RADIOHEAD – THE KING OF LIMBS (2011)

RADIOHEAD er örugglega ein af vinsælustu hljómsveitum síðustu ára.

Radiohead er þó 26 ára gamalt band, stofnað 1985, á meðan þeir voru í Public skóla, undir nafninu On A Friday vegna þess að þá æfðu þeir bandið. Fyrsta og ennþá besta lagið þeirra,  „Creep“,  kom út 1992, eftir að allir nema Jonny Greenwood höfðu lokið háskólanámi, en það varð ekki vinsælt fyrr en ári síðar.

Fyrsta platan „Pablo Honey“ sló kannski ekki beint í gegn en vinsældir og sala jukust á henni og hefur hún selst jafnt og þétt síðan og er talin ein besta plata þeirra.

Vinsældir þeirra í heimalandinu, Englandi, jukust heldur betur með annarri plötunni, „The Bends“, sem seldist líka mjög vel hérlendis. Á henni er eitt vinsælasta lag þeirra „My Iron Lung“ og mörg önnur góð.

Næst kom „OK Computer“, fyrsta 1.sætis platan þeirra í Bretland, kom út 1997. Á henni eru lögin „Paranoid Android“ og „Karma Police“, tvö af vinsælustu lögum þeirra. Margir telja þetta bestu plötu þeirra.

„The Kid A“ kom út 2000 og fór á toppinn víða líklega út á vinsældir og orðspor „OK Computer“, m.a. bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. En þeir gáfu engar smáskífur út af henni, samt fóru lögin „Idioteque“ og „Optimistic“ á amerísku háskólalistana.

„Amnesiac“ kom út 2001 og eins og á Kid A er einhver gerjun í gang, Krautrock, electronic og jafnvel jazz áhrif farin að ráða ferðinni.  Og vinsældir og sala byrjuð að dvína.

Næsta plata „Hail To the Thief“  kom út 2003. Thom Yorke hefur sagt að platan hefði getað verið betri þeir hafi unnið hana of hratt til að eyða meiri tíma með fjölskyldum sínum.  En það hafi verið hluti af tilraun, og að hver einasta plata þeirra sé í raun nýtt tilraunaverkefni.  OK! Það er meiri gítar aftur, píanó, en líka tölvutaktar og „samples“, og sumir eru skráðir spila á laptop!

7unda platan var „In Rainbows“ og kom út á því dýrðlega ári 2007.  Platan var fyrst gefin út á niðurhali og mátti fólk borga það sem það vildi fyrir.  Nú var elektróníkin komin aftur, strengja útsetningar og píanó og celeste meira að segja.  Plötunni var vel tekið, nokkurs konar come back. Hættir hjá EMI eftir að hafa selt yfir 25 milljónir platna, sjálfstæðir og með tökin á listrænu hliðinni líka!

„The King Of Limbs“ mætti kalla „Ummagumma“ Radiohead. Linnulausar tilraunir.

Ég hlustaði á þessa plötu linnulaust í bílnum í tæpa viku og bókstaflega þoldi hana ekki. Alls ekki bílaplata. En kvöldið fyrir útsendingu í Popplandi settist ég niður við tölvuna að skrifa, hækkaði í músíkinni  og vita menn, skipti um skoðun!

Tré og greinar eru stór hluti í enskum þjóðsögum og hugmyndin af „The King Of Limbs“ er sprottin þaðan. Platan var fyrst gefin út á netinu með átta lögum, en síðan kynntu þeir dagblaðaútgáfu af plötunni  sem er hægt að panta á síðunni www.thekingoflimbs.com.  Þar verða tvær 10 tommu plötur á glærum vinyl og furðulegt umslag með fullt að bæklingum sem detta út úr blaðin um leið og þú tekur það upp, auk CD útgáfu, 625 lítil listaverk, í plast umbúðum og niðurhalslykill fylgir.  Og seinna kemur hún síðan í búðir.

Þetta er dálítið skrýtin plata, en eins og oft áður er andi John Lennons yfir öllu sérstaklega píanósándið.

„Lotus Flower“, „Codex“, „Morning Mr Magpie“, „Little By Little“ og „Give Up The Ghost“ eru allt flott lög.

Platan er stutt en mér skilst að það komi út fjögur lög í viðbót á síðari útgáfum, og þá er þetta ekki lengur 37 mín plata.

Lagið „Feral“ er lélegt og mætti missa sig. Dálítið mikð eins og Beatbox músík, dálítið mikið eins og tekin upp í fiskabúri eða bergmálsherbergi, en ég er hættur að pirra mig á því og allt í einu mjög hrifinn.

7 stjörnur

 

This entry was posted in Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *