumhvörf þegar Spilverkið gerðist íslenskt. Og ekki bara það, heldur er þetta þemaplata, með söguþræði, persónum og leikendum.  Tónlistin verður myndræn, en það átti eftir að fylgja þeim héreftir. Þekktustu lög plötunnar eru eflaust „Styttur bæjarins“ og „Veðurglöggur“, sem eiga að vera flestum kunn, en lög Bjólunnar „Í Skóm af Wennerbóm“ og „Fyrstur á fætur“ vekja upp væntingar um samsöng Bjólunnar og Díddúar á væntalegri nýrri plötu Spilverksins, sem er í smíðum.

„Sturla“

„Sturla“ er Meistaraverk Spilverksins með stóru Mi. Mikið af alls kyns tónlistaráhrifum og sjáfstraustið og jafnvægið náði hærri hæðum.  Þeir ætluðu að kreista kýlin eins og þeir sögðu í „frægu“ viðtali sem ég tók við þau á æfingu fyrir plötuna. Við ræddum líka áhrifavaldana, stöðu þjóðfélagsins og margt fleiri þarna í Þingholtinu.  Platan hefst á „Sirkus Geira smart“, einni bestu ádeilu á íslensku, og svo eru þarna lög eins og „Arinbjarnarson“, „Skýin“, „Húsin mjakast upp“, „Nei sko“ og „Hæ hó“. Og svo má ekki gleyma „Ferðabar“ og „Kom hjem til mig“, já og öll hin, þetta var þeirra „Sgt Peppers“.

„Ísland“

Kannski ekki verið að kreista jafn mörg kýlin, en samt eru viðfangsefnin fréttir og málefni tímans. „Græna bylting“ hefur lifað best af þessari plötu. En einhvern veginn var krafturinn að þverra miðað við „Sturlu“.

„Bráðabirgðabúgí“

Þetta var síðasta platan þeirra, gerð í sumarfríinu 1979. Valgeir var kominn til Noregs í nám (eða allavega konan hans).  Rauði þráðurinn var fjölskylda af Vestfjörðum sem flutti af mölinna á malbikið.  Einn og einn diskótón má heyra og þungan bassa sem var kannski ekki alveg Spilverkið.  Það er ekki mikið sem hefur lifað af þessari plötu, einna helst „Ég býð þér upp í dans“ sem Raggi Bjarna syngur með Diddú.

„Pobeda“

Mjög skemmtilegt safn af áheyrilegu og forvitnilegu „afgangsefni“. Sér í lagi er gaman af lögunum úr áramótaskaupi sjónvarpsins 1975, t.d. útgáfu Spilverksins á“Tívolí“ sem þeir gerðu með Stuðmönnum á samnefndri plötu. Og auðvitað eru lögin af safnplötunni „Hrif 2“ kærkomin, en þau komu út á undan fyrstu plötunni, ef ég man rétt.

„Allt safnið“

Þessi viðhafnarútgáfa er ein sú flottasta og besta sem hefur verið gefin út á Íslandi til þessa. Einföld pakkningin er smekkleg og passar í hillu með CD diskum, ekki bókum, eins of vill verða. Plöturnar hafa verið hljóðbættar af Sigurði Bjólu og umslögin koma í smækkaðri mynd af upphaflegu plötunum. Og aukaplatan er gersemi.

Bókin og blaðaskrifin

100 síðna bókin er vel í látin og aðalatriðið eru textarnir. Poppskrifin mín og Gunna Gunn, Ásgeirs Tomm og hinna eru allavega skemmtileg fyrir mig.

Það var líka gaman að sjá heilræði Kalla Sighvats á bakhlið bókarinnar, sem mér kæmi ekki á óvart að væri svar við viðtalinu (Kreistum kýlin) í Vísi í aðdraganda „Sturlu“. Ég ýtti reyndar undir hrokann þeirra og var ekkert að ritskoða þau enda gaman að vera blaðamaður og tala við fólk í fyrirsagnastuði. En ég komst strax að því morguninn sem blaðið kom út að það þarf stundum að ritskoða og ekki birta allt sem er sagt J.

Niðurlag

„Allt safnið“ er eitt besta safn sem gefið hefur verið út á Íslandi.  Ef þú ætlar að gefa góða veglega íslenska músík í jólagjöf, þá er hún hér.

Langbesta safnútgáfa ársins og líka langbesta íslenska útgáfan á árinu.

10/10

P.s. það er ekki ólíklegt að ég þurfi að lagfæra staðhæfingar þar sem þetta er skrifað eftir lélegu minni sem eru 30-35 ára gamlar

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

4 Responses to SPILVERK ÞJÓÐANNA – ALLT SAFNIÐ (2010)

 1. Finnbogi says:

  ok – þetta er flottur pakki en bókin … hefði getað verið miklu betri. Ég fagna því að þarna séu margar myndir og blaðaútklippur og textar en það vatnar sárlega tvennt. Það vantar texta um hverja plötu og það vantar “söguna”. Það er kominn tími á að poppsagan sé skrifuð og þá sérstaklega á meðan hægt er að ræða við þáttakendur og þeir muna enn. Svo má það bara ekki gerast að poppsagan sé skrifuð af Gunna – svo ágætur sem hann er. Sá sem er tvítugur og ættlar að kynna sér bandið fær ekki nema hluta af því sem í boði er – kannski þann hluta sem skiftir máli en hann fær ekki að vita að textar kreystu kíli …

  • Halldór Ingi Andrésson says:

   Sæll Steinar minn. Ætti að hafa treyst mínu minni betur en annars kunningja sem vildi minna mig á þetta í samræðum í sumar. Hins vegar á ég ekki (enn) og hef ekki lesið bókina þó að ég hefði treyst þeim sem hana skrifuðu vel.Leiðrétt hér. (það er hægt í netdómum :))
   Sæll Finnbogi
   Þú meinar Dr. Gunni? (Því Gunni Gunn á flestar MERKTAR úrklippur í bókinni) Jens Kr hefur líka skrifað poppsöguna og Jonni Garðars á flestar umfjallanir í útfgáfum Senu, enda allt vel ritfærir menn. En, ok, ég er sammála þér að sögu platnanna, og þar af leiðandi ferill hefði mátt festa á blað. Það hefði reyndar þýtt 100 bls í viðbót en hvað með það.
   Sæll Björn
   Kannski hefur það áhrif á skoðun mína á Bráðabirgðabúgí, að ég var búinn að fylgjast með þeim þróast og styrkjast, en hins vegar fannst og finnst mér þessi plata ekki standast samanburð við aðrar plötur þeirra enn, fannst vanta styrkinn og trúna, eða eitthvað var að trufla þau? Hins vegar hefur CD Nærlífi heldur betur komið úr skammarkróknum ef svo má að orði komast.

 2. Steinar Berg says:

  Sæll Dóri minn. Ég sé að þú endurtekur staðreyndarvillu úr 100 bestu plötubókinni sem kom út í fyrra. Ég gaf út tvær plötur á eigin vegum áður en Steinar hf. fór af stað. Sumar á Sýrlandi og Spilverk þjóðanna. Óli Þórðar var einn af hluthöfum og samstarfsmönnum í Steinum hf. til að byrja með en ekki hvað þessar tvær plötur Stuðmanna og Spilverksins varðar.

 3. Sammála Finnboga og auk þess finnst mér Bráðabirðabúgi stórgóð plata.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *