ÞRJÚ Á PALLI – LJÓÐ JÓNASAR ÁRNASONAR VIÐ ERLEND ÞJÓÐLÖG (1971/2011)

Ljóð Jónasar var þriðja plata þjóðlagatríósins og fyrsta platan með Halldóri Kristinssyni.  Á undan komu plöturnar Eitt sumar á landinu bláa og Við höldum til hafs á ný, báðar feykivinsælar plötur, í anda Savanna Tríósins.

Vinsældir þeirra minnkuðu ekki við þessa plötu enda fullt af góðum lögum sungnum í þjóðlegum stíl og anda Kingston Trío og Dubliners svo eitthvað sé nefnt. Og mig minnir að Kingston Trio hafi verið í miklum metum hjá Troels Bentsen og Jónas var hrifinn af írskum lögum.

Ekki eru öll lögin þjóðlög á þessari plötu þó það komi fram í titlinum og því miður ekkert greint heitum upphaflegu laganna né uppruna. Ég þekkti nú ekki nema 2 lagana með erlendum nöfnum það eru lögin Ghost Riders In The Sky sem allir ættu að þekkja með förum Frankie Laine, eða Bing Crosby eða Burl Ives, Johnny Cash, Elvis Presley eða Shadows. Hér heitir lagið Hin svarta Satans hjörð. Og er hreint bara fín útgáfa og textinn ágætur. Já og lagið var samið af Stan Jones 1948.

Hitt lagið sem ég kveikti á er Wild Mountain Thyme samið af íranum William McPeake 1957 og hefur líka gengið undir heitunum Purple Heather og Will You Go Lassie Go, en það á bæði erindi og laglínur úr gömlum þjóðlögum.

Meðal þekktra söngvara sem hafa sungið þetta lag eru Judy Collins (1961), Joan Baez (1965), Byrds (1966), Marianne Faithfull (1966) Strawbs, Rod Stewart, Van Morrison, Glenn Frey, Mark Knopfler, Chieftains og sjálfur Bob Dylan, en lagið var á bootleggum strax 1970.

Hér heitir lagið Efemía og eins og mörg önnur lög hér vel flutt og gert.

Vinsælustu lögin á plötunni voru þó Lífið er lotterí og Dirrindí sem ég held að lifi góðu lífi með þjóðinni.

Í heildina var þetta góð plata frá vönduðu og skemmtilegu tríói. Textar Jónasar eru auðvitað sér á báti í íslenskri textasmíð og með því besta.

Flott að sjá þessa útgáfu, en ég hefði viljað fá meiri upplýsingar um lögin.

8 af 10

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

One Response to ÞRJÚ Á PALLI – LJÓÐ JÓNASAR ÁRNASONAR VIÐ ERLEND ÞJÓÐLÖG (1971/2011)

  1. Kristján Frímann says:

    Alls komu sjö plötur út með “Þrjú á palli” og allar hjá SG hljómplötum. Segir það sitt um þetta góða tríó sem var upphaflega búið til fyrir leiksýninguna “Þið munið hann Jörund” sem sýnt var í Iðnó. Þar voru þau límið sem hélt sýningunni saman með “leik” sínum og söng. “Besta” plata þeirra er án efa “Hátíð fer að höndum ein” sem kom út fyrir jólin 1971. Þrjú á palli má skoða betur á síðu SG hljómplötuútgáfunnar á Wikipedia:
    http://is.wikipedia.org/wiki/SG_-_hlj%C3%B3mpl%C3%B6tur

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *