JÚNÍUS MEYVANT – FLOATING HARMONIES (Record Records) 9 stjörnur

scan0017Floating Harmonies er fyrsta breiðskífa Júníusar Meyvants, sem er listamannsnafn Unnars Gísla Sigurmundssonar. Músíkin minnir mig á Bon Iver, Edward Sharpe, Hjaltalín, Moses Hightower, Of Monsters And Men og Burt Bucharach, allt góðum að líkjast. Það gerir hann hann sjálfan og sérstakan.

Júníus Meyvant er þegar þekktur af mikilli spilun á Rás 2. Lögin Color Decay, Gold Laces og Hailslide hafa öll náð vinsældum, góðar melódíur, góður söngvari og góðar útsetningar.

Color Decay var útnefnt lag ársins 2014 á íslensku tónlistarverðlaununum og Júníus bjartasa vonin.  Þá hefur hann verið að spila eitthvað erlendis, enda kom platan út í Evrópu í byrjun ágúst.

Platan er uppfull af góðum melódíum. Hún byrjar á lagi án söngs, Be A Man. Það minnir óneitanlega á útsetningar Burt Bacharch, en í uppfærðum búningi þó, með strengjum og blæstri. Beat Silent Need með blæstri, funkbassa og gítar minnir á Moses Hightower, Bryan Ferry og Steely Dan, ekki leiðum að líkjast.

Color Decay minnir mig á Elvis Presley lögin frá sjöunda og áttunda áratugnum, en þó ekki á Elvis. Domestic Grace Man minnir á Bon Iver og söngvaskáldin bandarísku frá áttunda áratugnum, með kassagítar og bassagítar. Hailslide er yndislegt mjúkt silki funk í anda Steely Dan. Mighty Backbone er melódískt popp með flottu gítarglamri.

Gold Laces byrjar með kassagítar og söng, sem færist í strengi og gospel bakraddir. Signals er sérlega einfaldur texti 6 línur endurteknar með skemmtilega þunglamalegum takti, en annars eru textarnir flestir góðir og áhugaverðir.

Pear In Sandbox er dapurlegt, einfalt kassagítarlag, ekta gamaldags þjóðlaga músík og titillagið Floating Harmonies rekur lestina á þessari frábæru plötu með píanói í forgrunni í þetta sinn og söngurinn tónaður í anda söngvara sjötta áratugarins eða Bryan Ferry.

Floating Harmonies er heilsteypt plata, löng, rúmlega 52 mínútur, engu ofaukið, allt vel úthugsað, mjög gott umslag, þó fyrsta blaðsíða bæklingsins hefði átt að vera blaðsíða tvö og öfugt.

2016 er þegar orðið gott ár í Íslenskum plötum.

Lykillög:

Be A Man

Color Decay

Gold Laces

Neon Experience

Hailslide

hia

p.s. Umslagið er glæsilega unnið, mjúkar myndir og línur, textastærð og skýrleiki góður. Hefði mátt hafa sterka framhlið á bæklingnum.

Posted in Dómar, Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist | Leave a comment

ÝMSIR – FYRIR FERÐALAGIÐ (2016) 3CD

scan0006Mér finnst alltaf gaman af þessum einföldu íslensku safnplötum. Þó að við lifum í dag á tímum sem fólk notar símana, bluetooth, USB og svo framvegis til að hlusta á músík, þá hljóta flestir að kaupa plö0turnar og koma þeim í stafrænt form, það er bæði öruggara og meiri líkur á skárri hljóm.

60 vinsæl íslensk lög í gegnum tíðana er undirtitillinn. Ég er nokkuð viss um að flestir þekki allavega 50-55 laganna, sem eru allt lög sem við höfum lifað við undanfarin ár.

Hér má finna lög nær liðinna ára eins og Ég fer á Land Rover frá Mývatni á Kópasker með Helga Björns, Automobile með Kaleo, Gefðu allt sem þú átt með Jóni Jóns og Karnivalia með Memfismafíunni, sem er nýlegust.

Síðan er Haukur Morthens með Hæ Mambó og Elly Vilhjálms með Ég vil fara upp í sveit og Vegir liggja til allra átta, það elsta.

Hljómar, Stuðmenn, Ríó Tríó, Dátar, Logar ogf Dúmbó og Steini eru fulltrúar sjöunda ártugarins.

Þetta er plata í bílinn, bústaðinn, pallinn. Ekkert meistaraverk þó að lögin séu öll meistaraverk. Bara góð neysluplata 🙂

7 störnur

p.s. Umslagið er auðvitað gerilsneydd hugmyndasnauð, en allt í lagi með upplýsingarnar, þó þær séu endilega fræðanda. En hvað með það? Þú vilt eiga þessa músíksögu.

Posted in Dómar, Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist | Leave a comment

PLÖTUR ÁRSINS 2015 – ERLENDAR

scan0049Árið 2015 telst varla gott tónlistarár í útlandinu. Erlendir listar nefna fullt að plötum sem ég verð að segja að eru frekar miðlungs eins og Julia Holter, Blur, Tame Impala, Kendrick Lamar.  Mínar gömlu hetjur gera færri og færri plötur og eru að deyja út í þokkabót. Aðeins ein plata þetta árið er verðug inn á 1001 plötu- eilífðarlistann listann.  Neil Young, David Gilmour og Paul Weller standa undir sínum merkjum, en margir gerðu það ekki og ollu vonbrigðum eins og Bob Dylan, Fairport Convention og Graham Parker sem ég vænti meira af. (En eru samt inni á topp 20, enda vont tónlistarár.)

Waterboys hafa ekki verið á kaupalistanum mínum áður og eru hér í fyrsta sinn á topp 20, en það breytist kannski í endurskoðun listanna 🙂

Pretty Things hafa ekki mikið látið í sér heyra síðustu árin og Motorhead og Iron Maiden komu með frábærar þungarokksplötur á árinu sem hafa ekki mikið verið upp á pallborðið hjá mér síðustu árin.

Sama má segja um Squeeze, þeir hafa aldrei komist á topp 20 áður. Duran Duran og Keith Richards gerðu betri plötur en við var að búast. John Grant olli vonbrigðum, slakari lög og bara óspennandi, en samt nógu góður til að vera með. Brian Wilson gerði fína plötu sem enginn tók eftir. Richard Thompson gerði ok plötu, tími kominn að hann gangi aftur í Fairport Convention beggja vegna.

Plötur ársins
1. WATERBOYS Modern Blues
2. NEIL YOUNG The Monsanto Years
3. PAUL WELLER Saturn Patterns
4. DAVID GILMOUR Rattle That Lock
5. PRETTY THINGS The Pretty Things Are In Bed Now Of Course
6. SQUEEZE Cradle To The Grave
7. DURAN DURAN Paper Gods
8. IRON MAIDEN Book Of Souls
9. KEITH RICHARDS Crosseyed Heart
10. BRIAN WILSON No Pier Pressure
11. RICHARD THOMPSON Still                                                                                            12. JOHN GRANT Grey Tickles Black Pressure
13. MOTÖRHEAD Bad Magic
14. J D SOUTHER Tenderness
15. DON HENLEY Cass Country
16. JOHN MAYALL Find A Way To Care
17. FAIRPORT CONVENTION Myths And Heroes
18. BOB DYLAN Shadows In The Night
19. MARK KNOPFLER Tracker
20. GRAHAM PARKER & THE RUMOUR Mystery Glue

Posted in Dómar, Plötudómar / Record reviews, Plötufréttir, Tónlist | Leave a comment

MEMFISMAFÍAN & BRAGI VALDIMAR SKÚLASON – KARNEVALÍA (2015) CD 8 stjörnur

scan0281Bragi Valdimar Skúlason fylgir hér eftir tveimur bráðskemmtilegum fullorðins barnaplötum Gilli Gill og Diskóeyjunni.

Líklega eru fyrirmyndirnar að einhverju leyti Glámur og Skrámur í Sælgætislandi og Hrekkjusvínin, báðar frábærar fyrirmyndir.

Þegar ég var að ala upp dætur mínar var ég líka að skrifa um plötur og barnaplöturnar voru prófaðar á þeim. Sumar þóttu bara ekki góðar og oft þurfti að sleppa lögum sem fóru ekki jafn vel í þær litlar, eins og í fullorðnu börnin. En oftast var þeim tekið vel.

Memfismafían er góð hljómsveit sem virðist hafa diskó sándin á hreinu. Söngvararnir eru flestir góðir og flestir skila sínu vel.

Sigríður Thorlacius (Hjaltalín) skilar sínu mjög vel, sérstaklega í titillaginu Karnevalíu sem opnar plötuna í miklu diskói og fjöri. Það er tími enn er gullfallegt lag með frábærum boðskap og Sigríður syngur þetta angurværa lag vel. Hún syngur líka lagið Orustan um rúmið sem er þekkt vandamál úr flest öllum fjölskyldum. Hún syngur lagið með Möggu Stínu (Risaeðlunni), þar sem þær leika litla krakka. Fjörlegt barnalag.

Magga Stína syngur líka lagið Ég er búinn, sem er, já, um barnalega klósettferð, og minningar um uppeldið þegar þurfti að hjálpa til á þeim vettvangi. Leikrænt sungið með aðstoð Egils Ólafssonar.

Egill syngur flott lag einn og óstuddur, Afi súkkulaði, sem minnir á framlag hans á Hrekkjusvínaplötunni, og skilar því af snilld.

Páll Óskar sló í gegn á Diskóeyjunni (ekki í fyrsta sinn). Páll Óskar syngur Húba Húba sem er eins og samið fyrir hann, og nýtur sín vel. Líkara Disney lagi en diskó lagi en Páll Óskar klárar það vel.

Prófessorinn var líka áberandi á Diskóeyjunni og syngur hér lagið S T A F R Ó F með Ágústu Evu (Sylvía Nótt). Prófessorinn Óttar Proppe syngur þetta 70s stíls lag með diskóáhrifum, á leikrænan hátt. En er dulinn meining í lokastöfunum r ú v … j?

Mamma fékk æfón er sungið af Sigtrygg Baldurssyni í Bogómil Font stellingum, lagið hljómar eins og spænskt sumarlag frá byrjun seinni hluta síðustu aldar.

Sigurður Guðmundsson syngur síðan þrjú lög. Hið gullfallega lokalag Í sjálfu sér, samið í anda þjóðskálda fyrri alda. Vögguljóð af bestu gerð. Svoddan svín er grimm ádæla “veröldin vill fá sitt svínarí. Við skulum aldrei gleyma því.” er sungið sem fallegt ljúft lag. Sigurður syngur líka Mannanafnanefnd með Jón Gnarr. Smá Orðbragðs viðbót.

Karnevalía er vel heppnuð plata, góð lög, vel spilað og sungið og vel frá gengið.

8 stjörnur af 10.

hia

p.s. umslagið er reglulega gott. Í barnabókarumbúðum, harðkiljan með smá aukatexta með hverjum texta. Einfaldar litríkar og góðar teikningar príða bókina.

 

 

Posted in Dómar, Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist | Leave a comment

BAGGALÚTUR – JÓLALAND (2015) CD 8 stjörnur

scan0278scan0275

Posted in Dómar, Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist | Leave a comment

RÚNAR ÞÓRISSON – ÓLUNDARDÝR (2015) CD 9 stjörnur

scan0289Það hefur varla farið fram hjá íslenskum tónlistaráhugamönnum að Rúnar Þórisson gaf út eitt lag á mánuði frá janúar til nóvember, 11 lög sem hann gaf þá út á  breiðskífunni Ólundardýr, sem var líka heitið á janúarlaginu.

Ég veit ekki hvort hann var tilbúinn með lögin í janúar, nema hvað hann segir að lögin hafi verið tekin upp í janúar til september, en þau hafa samhljóm og minna um margt á tónlist David Gilmour, yfirvegað, vel samið, vel upptekið og umfram allt, vel spilað. Söngurinn er meira hluti að heildarhljómnum.

Þó að Rúnar syngi allar aðalraddir sjálfur, þá er röddin ekki framarlega í hljóðblönduninni, sem mætti þó alveg vera.

Rúnar hefur lengi verið einn besti gítarleikari landsins og ekki eru aðrir hljóðfæraleikarar af verra taginu. Eins og á Sérhverri vá sem kom út 2013 eru Guðni Finnsson og Arnar Þór Gíslason á bassa og trommum, eitt besta taktpar landsins. Dæturnar Lára og Margrét syngja með Rúnari, en þær áttu báðar plötur á árinu og að auki Birkir Rafn Gíslason á ýmsa gítar og hljómborð.

Rúnar á rætur sínar í ýmissi músík, hefðbundnu rokki, progressive rokki, sem hefur oft verið áberandi í tónlist hans og svo má ekki gleyma því að Rúnar er líka tónlistarkennari og lifir því og hrærist í tónlist.

Það þekkja flestir sögu Rúnars í tónlist þar sem Grafík rís kannski hæst, en hann var strax farinn að vekja athygli í Dögg sem spilaði stundum fönk tónlist. Hann var líka um tíma í Haukum, en það voru ekki ófáir snillingarnir sem stöldruðu við í þeirri hljómsveit. Ólundardýr er fjórða sólóplata Rúnars, ef ég kann að telja, og kemur í kjölfar Sérhverrar vá (2013), Falls (2010) og Ósögð orð og ekkert meir. (2005).

Fönk gítarinn fær að að njóta sín vel í Ólundardýr, Í 1000 ár daga og nætur og Rís upp, allt eftirminnileg og góð lög og á pari við það besta sem Grafík gerði. Í 1000 ár ætti að vera á vinsældalista Rásar 2 þegar þessi skrif birtast, sveimandi og seiðandi lagi.

Músíkin hans Rúnars mótast líka af hæfni hans sem gítarleikara og frábærra radda dætra hans sem eru yfir- og umlykjandi alla plötuna og gefa henni sérstöðu og ákveðna stemmningu.

Blandan af fönk gítar og Robert Fripp (King Crimson) gítar fraseringu er svo heillandi og ólík öðru í dag.

Stundum minnir hann mig líka á Gunnar Þórðarson og frábæru plöturnar tvær sem hétu báðar Gunnar Þórðarson. Stemmning sem búa til kvikmyndir í huganum, eins og Fljúgðu hærra.

Á vegi sínum undrandi er dreymandi ljúft country lag, eins og Rúnar segir sjálfur en lagið syngur hann með Margréti. ,,Á vegi sínum undrandi, um framtíðina spyrjandi, hvert liggi leið, hvert leiði spor.”

Platan er tileinkuð föður Rúnars, Þóris Sæmundssonar, sem er höfundur lokalagsins, Í síðasta sinni, með ljóði eftir Davíð Stefánsson.

Hér er söngur Rúnars mun framar og hljómar vel, en undirleikur er rafmagnsgítar auk fiðlu og selló. Flottur endir á góðri plötu.

hia

9 stjörnur af 10

ps Plötuumslagið er mjög smekklegt, svart hvítt að mestu, minimalist, og allir textar vel læsilegir þó myndin á framhliðinni geri ekki neitt fyrir mig og segi ekkert um innihaldið.

 

Posted in Dómar, Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist | Leave a comment

HELGI BJÖRNS – VERÖLDIN ER NÝ (Sena) CD 9 stjörnur

scan0276

 

 

 

 

 

 

scan0274

Posted in Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized | Leave a comment

ELDBERG – ÞAR ER HEIMUR HUGANS (Mylodon) CD 2015 9 stjörnur

scan0054

Posted in Dómar, Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized | Leave a comment

MAGNÚS EIRÍKSSON – TÍMINN LÍÐUR HRATT (Sena) 3CD 8 stjörnur

scan0055

Posted in Dómar, Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist, Uncategorized | Leave a comment

AGENT FRESCO – DESTRIER (Record Records) CD 2015 7 stjörnur

scan0051Mjög metnaðarfull önnur plata Agent Fresco er stútfull af hugmyndum og áhrifum úr ótrúlegustu áttum.
Stórar Queen raddanir, falsettórödd, sem daðrar við metalmúsík, stundum heldur maður að progg rokkið sé komið á fullu og svo má ekki gleyma nettum píanóæfingum.
En einhvern veginn rennur þetta allt saman í eitt með ágætum árangri. Tónlistin er sjaldan auðveld þegar jafn mörgum hugmyndum er blandað saman.
Kvartettinn á dyggan kaupendahóp bæði hér og ekki síður erlendis. Mun sala fyrstu dagana hafa verið ágæt.
Eitt lag fékk spilun á Rás 2, See Hell, sem skrýtin blanda af kröftugu lagi með mildum undirtónum. En ég er ekki viss um að kynningin hafa náð til margra innan um allt íslenska reggae-ið, revíumúsíkina og ættjarðarstoltið sem tröllríður öllu þessa dagana.
Það er reyndar undarlegt að það sé ekki sér þáttur í útvarpi með „skapandi“ íslenskri tónlist miðað við hve sú sena er sterk í dag. Þetta er kannski ekki sú tónlist sem „talin“ er útvarpsvæn.
Það skiptir mig máli hvernig plötur byrja, og því pirrar „sóník“ byrjunin á laginu Let Them See Us, þó lagið sé annars ágætt, falsettó, stórir taktar og óperuæfingar, músíkgos og sónar, það er svo sannarlega allt að gerast. Dark Water, alls kyns taktar og píanó, aftur óperurödd. Pyre er 3ja lagið, meira popp en ansi busy, en eins og áður milljón hugmyndir sem gætu hæglega dugað flestum í heila plötu. Titillagið Destrier er tiltölulega einfalt, en bara tiltölulega.
The Autumn Red er tiltölulega balancerað, tiltölulega rólegt og gott. Let Fall The Curtain, píanó og drungi, dramatíkt og vatnshljóð… umm ég veit ekki, en vert að kanna.
Í Angst má heyra Metal og óperuæfingar, mjög spes. Death Rattle er svaka drungalegt og mikið stemmings-„kvikmyndalag“ í rólegum og sveimandi stíl og lokalagið er síðan 7 mínútna epic, Mono No Aware, hvað sem það þýðir. Minnti mig fyrst einhverra vegna á Europe, The Final Countdown 
Þegar ég var ungur maður heillaðist ég að svona tónlist og hélt „hljómleika“ á Íþöku, safnahúsi Menntaskólans í Reykjavík undir verndarvæng Plötuklúbbs MR sem ég var formaður fyrir þá og við fylltum húsið af áhugasömum músíknördum viku eftir viku. Kannski er kominn tími á að endurreisa Plötuklúbbinn?
Þessi músík þarf slíkt athvarf, hvað sem okkur finnst um hverja plötu þá getur hún öðlast líf í slíku umhverfi.
Ég er ekki alveg sannfærður um Destrier, en ég skil ef aðrir eru það. Það er engin spurning að ég ætla að fylgjast með Agent Freco í framtíðinni. Músíkin er ögrandi, ásækin og það er spenna í loftinu.
Hia

7 af 10 stjörnum.
p.s. Umslagið er vel unnið og listrænt í tíðarlitunum: hvítt, grátt og svart með appelsínulit í áherslugrímu. Hvorki heiti hljómsveitar né titill er á framhlið plötunnar sem er í lagi með ódauðlegar plötur, en ekki þær sem ættu að vera að berjast um athygli í plötubúðum, en salan er kannski minnst þar í dag.

Posted in Dómar, Icelandic music reviews, Plötudómar / Record reviews, Tónlist | Leave a comment