100 ÍSLENSK 70’S LÖG (2009)

003Áttundi áratugurinn = Ok – 1970 byrjaði ég í MR og 1975 byrjaði ég að skrifa um tónlist í Þjóðviljanum, 1976 á Vísi, 1977 á Vikunni líka, 1978 á Mogganum, þannig að ég ætti að þekkja þennan áratug ansi vel músíklega.

Mér fannst nú ekki mikið af frambærilegri íslenskri tónlist á Menntaskólaárunum, þó þar væri undantekning á.

Trúbrot komu með sínar fjórar plötur 1970, 1971, 1972 en eitt lag er af fyrstu plötunni, eitt af „Lifun“ og eitt af „Mandala“ í þessum pakka, síðan kom fyrsta plata Megasar og „Langspil“ Jóhanns G Jóhannssonar sem allar eru, auk Trúbrotsplatnanna, á meðal bestu platna allra tíma á Íslandi. Jú og „Hljómar 1974“ sem var beint framhald af „Mandala“ plötunni.

1975 byrjar nýtt tímabil í íslenskri poppsögu með tilkomu Hljóðrita sem var alvöru upptökustúdíó í Hafnarfirði og skömmu síðar var sett upp plötupressun á sama stað.

Nú hófst mikil gróska í útgáfu mest vegna gífurlegs krafsts í Steinari Berg sem stofnaði bæði plötuútgáfu og plötuverslanir á þessum tíma. Spilverk Þjóðanna, Stuðmenn, Mannakorn, Hinn Íslenski Þursaflokkur og fjöldinn allur af „projectum“ Ðe Lónlí Blú Bojs, HLH Flokkurinn, Þú og ég, Hrekkjusvín og Lummurnar svo eitthvap sé nefnt.

Margar góðar plötur komu í kjölfarið t.d. frá Villa Vill (Með sínu nefi), Þokkabót, Megasi og Bjögga auk Spilverks, Stuðmanna og Þursa svo einhverjir séu nefndir.

En þessar 5 plötur og 100 lög eru þó ekki í þessu sögulega samhengi.

Hér er líklega byggt á vinsældum laga í Ríkisútvarpinu (eina útvarpið auk kanans til 1983). Þar af leiðandi er sagan dálítið öðruvísi en ég upplifði hana því hér eru lög með Ellý Vilhjálms, BG og Ingibjörgu, Flosa Ólafs og Pops, Ragga Bjarna, Villa Vill, Mjöll Hólm , Steina Spil, Ingimar Eydal, Logum, Change, Pelican, Þokkabót, Haukum Rúnna Júl, Magga Þór, Halla og Ladda, Dúmbó og Steina, Bjögga, Brunaliðinu og Ljósunum í Bænum, sem voru kannski ekki á þessum frábæru og sögulegu plötum.

Þessi pakki er ekki mín upplifun á áttunda áratugnum, miklu fremur þeirra sem létu útvarpið duga í sinni tónlistarupplifun.

Við þekkjum öll þessi lög sem eru í bland hugljúf, skemmtileg, brosleg, vandræðaleg og frábær.

En mikið skelfing er umslagið hallærislegt! Minnir á ódýrar ólöglegar Hollenskar og Pólskar götumarkaðsútgáfur! (Kannski var það meiningin!)

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews and tagged . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *